17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6085 í B-deild Alþingistíðinda. (5506)

380. mál, utanríkismál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka í þessari umr. meðnefndarmönnum mínum í hv. utanrmn. fyrir það samstarf, sem við höfum átt í vetur og verið hefur gagnlegt og lærdómsríkt, og sérstaklega formanni n. og ekki síður varaformanni sem hefur oft orðið að hlaupa í skarðið í fjarveru formannsins. Þá vil ég einnig þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur gefið hér og lagt fyrir þingið, sömuleiðis þá skýrslu, sem liggur fyrir um verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Ég tel að þessar skýrslur geti báðar verið mikilvægur grundvöllur fyrir umræður um utanríkismál þó að tíminn sé mjög naumt skorinn. Ég vil leyfa mér áður en ég vík að skýrslunni að taka undir þau orð sem hæstv. utanrrh. hafði um störf og sérstaklega landkynningu forseta Íslands á liðnum mánuðum og misserum og hvað þau störf eru þjóðinni mikilvæg og gagnleg á alþjóðlegum vettvangi.

Ég verð hins vegar að játa það að mér finnst að þessi skýrsla hæstv. utanrrh. sæti í raun og veru ákaflega litlum tíðindum. Í henni og ræðu hæstv. ráðh. áðan kemur ekki fram vottur, ekki milligramm af gagnrýni á Bandaríkjastjórn eða Atlantshafsbandalagið. Þar eru menn teknir í dýrlingatölu og þar er hvergi kusk á hvítflibbanum. Uppsetning hæstv. ráðh. í þessum efnum er eins nákvæmlega eftir bandarískri forskrift og hægt er að hugsa sér og ekkert er í raun og veru gagnrýnivert nema það sem kemur frá Sovétríkjunum. Hvergi örlar á því að smáþjóðirnar þurfi að gjalda varhug við yfirgangi stórveldanna, hvors þeirra sem er.

Ég tel því að það mat, sem fram kemur í skýrslu utanrrh., sé í raun og veru ekki í samræmi við þá hagsmuni sem íslenska þjóðin hefur í utanríkismálum og atþjóðamálum um þessar mundir. Það er t. d. athyglisvert að hæstv. utanrrh. skuli í þessari skýrslu sjá sérstaka ástæðu til þess að hafna raunhæfum hugmyndum bandarískra þm. um frystingu sem hafa verið mjög ræddar hér á yfirstandandi þingi. Mér er ekki kunnugt um það hvort það er ríkisstj. í heild sem stendur á bak við þær hugmyndir og þá afstöðu sem fram kemur hjá hæstv. ráðh. um að hafna þessum hugmyndum sem aðallega eru kenndar við tvo þekkta bandaríska öldungadeildarþm. Fróðlegt væri að inna fulltrúa Framsfl. í utanríkismálum eftir því hvort þeir eru sammála því að frysting sé eins varasöm og hæstv. utanrrh. lætur að liggja í máli sínu og í skýrslunni sjálfri.

Í skýrslu þessa skortir síðan gjörsamlega mat á áformum Bandaríkjamanna um þróun herstöðvarinnar á næstu árum. Þó liggur það fyrir að aftur og aftur hafa komið fram upplýsingar um það að í bandaríska hermálaráðuneytinu eru uppi áform um verulegar breytingar á herstöðinni og stöðu Íslands hér í Norður-Atlantshafinu sem hluta af hernaðarkerfi Atlantshafsbandalagsins.

