17.10.1983
Efri deild: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem hér kom fram hjá hv. 5. landsk. þm. — ég hafði reyndar heyrt og lesið í blöðum um þá yfirlýsingu sem Seðlabanki Íslands, sem fer með viðskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, gaf út skömmu eftir ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans — og ummæla minna í útvarpi vildi ég gjarnan koma því á framfæri hér, að viðskipti Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafa á undanförnum árum verið á undanþágureglum sem sjóðurinn hefur haft. Við vorum orðin eina ríkið í hinum vestræna heimi sem þurfti að nýta sér þessar undanþágureglur. Eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. var tekin um það ákvörðun að frá því skyldi horfið, sem þá þýddi m.a. niðurfellingu á sérstökum skatti á gjaldeyri og fjallar einmitt það frv. sem hér er til umr. um það. Til þess að sýna það sem að var stefnt var þetta m.a. gert, að fella niður þennan skatt með þeim brbl. sem leitað er nú staðfestingar Alþingis á.

Þegar því var lokið bar ég fram við Seðlabanka Íslands þá ósk að leitað yrði eftir því að við hyrfum frá þessari undanþágureglu. Og einmitt þegar við vorum staddir á ársfundinum staðfesti stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins það og gaf út yfirlýsingu, sem nánast var þýdd af Seðlabankanum og gefin út á íslensku, um frelsi í gjaldeyrisviðskiptum, eins og það er þar orðað. Hv. þm. taldi að um blekkingar hefði verið að ræða í því sem fram kom hjá mér í útvarpsviðtali. Hér var um að ræða viðtal en ekki einhverja sérstaka yfirlýsingu. Fréttamaður spurði hvað hefði gerst á þessum fundi varðandi Ísland sérstaklega og gat ég að sjálfsögðu um þá yfirlýsingu sem þar hefði verið gefin út og hvað hún raunverulega þýddi og gat þess, að ég hefði fljótlega eftir að ég tók við störfum viðskrh. ákveðið að stefna að því að við hyrfum frá þeirri undanþágureglu sem við hefðum notið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nú væri það orðið.

Það, hvernig við skiptum íslenskum peningum á milli okkar þegna, er allt annað en frjáls gjaldeyrisviðskipti. Áttar hv. þm. sig ekki á því, að um leið og við hverfum frá þessum undanþágureglum er ekki tækifæri fyrir okkur að viðhalda slíkri skattheimtu sem hér er verið að ræða um? Það er heldur ekki hægt að skylda menn til innborgana og annars slíks, auk þess sem íslenska krónan verður að vera til yfirfærslu samkv. þeim reglum sem gilda varðandi viðskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Ég held að það hafi ekkert verið rangt sagt í þessu viðtali. Það má vel vera að hv. þm. hafi ekki fundist að í þessari yfirlýsingu væri nægjanlega mikið af einhverju sem hann vildi tala um frelsi í gjaldeyrismálum. En vissulega er það þýðingarmikið atriði fyrir okkur, eins og fram kom hér hjá hæstv. fjmrh. áðan, að við erum reiðubúnir að starfa eftir þeim reglum sem þær alþjóðastofnanir hafa sett sem við erum aðilar að, en þurfum ekki ævinlega að koma til þeirra eins og bónbjargamenn og fá að vera þar á undanþágureglum. Þess vegna var stefnt að þeirri breytingu sem ég hef hér vikið að. Ég vísa því algerlega á bug að í því sem ég sagði hafi verið rangt með farið.