11.05.1984
Efri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5720 í B-deild Alþingistíðinda. (5038)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þetta var mjög sérkennileg ræða. Hæstv. ráðh. byrjaði á því að segja að auðvitað hefði hann vitað hvað tekjutap ríkissjóðs væri mikið þegar frv. var lagt fram og hann mundi gera grein fyrir því síðar í sinni ræðu. Síðan upplýsti hann að þetta kæmi fram í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. og hann ætlaði að lesa það en hætti nú fljótlega lestrinum og fór úr ræðustól án þess að svara þessari spurningu og sagðist ekki hafa gögnin með sér hér.

Staðreyndin er sú að þegar frv. er lagt fram er ekki orð að finna í frv. um það hvað tekjutap ríkissjóðs er mikið. Þegar hæstv. ráðh. mætir fyrir frv. minnist hann ekki einu einasta orði á það hversu mikið tekjutap ríkissjóðs er. Þegar nefndin skilar af sér nál. inn í þingið kemur ekki orð um það heldur í nál. hversu mikið (Gripið fram í.) Það er þá hægt að gera grein fyrir því í hverju breytingin er fólgin og hversu mikið tekjutapið hefur aukist, en þetta kemur heldur ekki fram í nál. meiri hl. n., ekki orð um það. Það var því eðlilegt að hæstv. ráðh. gæfist upp á að vitna til þess.

Ég hlýt því að vera í rétti mínum að draga það stórlega í efa að hæstv. ráðh. hafi gert sér grein fyrir því hversu mikið tekjutap ríkissjóðs var. Ég hlýt að segja það alveg eins og er að grunur minn styrkist enn frekar að hæstv. ráðh. hafi enn ekki gert sér grein fyrir því hversu mikið tekjutap hér er um að ræða, enda hefur það ekki komið fram í neinum gögnum.

Það er rangt hjá formanni hv. fjh.- og viðskn. að við höfum fengið það á blaði hvað tekjutapið væri mikið. Við fengum að vísu upplýsingar um það hverju það breytti að veðdeildirnar væru undanþegnar og við fengum líka upplýst um aðra breytingu í frv. Samanlagt voru þetta 18 millj. kr. En það var hins vegar ekki upplýst hversu mikið tekjutapið væri vegna þess að eitt skattárið fellur niður. Það er það sem vegur þyngst og skiptir mestu máli. Það fellur niður eitt skattárið og þar með fellur niður skattur sem nemur um 130 millj. kr. Ég get upplýst hæstv. ráðh. um þetta og ég hygg að hann hafi ekki fyllilega gert sér grein fyrir því. Það er einmitt þess vegna sem ég er að hvetja hann til þess að endurskoða afstöðu sína og gera sér betri grein fyrir þessu máli og hætta við að keyra það fram hér í þinginu vegna þess að hann er að gera fjárhag ríkissjóðs meiri grikk en svo að hann sé maður til að taka þar ábyrgð á.