Ég held að óhjákvæmilegt sé að ætlast til þess af utanrrn. að það taki saman skýrslu um mat utanrrn. á þessum hugmyndum sem fram hafa komið af hálfu opinberra aðila í Bandaríkjunum, m. a. um að loka GIUK-hliðinu, að setja hér á Íslandi upp eldflaugar og að byggja hér á Íslandi stjórnstöð sem geti haldið út eða staðist fullt stríð í sjö daga. Fyrir nokkru birtist í bandarískum blöðum grein eftir William Arkin sem hefur aftur og aftur fjallað um þessi mál og nýtur mikillar virðingar í Bandaríkjunum, m. a. í bandaríska þinginu. Í þeirri grein, sem nýlega birtist eftir hann og hér hefur áður borið á góma á hv. Alþingi, kemur fram að hann hefur það eftir yfirmanni bandaríska flotans að ekki dugi lengur aðeins að loka GIUK-hliðinu á milli Grænlands, Íslands og Skotlands heldur þurfi Bandaríkin að geta eytt óvinasprengiflugvélum við flugtak áður en þær komist í skotfæri við Bandaríkin. Í þessari grein segir að yfirstjórn herafla Bandaríkjanna hafi á árinu 1981 endurmetið hernaðarviðbúnað Bandaríkjanna á Íslandi og sett fram nýja áætlun um hernaðaruppbyggingu á Íslandi sem beri heitið Varnarkerfið í Norður-Atlantshafi. Miði þessi áætlun að því að koma á nánari samvinnu flughers og flota og í þeim tilgangi eigi að koma upp hreyfanlegum radarstöðvum á Íslandi sem fylgt geti sveigju jarðar og miðað út skotmörk í 2900 km fjarlægð. Þá er ætlunin skv. þessari áætlun frá árinu 1981 að AWACS-flugvélarnar hér á landi hafi það hlutverk að stjórna gagnárásarflugvélum bandaríska flughersins og gert er ráð fyrir því að nýjar F-15 orrustuþotur komi hingað til landsins til þess að taka þátt í að framkvæma þessa áætlun.

Síðan er greint frá því í opinberum bandarískum gögnum að ætlunin sé að byggja neðanjarðarstjórnstöð í Keflavík sem geti staðist fullt stríð, eins og það heitir, í sjö daga. Jafnframt er í þessari áætlun frá 1981 talað um nauðsyn þess að byggja ný og styrkari flugskýli, en þær framkvæmdir eru nú í gangi, og auka olíubirgðir, en þær framkvæmdir eru einnig í gangi, þannig að olíubirgðirnar geti dugað flugvélum sem ekki heyra undir herafla NATO, en þar er átt við sprengiflugvélar af gerðinni B52 sem bera langdrægar kjarnorkueldflaugar. Þessar olíubirgðir eiga að geta dugað þessum vélum í 45 daga.

Nú kunna menn að hafa misjafna afstöðu til hersetunnar hér á landi, til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu, en kannske er það ekki það sem skiptir máli í þessu sambandi sem ég er hér að rekja heldur hitt að það er skylda utanrrn. að meta og gera grein fyrir sínum skoðunum á hugmyndum af því tagi sem ég var hér að gera grein fyrir um þessar hrikalegu breytingar á vígbúnaði Bandaríkjamanna hér á landi.

Ég tel að það sé mjög verulegur galli á þessari skýrslu hæstv. utanrrh. að hann skuli ekki taka afstöðu til þessara umræðna og opinberra gagna sem aftur og aftur hafa komið fram, m. a. af hálfu bandarískra yfirvalda. Fróðlegt væri að inna hæstv. utanrrh. eftir því hér og það skal nú gert: Kannast hann við þessa áætlun fyrir Ísland sem gerð var í bandaríska hermálaráðuneytinu árið 1981? Ég hygg að ég ljóstri ekki upp neinu óttalegu leyndarmáli þegar ég geri grein fyrir því að fyrrv. hæstv. utanrrh. hefur tjáð mér að hann hafi enga slíka skýrslu fengið í hendur. Hefur núverandi hæstv. utanrrh. fengið slíka skýrslu í hendur um áform Bandaríkjanna og hvaða afstöðu hefur utanrrh. til þessara hugmynda sem Bandaríkjastjórn er þarna með?

