14.05.1984
Efri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5822 í B-deild Alþingistíðinda. (5151)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Hv. 8. þm. Reykv. bar hér fram nokkrar spurningar til mín. Ég skal ekki segja hversu fræðilega ég get svarað svona alveg á stundinni, en ég skal reyna að víkja að þeim.

Fyrsta spurningin var það hvort ekki hefðu verið til lagalegar heimildir til að úrskurða gæsluvarðhald. Eftir því sem mér hefur verið tjáð var beiðnin um gæsluvarðhald borin fram á meðan á rannsókn málsins stæði. En síðan, áður en úrskurður var felldur, lágu fyrir játningar hins kærða að fullu, þannig að að því leyti mun hafa verið talið að rannsókn væri lokið. (StB: Má ég koma með eina spurningu um þessi efni? Eru ekki til heimildir fyrir því að fangelsa menn sem taldir eru hættulegir umhverfi sínu?) Ég skal ekki segja hversu víðtækar þær heimildir eru. En dómari er náttúrlega alltaf í vanda með það hversu langt hann má ganga að nýta þessar heimildir. Við vitum að stundum hefur það komið fyrir að of langt hefur verið gengið í þessu. Dómarinn er því þarna vitanlega alltaf í vanda. Út af fyrir sig held ég að það sé rétt að hann hefði haft heimild til þess að úrskurða gæsluvarðhaldið og á það mun ríkissaksóknari ætla að láta reyna, hvort Hæstiréttur muni fallast á slíkt, og þá á þeirri forsendu en ekki endilega á þeirri forsendu að þess gerist þörf vegna rannsóknarinnar. Sem sagt, ég held að heimildin til gæsluvarðhalds sé fyrir hendi. Samt sem áður verður mat dómarans alltaf að koma til um það hvernig henni eigi að beita. Það á við um aðra spurninguna.

Varðandi þriðju spurninguna, hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa áhrif á dómsúrskurði, þá vitum við að mjög hefur verið talað um þrískiptingu valdsins og að hver aðili þar megi ekki hafa of mikil áhrif á hinn. Fyrirmæli til dómara eru því held ég dálítið erfið. En vitanlega hlýtur dómarinn að fara eftir þeim lögum sem löggjafarvaldið setur.

Að því er varðar sjálfræðissviptingu þá hygg ég að erfitt hefði verið að beita henni í þessu tilfelli og kæmi ekki til greina fyrr en að undangenginni rannsókn. Og eins og hér kom fram í umr. nýlega þá þarf til þeirra hluta úrskurði lækna svo að það hlýtur alltaf að þurfa aðdraganda að slíku.

Farbannssviptingin er skilst mér, fyrst og fremst til þess að hinn kærði fari ekki brott áður en dómur hefur verið felldur. Vegna þess sem hv. 11. þm. Reykv. sagði vil ég taka fram að ég svaraði því til að ég væri sáttur við þá málsmeðferð ríkissaksóknara að óska eftir úrskurði Hæstaréttar í þessu máli vegna alvöru verknaðarins. En um það að öðru leyti hvort dómarinn hefur fellt þar eðlilegan úrskurð get ég ekki sagt því að ég hef ekki þau gögn í höndunum sem dómari hefur haft. Ég var beðinn um þessi svör nú með stuttum fyrirvara. En ég vil á engan hátt draga úr alvöru málsins og nauðsyn þess að þarna sé hart á málum tekið.

Um þörf fyrir endurskoðun þessara mála vil ég taka undir það að þörf sé á að skoða þetta. Ég hef rætt það nokkuð í vetur að þegar svona alvarlegur verknaður er framinn á þessu sviði og fleirum, þar sem viðkomandi aðili er með verknaði sínum hættulegur samfélaginu, þá hljóti að þurfa að taka til athugunar hvort gæsluvarðhald sé ekki nauðsynlegt, þrátt fyrir það að enginn eigi að vera sekur fyrr en hann hefur verið dæmdur, en það er grundvallaratriði í okkar réttarfari. Þar hefur mér komið í hug fyrir utan þennan málaflokk t. d. mjög gróf fíkniefnasala. Ég hef rætt um það og vænti þess að geta látið skoða þessa hlið málanna nú á næstunni.