14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5821 í B-deild Alþingistíðinda. (5148)

Umræður utan dagskrár

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég tel þessa umr. hér tímabæra og sjálfsagða. Mér þóttu fréttir af þessum málum í hádeginu sannast sagna hinar undarlegustu og veit þó að oft virðist svo sem aðrar reglur gildi þegar um nauðgunarmál er að ræða en önnur afbrotamál, að ekki sé nú talað um ýmis undarleg fyrirbæri í kringum þessi mál hvað varðar alla málsmeðferð og dómstóla. Þar má, svo sem áður hefur verið gert hér á Alþingi í vetur, nefna þær furðulegu yfirheyrsluaðferðir sem viðgangast oft og tíðum hér að lútandi. Ærnar grunsemdir vakna vissulega um mismunandi afbrotamat í ljósi þeirra frétta sem hádegisútvarpið var með og enn frekar í ljósi margra þeirra fregna sem maður því miður hefur haft oft og tíðum um hliðstæð mál, án þess að þar séu undir höndum bein og ótvíræð dæmi. En illur grunur hefur oft að mér læðst af ærnum tilefnum, staðfestum og óstaðfestum, um það að málsmeðferð kunni að vera á margan máta önnur varðandi þessi afbrotamál en hin almennu afbrotamál í þjóðfélaginu. Hér eru auðvitað einhver óhugnanlegustu afbrotamálin á ferðinni, sem fyrir koma í okkar þjóðfélagi, og ef ég má koma með samanburð, þó ævinlega sé hann afstæður eftir eðli einstakra undantekninga, þá fullyrði ég það að ólíkt er slíkt mál í minni vitund alvarlegra en stuldur, svo dæmi sé nefnt, þó að ég dragi ekkert úr alvöru þess afbrots.

En meðferðin er áreiðanlega misvísandi ef ekki misjöfn. Og hádegisfréttirnar fundust mér birta okkur ákveðna vísbendingu um þetta, því miður. Það er því full ástæða til þess að hvetja yfirvöld dómsmála til þess að fara gaumgæfilega ofan í þessi mál. Hins vegar er hin hlið þessara mála í raun miklu óhugnanlegri, það eru málin sem aldrei koma neins staðar á dómspappíra eða á rannsóknarstig. Þessi mál komu á sínum tíma mjög til umræðu í kringum frv. um kynlífsráðgjöf og fóstureyðingar. Þegar þau voru til meðferðar í þinginu og í nefndarstörfum komu fram ýmsar upplýsingar sem komu mér a. m. k. þá á óvart í óhugnaði sínum.

Önnur hliðin snertir sem sagt meðferð mála í dómskerfinu, hin höfðar beint til þess almenningsálits sem í veigamiklum atriðum hefur verið brenglað og næstum öfugt við siðgæði og réttlætiskennd gagnvart þolandanum. Jafnhliða dómsmeðferð allri, og málsmeðferð þó aðallega, þarf því sannarlega að rétta af þann áttavita sem öllu skiptir, álit fólks af báðum kynjum á rétti og hlut þolandans í nauðgunarmálum. Því fordæmingarraddir fortíðarinnar eru sannarlega enn á ferð og ráða meiru en okkur grunar og það spilar um leið inn á málsmeðferð alla. Fyrst og síðast þarf að hafa áhrif til aukins réttlætis, betri réttarstöðu þolandans en nú er.

Það mætti vissulega fleira um þetta segja. En þessi meginatriði skulum við hugleiða, og ekki bara hugleiða, heldur gera allt sem unnt er til þess að ná fram þeirri niðurstöðu, sem ein er okkur sæmandi í þessum málum, og breyta því áliti sem er allt of ríkjandi enn þá meðal fólks af báðum kynjum.