Þegar samin er skýrsla um utanríkismál á hún að byggjast á sjálfstæðu, íslensku mati á þeim aðstæðum sem Ísland býr við í hinu alþjóðlega samfélagi. Við eigum ekki að taka forskrift frá einum eða neinum í þessu efni. Við þurfum að meta málin sjálfstætt, óháð öðrum. Ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um það að yfirgnæfandi meiri hluti íslensku þjóðarinnar styður friðarstefnu í utanríkismálum en vill hafna þeirri stríðsstefnu og vígbúnaðarstefnu sem Atlantshafsbandalagið fylgir og núverandi hæstv. utanrrh. hefur skrifað upp á í einu og öllu. Við verðum að horfast af fullu raunsæi í augu við þá alvarlegu staðreynd að nú er það svo í fyrsta sinn að unga kynslóðin ber uppi kröfur um það eitt að fá að lifa, að fá að eiga morgundag í þessum heimi. Aldrei áður hefur vígbúnaðarbrjálæðið komist á það stig að milljónir æskufólks telji í rauninni að krafan um líf sé grundvallaratriði og kjörorð að fá að lifa morgundaginn. Og það er ekki aðeins léttúð. Okkur í þessari stofnun, svo og öðrum Íslendingum sem gegna einhverjum trúnaðarstörfum, er í rauninni óheimilt annað en að velta þessu vandlega fyrir okkur og hvernig við getum lagt lóð á vogarskálar friðsamlegrar þróunar í heiminum þannig að börn okkar geti átt morgundag.

Það má verða okkur nokkurt umhugsunarefni einmitt nú á þessu ári, á 40 ára afmæti íslenska lýðveldisins, hvernig þessum málum er komið, að verið er að reyra þjóðina fastar í vígbúnaðarnet Bandaríkjamanna og stórveldanna en nokkru sinni fyrr. Það er þrengt með alvarlegri hætti að sjálfstæði þjóðarinnar en lengi áður, bæði í herstöðvarmálunum og líka skv. hugmyndum ríkisstj. um þrjú álver sem ræddar voru hér í gærkvöldi.

Við skulum gera okkur vel grein fyrir því að afstaða manna til herstöðvarinnar byggist hins vegar ekki eingöngu á því hvernig málum er háttað í utanríkismálum, svo mikilvæg sem þau eru, og hinni alþjóðlegu þróun, heldur byggist afstaða manna til herstöðvarinnar líka á því að menn telja að í henni sé fólgin ógnun við sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, tungu hennar og menningu.

Það er í rauninni hrikalegt að lesa þá skýrslu sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fram og ég þakka honum fyrir að hafa lagt hér fram um verktakastarfsemi Íslenskra aðalverktaka og Keflavíkurverktaka og horfa á þau gífurlegu hagsmunatengsl mörg hundruð manna á Íslandi sem eru háðir því, ekki aðeins í atvinnu sinni, heldur að öllu leyti fjárhags- og eignalega, að herinn verði áfram hér í landinu. Það er lífsspursmál fyrir þessa einstaklinga og afkomu þeirra.

Þessir aðilar komu mjög við sögu fyrir 10 árum þegar til stóð að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin. Þá fylktu þeir liði á skrifstofu formanns Framsfl., sem þá hafði með forustu í þáverandi ríkisstj. að gera, og það var þetta lið sem sneri Framsfl. niður í því að standa við fyrirheit þáverandi ríkisstj. um brottför hersins.

