17.10.1983
Efri deild: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að andmæla þeim orðum sem fram komu hér áðan hjá hæstv. fjmrh., þar sem hann var eiginlega að gefa í skyn að fyrirrennari okkar beggja, fyrrv. fjmrh. Tómas Árnason, hefði gerst brotlegur við alþjóðlegar reglur með því að beita sér fyrir því á sínum tíma að þetta gjald var á lagt. Auðvitað var það alls ekki. Auðvitað er það ekki rétt að Íslendingar séu eitthvert sérfyrirbæri í heimi alþjóðaviðskipta með því að hafa lagt á þetta gjald. Það er vitað að tugir þjóða, sem eru aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hafa fengið ýmiss konar undanþágur í sambandi við skattlagningu og gjaldeyrisviðskipti og slíkar undanþágur hafa gjarnan tengst erfiðleikum sem verið hafa í þjóðarbúskap viðkomandi ríkja. Og satt best að segja hefur samþykki Afþjóðagjaldeyrissjóðsins við slíkum undanþágum verið ákaflega auðsótt. Það hefur ekki verið neitt mál, sem heitið getur, af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að veita slíkar undanþágur. Þetta þekki ég allra manna best vegna þess að ég ræddi við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haustið 1982 þegar spurningin var hvort ekki mætti halda þessu gjaldi árið 1983. Þeir sögðu að það væri alveg sjálfsagt mál, sáu ekki neitt athugavert við það. Ef þess væri óskað að framlengja gjaldið um eitt ár í viðbót, þá væri það sjálfsagður hlutur og yrði þá að freista þess að taka málið upp á síðara stigi, t.d. þegar fyrirhuguð endurskoðun tollskrár færi fram og innflutningsgjöld yrðu tekin til uppstokkunar og endurskoðunar, því að þeim datt auðvitað ekki annað í hug en að sá fjmrh. sem yrði í starfi þegar gjaldið yrði lagt niður mundi gera ráðstafanir til að tryggja einhverjar aðrar tekjur í staðinn. Að menn mundu bara spila þessu út alveg fríhendis án þess að fá nokkuð á móti, það.datt þeim að sjálfsögðu ekki í hug. Þeir töldu því eðlilegt og fullkomlega skiljanlegt að við værum ekki reiðubúnir að leggja niður þetta gjald fyrr en búið væri að fjalla um ný tollskrárlög og tryggja tekjur á móti.

Ég er ekki í neinum minnsta vafa um það, að ef minnst hefði verið á það við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að við þyrftum að framlengja þetta gjald eitt eða tvö ár í viðbót, þá hefði það verið auðsótt mál og ekki nokkur minnsta athugasemd við það gerð. Vissulega hafa þeir borið fram tilmæli um, eins og þeir gera gjarnan, að slíkar undanþágur séu afnumdar, en þeir eru ekkert óbilgjarnari gagnvart Íslendingum en öllum öðrum þjóðum sem hafa verið með einhverjar undanþágur af þessu tagi. Þær eru fjöldamargar og það er mesti misskilningur, sem hæstv. fjmrh. var að reyna að gefa í skyn hér áðan, að Íslendingar hefðu verið eitthvert sérfyrirbæri í heimi alþjóðaviðskipta vegna þessa gjalds. Vissulega er þetta undanþága, þetta er undantekning, en alls ekki einasta undantekningin sem sjóðurinn hefur orðið að samþykkja. Þær eru fjöldamargar, gagnvart fjöldamörgum þjóðum. Ég tel alveg víst að framlenging hefði fengist á þessu gjaldi, ef um það hefði verið sótt, á næsta ári. Að gjaldið væri allt í einu fellt niður á miðju fjárlagaári, það er auðvitað hlutur sem þeim datt aldrei í hug að gæti gerst, og að menn gerðu þá ekki neinar ráðstafanir til að aðrar tekjur kæmu í staðinn, það held ég að engan hafi grunað.

Auðvitað er það laukrétt, sem hér kom fram áðan hjá hv. 5. landsk. þm. Eiði Guðnasyni, að það lá ekkert á að fella niður þetta gjald. Síst af öllu lá á því þegar að kreppir í okkar þjóðarbúskap og þörf er á fjármunum til ýmissa hluta. Kannske sýnir þessi niðurfelling gjaldsins fyrst og fremst að núv. ríkisstj. hefur tekið við betra búi hvað ríkisfjármálin snertir en hún vill vera láta.

Það kom fram áðan í máli hæstv. fjmrh. að gjaldið hefði gefið tæpar 60 millj. kr. Ég man ekki nákvæmlega hvenær það var fellt niður, ætli það hafi ekki verið um miðjan júlímánuð eða um mánaðamótin júní-júlí. Það hefur því gefið um 60 millj. á fyrstu 51/2–6 mánuðunum og má því heita víst að gjaldið hefði gefið um 80 millj. á síðari hluta ársins. Það fella menn niður eins og ekkert sé.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín öllu fleiri. Ég vil bara bæta því við að þegar gjaldið var lagt á á sínum tíma var það gert með skýrum rökum. Það var gert með þeim rökum að ferðamenn, sem ferðuðust um Ísland, yrðu að greiða söluskatt af allri þjónustu sem þeir fengju hér á Íslandi, m.a. ferðalögum, að vísu ekki af matvörum og með hliðsjón af þessu þótti það jafnræði milli þeirra sem ferðast til útlanda annars vegar og þeirra sem ferðast hér innanlands að þeir sem færu í skemmtiferðir utanlands greiddu 10% gjald. Vel má vera að það hefði ekki gengið til lengdar að vera með þessa undanþágu. Þó að ég hafi sagt hér að við hefðum vafalaust á þessum erfiðleikatímum getað fengið þetta framlengt um eitt eða tvö ár, þá má vel vera að við hefðum þurft að endurskipuleggja innheimtu þessa gjalds og haga álagningu þess með eitthvað öðrum hætti til þess að það samrýmdist fyllilega reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En sanngjarnt er gjaldið að þessu leyti, að það stuðlar að því að íslenskur ferðamannaiðnaður sitji við sama borð og erlendur ferðamannaiðnaður. Það er hins vegar alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. hefur stundum verið að benda á, að vissulega hafa einhverjir sloppið við að greiða þetta gjald vegna þess að þeir hafa farið utan á kostnað fyrirtækja sinna eða á kostnað ríkisins. En auðvitað verður ekki fyrir öll nes róið yfirleitt og ég held að hvað samkeppnisaðstöðu íslensks ferðamannaiðnaðar snertir hafi álagning þessa gjalds verið fullkomlega réttlætanleg.

En sem sagt, það virðist vera talsvert í kassanum, það var ekki tal.in þörf á að halda þessu gjaldi út árið og þar við situr.