10.05.1984
Neðri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5676 í B-deild Alþingistíðinda. (4986)

269. mál, erfðafjárskattur

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé ekki rétt, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að þessi brtt. sem flutt var við 2. umr. hafi verið vindhögg. Hér hefur komið fram yfirlýsing frá hæstv. ráðh. um að tekjur af Erfðafjársjóði eigi að renna óskiptar í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það er nýlunda, a. m. k. miðað við fjögur undangengin ár, því að hann hefur ávallt verið skertur. Ég treysti því að þessi yfirlýsing ráðh. verði til þess að hann muni beita sér fyrir því við næstu fjárlagaafgreiðslu að tekjur af erfðafjárskatti renni óskiptar í Framkvæmdasjóð fatlaðra.