Þannig er komið að hundruð manna, fjársterkra einstaklinga, eru svo gjörsamlega venslaðir hersetunni að það er útilokað að þessir aðilar geti nokkurn tímann samþykkt, miðað við núverandi aðstæður, að herinn fari úr landinu. Og þessir aðilar eiga mikið undir sér. Þeir hafa sterk tengsl, m. a. við blöð. Þeir hafa sterk tengsl, m. a. við stjórnmálaflokka. Það er fróðlegt að sjá í skýrslu utanrrh. um verktakastarfsemina að fyrirtækin sem annast verktakastarfsemina voru stofnuð að undirlagi ríkisstj. Íslands á sínum tíma. Það var séð svo um þegar gengið var frá stofnun þessara verktakafyrirtækja að allir flokkarnir sem studdu hernámið gætu fengið eitthvað úr þeim aski sem Bandaríkjamönnum þóknaðist að láta brauðmolana hrjóta í. Það var þrískipting á milli þessara flokka, Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. við myndun þessara fyrirtækja og það er fróðlegt að virða fyrir sér hluthafaskrárnar í þessari skýrslu. Fróðlegt er að virða það fyrir sér hverjir það eru sem þarna koma við sögu. Það er alvarlegt mál þegar Samband ísl. samvinnufélaga, samvinnuhreyfingin er það stundum kaltað, gerist þátttakandi í hermangi og verður 25% eignaraðili að fyrirtækinu Íslenskir aðalverktakar.

Reginn hf. er fyrirtæki Sambandsins í þessu efni. Sambandið á nærri öll hlutabréfin í Regin hf. Stjórnarformaður Regins hf. er Erlendur Einarsson, forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga. Þannig er verið að reyra forustu Sambands ísl. samvinnufélaga fasta á hermangsklafann og þar með í rauninni verið að lama þá ýmsu ágætu menn í Framsfl. sem telja að æskilegt væri að losa Ísland við smán hersetunnar. Þegar til kastanna kemur eru það þessir menn, sem fjármunina hafa, sem valdið hafa í þeim flokki, eins og dæmin sanna frá liðnum árum og áratugum.

Það er þetta sem ég tel að sé ógnun við sjálfstæði íslensku þjóðarinnar þegar heilu fyrirtækin, heilu flokkarnir, heilu blöðin eru að lífshagsmunum sínum orðin háð hersetunni. Getum við þá gert okkur vonir um það að einhvern tímann renni upp ljós fyrir þessum aðilum og þeir sjái að sóma Íslands vegna er brýnt að losa landið við herstöðina? Er hersetan kannske ekki lengur í augum þessara aðila ill nauðsyn? Er það kannske þannig í augum þessara aðila að hersetan sé góð nauðsyn þar sem drýpur smjör af hverju strái? Það hlýtur að vera augljóst fyrir hverjum einasta manni hve það er háskalegt ef bandaríski herinn fer að ráða pólitískri afstöðu manna einungis vegna þess að þeir fái að vinna einhver verk fyrir hernámsliðið suður á Keflavíkurflugvelli. Ég tel að það sé mjög alvarleg staðreynd og það sé sama hvar í flokki menn eru og hvar menn eru kosnir, menn hljóti að verða að viðurkenna að þetta er ógnvekjandi staðreynd.

Það eru heldur engir smáfjármunir sem fara í gegnum hendurnar á þessum stóru fyrirtækjum. Í skýrslu utanrrh. um Íslenska aðalverktaka kemur fram að á árunum 1978–1983 fóru 103 millj. dollara í gegnum gjaldeyrisskil Íslenskra aðalverktaka eða 3 milljarðar ísl. króna. Halda menn að þetta komi ekki einhvers staðar við, skilji ekki einhvers staðar eftir sig spor í okkar litla samfélagi og efnahagskerfi? Það er ekki hægt að yppta öxlum andspænis jafnhrikalegum tölum og þeim sem hér voru nefndar.

