17.10.1983
Efri deild: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 5. landsk. þm. fyrir undirtektir hans við ráðstöfun þá sem hér um ræðir. Hann telur ákvörðun um að fella niður gjaldeyrisskatt hafa verið rétta, en tekna á röngum tíma. Ég veit ekki hvort mér tekst að sannfæra virðulegan 5. landsk. þm. um að þessi ákvörðun hafi bæði verið rétt og tekin á réttum tíma líka.

Þannig stóð nú á að Ísland reyndist vera eina landið sem var með tvöfaldan gjaldeyri. Þær upplýsingar fékk ég þó seinna, við komu mína til Bandaríkjanna á fund Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nokkru fyrir fundinn í Bandaríkjunum komu hingað fulltrúar Atþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Samkvæmt venju ferðast þeir um heiminn og kynna sér efnahagsaðstæður hinna ýmsu þjóða sem eru í þessum samtökum. Þeir báru ótta í brjósti um það, að Ísland mundi ennþá einu sinni óska eftir framlengingu á þessum skatti, en hann hefði komið til umræðu á þeim fundi sem haldinn var í sjóðnum og bankanum í síðasta mánuði. Það var því mikilvægt fyrir okkur að fetla þennan aukaskatt niður áður en til fundarins kæmi, enda var þeirri ákvörðun okkar mikið fagnað og tekið fram sérstaklega að nú væru allar þjóðir orðnar eins. Sem sagt, Ísland væri ekki lengur neitt sérfyrirbæri í Sameinuðu þjóðunum, heldur stæði við þær skuldbindingar sem það hefði tekið á sig samkv. lögum og reglum um þennan sjóð.

Ég vona að þetta nægi til að fullvissa hv. 5. landsk. þm. um það að umrædd ákvörðun hafi af þessari einni ástæðu verið tímabær og rétt tímasett. Það hefði ekki verið skemmtilegt fyrir fulltrúa Íslands að koma ennþá einu sinni á hnjánum til alþjóðasamtaka og biðja um einhverja sérstöðu. Við þurfum alltaf að vera eitthvað öðruvísi en allir aðrir. Í þessu tilfelli gilti allt í einu það sama um alla. Á þessum vettvangi urðum við eins og allir aðrir sem undirskrifað höfðu sama samninginn.

Þar fyrir utan leggjum við mikla áherslu á að ná hingað erlendum gestum til að geta stundað hér þjónustu við erlenda ferðamenn, eins og allar aðrar þjóðir gera, og hafa af þeim tekjur. Þegar erlendir ferðamenn komu í peningastofnanir hér og sáu skráð tvö gengi en fengu lága gengið við skipti á sínum ferðatékkum, ekki hið svokallaða ferðamannagengi, þá var erfitt fyrir íslenska bankamenn, sem leitað var upplýsinga hjá, að útskýra það að hér er sérstakt ferðamannagengi sem þeir fengu ekki aðgang að. Svo komu þeir aftur til peningastofnana, þegar þeir voru á heimleið, til að skipta sínum gjaldeyri og fengu þá ekki heldur þennan ferðamannagjaldeyri. Það var ýmislegt af þessu tagi sem þurfti að leiðrétta og gerði það að verkum, að þessi skattur var ranglátur allan tímann, þó svo að tekjulindin hafi verið nauðsynleg — eða einhver önnur tekjulind vegna þess að innanlandsástæður leyfa ekki miklar skattniðurfellingar.

Þessar skýringar vildi ég gefa, en að öðru leyti held ég að hæstv. dómsmrh. hafi svarað fyrir sig og ég vona að hæstv. viðskrh. svari því sem honum ber að svara. En ég vil upplýsa að okkar fyrirkomulag er nú þannig, hvort sem menn vilja eða vilja ekki, að það er viðskrh. sem er aðalfulltrúi Íslands á fundum Afþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.