Það er einnig fróðlegt í þessari skýrslu og alvarlegt að sjá hve mikill fjöldi Íslendinga hefur lífsviðurværi sitt af störfum í tengslum við herstöðina. Sú staðreynd á að vera okkur hvatning til þess að efla stórum atvinnulíf á Suðurnesjum til þess að hægt sé að bjóða fólki þar upp á þjóðnýt störf í íslenskum fyrirtækjum og hægt verði að losa um þau tengsl sem þetta fólk hefur í vinnu sinni við bandarísku herstöðina. Það er útilokað annað en að minna á þetta einmitt núna þegar ekki er nema rétt mánuður þangað til við minnumst þess að 40 ár eru liðin frá stofnun íslenska lýðveldisins. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að herstöðin er enn fleinn í holdi þjóðarinnar. Hún klýfur menn í fylkingar og ágreiningurinn um utanríkisstefnuna á Íslandi er meiri en í nokkru öðru ríki Atlantshafsbandalagsins, m. a. vegna þess að í brjósti manna lifir enn þá sú glóð sem varð til við stofnun lýðveldisins á sínum tíma.

Þess vegna er í rauninni varla sæmilegt að við ræðum um utanríkismál hér öðruvísi en við höfum þetta grundvallaratriði fyrir framan okkur, að það er sjálfstæði þessarar þjóðar í dag og á morgun sem við þurfum að hugsa um og það er það að börn okkar eigi morgundag, að þau eigi líf í þessu landi.

Ég vil þessu næst, herra forseti, leyfa mér að gagnrýna það hversu seint þessar skýrslur eru fram komnar hér á Alþingi. Ég veit að ekki er við forsetana að sakast hversu seint skýrslurnar eru teknar til umr. Þær komu einfaldlega ekki fyrr en fyrir örfáum dögum og eru á þskj. 743 og 744. Þetta er slæmt vegna þess að umr. um utanríkismál þarf að fá góðan tíma í dagskrá þingsins. Menn þurfa að geta gefið sér a. m. k. einn góðan umræðudag jafnvel með kvöldfundi til þess að fara yfir skýrslur af þessum toga. Það er varla sómasamlegt fyrir okkur að við afgreiðum umr. um skýrslu utanrrh. jafnvel á örfáum klukkutímum í þrengslum á milli annarra dagskrárliða. Þegar skýrslan er komin hingað inn á Alþingi að sýna henni og málefninu þann sóma að það fái eðlilegan tíma til umfjöllunar.

Í þessu sambandi, herra forseti, er óhjákvæmilegt að vitna til þess að á síðasta kjörtímabili var staðið allt öðruvísi að utanríkismálum, einkum gagnvart herstöðinni, Bandaríkjastjórn og Atlantshafsbandalaginu, en nú er gert. Þegar hæstv. utanrrh. fagnaði myndun núverandi ríkisstj. taldi hann það helst til jákvæðra tíðinda að nú væri ekki lengur um að ræða neitunarvald Alþb. í utanríkismálum. Ég tók vel eftir þessu vegna þess að með þessu viðurkenndi utanrrh. að þetta stöðvunarvald sem þarna var um að ræða í síðustu ríkisstj. hafði verulega þýðingu. Það var ekki með öllu þrautalaust að halda utan um þetta neitunarvald í síðustu ríkisstj. eins og kunnugt er og deilur komu oft upp á milli okkar Alþýðubandalagsmanna og þáverandi hæstv. utanrrh. Þó er ljóst að þetta neitunar- og stöðvunarvald hafði verulega þýðingu og var einn af hornsteinum þess stjórnarsamstarfs, að ekki yrði um að ræða verulegar framkvæmdir í herstöðinni á þeim tíma sem stjórnin sat og að um þessi mál yrði fjallað í ríkisstj. sjálfri.

Alþb. hefur áður tekið þátt í ríkisstj. en á árunum 1980–1983. Þá sátu hér utanrrh. sem neituðu að taka utanríkis- og herstöðvarmál til umr. í ríkisstj . vegna þess að menn sögðu að þeir treystu sér ekki og vildu ekki ræða málin við Alþb. Fyrrv. hæstv. utanrrh. breytti þessu fyrstur utanrrh. hér á landi og ég met það mikils við hann. Ég tel að með þessum skoðanaskiptum, sem þannig urðu til, hafi þrátt fyrir allt skapast möguleikar fyrir betra samstarfi og málefnalegri umr. en ella hefði verið kostur á.

Eftir að núverandi ríkisstj. var mynduð fylgdu strax í kjölfarið ákvarðanir um stórfelldar framkvæmdir í herstöðinni og um að draga Ísland enn þá þéttar inn í vígbúnaðarnet stórveldanna. Tekin var ákvörðun um margföldun olíugeymarýmis í Helguvík. Eins og menn muna voru rökin fyrir byggingu geymanna í Helguvík í upphafi þau að losa þyrfti byggðarlögin í Keflavík og Njarðvík við þá mengunarhættu sem stafar af núverandi geymum hersins. Nú eru þessi rök hljóðnuð. Það er strikað yfir þau sem aðalrök í málinu. Nú eru aðalrökin þau að olíugeymana þurfi að nota til þess að styrkja almenna stöðu flughernaðar Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafinu. Það eru sem sagt hernaðarleg rök í forgrunni en ekki umhverfisverndarrök eins og menn voru að reyna að tína til hér áður. Þessi framkvæmd var sett á stað eftir að núverandi ríkisstj. tók við.

Í öðru lagi hleypti hún af stað byggingu flugstöðvarinnar sem hafði verið stöðvuð vegna þess að menn töldu að Íslendingar hefðu annað við peningana að gera en að byggja slíkt hús suður á Keflavíkurflugvelli og svo hitt að menn vildu ekki taka við amerískum peningum í samgöngumannvirki sem áttu að heita íslensk. Þess vegna var þessi framkvæmd stöðvuð um nokkurra ára bil. Núverandi ríkisstj. hleypti þessu af stað.

Í þriðja lagi er það núna á dagskrá ríkisstj. að reistar verði í a. m. k. tveimur landshlutum eða þremur nýjar radarstöðvar fyrir bandaríska herinn. Þegar hafa farið fram kannanir í þessu skyni að því er sagt er. Hins vegar hefur utanrrh. alltaf sagt að formleg beiðni um radarstöðvarnar hafi ekki borist. Þetta hefur hann sagt núna í 10 mánuði og ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því núna því bráðum á ríkisstj. eins árs afmæli og ráðh. hefur lengi sagt þetta: Hefur borist formleg beiðni frá Bandaríkjastjórn um byggingu radarstöðva hér á landi?

Í fjórða lagi hefur núverandi ríkisstj. heimilað byggingu níu sprengiheldra flugskýla á Keflavíkurflugvelli, en framkvæmdir við þau stöðvuðust eða töfðust þann tíma sem fyrrverandi ríkisstj. sat.

Í fimmta lagi hefur verið rætt um það, m. a. í opinberum bandarískum gögnum, að nú væri í undirbúningi að koma fyrir stjórnstöð, verulega dýrri og sterkri stjórnstöð í Keflavík. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvernig stendur á því að hann nefnir ekki þessar vangaveltur um neðanjarðarstjórnstöð bandaríska hersins í Keflavík?

Í sjötta lagi hefur það komið fram á síðustu mánuðum frá því að núverandi ríkisstj. tók við að núverandi utanrrh. styður í einu og öllu uppsetningu meðaldrægra eldflauga í Evrópu.

Þegar þetta allt er skoðað sjá menn hvílík feiknabreyting hefur orðið á framkvæmd utanríkismála frá síðustu ríkisstj. til þessarar ríkisstj. Á því er ekki nokkur vafi að Alþb. réði þar úrslitum og stöðvun á útfærslu hernámsins er mikilvægur, pólitískur ávinningur að okkar mati miðað við allar aðstæður eins og þær eru núna.

Við leggjum auk þess vissulega áherslu á að Ísland verði aðili að yfirlýsingum um kjarnorkuvopnalaus svæði, sbr. till. okkar um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, og við teljum einnig að rétt væri að setja lög á Alþingi sem banna kjarnorkuvopn hér á landi í landhelgi Íslands og lofthelgi. Okkar stefna er sú að Ísland eigi að leggja lóð á vogarskál friðarins. Okkar stefna er sú að Ísland eigi að vera friðlýst land og utan hernaðarbandalaga, en við erum reiðubúin til samfylkingar um hvaðeina sem dregur úr þeirri hernaðarógn sem stafar af herstöðinni.

Hvert eitt skref í átt til friðar í þessum efnum er fagnaðarefni jafnvel þó að það sé smátt. Hins vegar fer núna með utanríkismál Íslendinga maður sem er þeirrar skoðunar og heldur þeirri skoðun fram fullum fetum og dregur þar ekkert undan að í rauninni megi aldrei ganga hnífurinn á milli Bandaríkjastjórnar og Atlantshafsbandalagsins annars vegar og íslenskra stjórnvalda hins vegar. Stundum finnst mér Geir Hallgrímsson hæstv. utanrrh. vera kaþólskari en páfinn.

Sérstaklega er mér það minnisstætt þegar innrásin var gerð í Grenada þá taldi ég Geir Hallgrímsson hæstv. utanrrh. verja þá innrás af meiri fimi og sannfæringu en mér sýndist Ronald Reagan geta gert. Að vísu sá hæstv. utanrrh. sig svo um hönd fáeinum dögum síðar og lét styðja fordæmingu á innrásinni í Grenada, en þegar hann kom hér fyrst upp í umr. um málið á hv. Alþingi var greinilegt með hverjum hjarta hans stó. Það fór ekkert á milli mála.

Ég mun nú þessu næst, herra forseti, víkja nokkuð að einstökum atriðum í skýrslu hæstv. utanrrh. og drep fyrst niður á síðu 10 í skýrslunni þar sem hann vitnar í ræðu sem hann flutti við upphaf allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Þar sagði hæstv. ráðh., með leyfi forseta, á þessa leið:

„Við Íslendingar byggjum afkomu okkar fyrst og fremst á auðlindum sjávarins. Við höfum því miklar áhyggjur af vígbúnaði í hafinu. Lítilsháttar óhapp, að ekki sé talað um meiriháttar slys, getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir fiskistofna okkar og þar með allan efnahag. Þetta skiptir ekki eingöngu Íslendinga heldur og okkur öll máli. Verndun hafsins sem matarkistu fyrir milljónir sveltandi manna er lífsnauðsyn og okkur er öllum skylt að vinna saman að því að koma í veg fyrir hvers konar mengun hafsins. Okkur ber sífellt að hafa þetta í huga og haga gerðum okkar samkvæmt því.“

Ég les þetta upp úr ræðu hæstv. ráðh. vegna þess að ég er sammála því og tel að hérna sé komið að máli þar sem við gætum í rauninni öll á hv. Alþingi náð saman. Ég held að við ættum, líka vegna þess ágreinings sem uppi hefur verið í utanríkismálum hér á landi, að leggja rækt við mál þar sem við getum náð saman í þessum efnum. Ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort utanrrn. eða hann sjálfur hafi eitthvað aðhafst frá því að allsherjarþingið var sett til þess að framkvæma þá skoðun sem fram kemur í þessum tilvitnuðu orðum ráðh. Ég er viss um að Alþingi Íslendinga myndi styðja öll skref í þá átt sem hér er drepið á og það væri æskilegt ef ráðh. sæi sér fært að svara þessari spurningu minni.

Á bls. 15, 16 og áfram í skýrslu utanrrh. er fjallað um alþjóðastofnanir og svæðasamtök. Ég vil sérstaklega láta það koma fram að ég tel að á síðasta ári hafi átt sér stað mjög mikilvægur viðburður í sambandi við aðild og þátttöku Íslands í Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Þá gerðist það í fyrsta sinn að Ísland fékk kjörinn fulltrúa í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar til þriggja ára. Fulltrúi Íslands var þá tilnefndur Almar Grímsson lyfjafræðingur. Í framhaldi af þessari ákvörðun hefur það gerst núna fyrir fáeinum mánuðum að núverandi hæstv. heilbrrh. hefur undirritað samning um þátttöku Íslands í sérstöku samvinnuverkefni um forvarnir og faraldsfræðilegar rannsóknir. Var samningurinn undirritaður 10. febrúar s. l. Ég er sannfærður um að Ísland getur gegnt mikilvægu hlutverki í þessu efni. Við eigum góðar heilbrigðisskýrslur fyrir síðustu ár og áratugi og ég er viss um að virk þátttaka Íslands í alþjóðastofnun eins og Alþjóðaheitbrigðisstofnuninni getur verið einn besti stuðningurinn við þróunarlöndin og þau lönd, sem eru skemmra á veg komin, sem við getum veitt.

Í þessu sambandi vil ég minna á að fyrir fáeinum árum var tekin um það ákvörðun að íslenska ríkið greiddi laun íslensks læknis sem starfaði í Gíneu-Bissau. Hér er um að ræða mjög skynsamlega aðstoð að mörgu leyti og einnig sú ákvörðun núverandi ríkisstj. að styðja það að sendir voru tveir íslenskir kennarar til starfa í Ghana um eins árs skeið. Ég tel að það sé mjög skynsamleg ákvörðun.

Í sambandi við alþjóðastofnanir vil ég hins vegar leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvernig á því stendur að í skýrslunni er hvergi sérstakur kafli um Alþjóðavinnumálastofnunina sem er þó ein þýðingarmesta stofnunin sem Ísland tekur þátt í. Reglulega er dreift hér frá félmrn. skýrslum um Alþjóðavinnumálastofnunina. Þær eru hins vegar yfirleitt mjög komnar til ára sinna þegar þær loksins berast hingað og gera lítið gagn sem umræðugrundvöllur fyrir hv. Alþingi. Ég vil beina því til hæstv. utanrrh. hvort hann teldi ekki eðlilegt, fyrst á annað borð er verið að telja hér upp alþjóðastofnanir og svæðasamtök sem við erum aðilar að, að Alþjóðavinnumálastofnunin væri þar einnig með.

Það hafa verið skiptar skoðanir um það hvort Ísland ætti að taka þátt í Alþjóðavinnumálastofnuninni. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. utanrrh. hvort ætlun ríkisstj. sé að hafa fullgilda sendinefnd á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í júní í sumar? Með „fullgild sendinefnd“ er átt við einn fulltrúa frá verkalýðssamtökunum, einn fulltrúa frá Vinnuveitendasambandinu og einn fulltrúa frá ríkinu. Það hefur verið brotalöm í framkvæmd þessa um margra ára skeið, en ég vildi inna eftir því hvort það er ætlun núverandi ríkisstj. að taka með þessum hætti, sem ég rakti, fullgildan þátt í starfi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Ég vík þessu næst, herra forseti, að kaflanum um Norðurlandasamvinnu. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Stundum heyrast hér á landi raddir um það að norræn samvinna sé lítið meira en orðagjálfur, fundahöld, veislur, skriffinnska og pappírsflóð. En verkin sýna merkin og kveða slíkar úrtölur niður. Nefna má t. d. sameiginlegt tryggingakerfi, gagnkvæm námshlunnindi gagnkvæman búseturétt og atvinnuréttindi, þ. e. sameiginlegur vinnumarkaður (Ísland fékk þar vissan fyrirvara viðurkenndan) og gagnkvæmur kosningaréttur til sveitarstjórna. Af öðrum ótvíræðum ávinningi Íslendinga af samstarfi við Norðurlönd mætti minna á Norræna iðnþróunarsjóðinn fyrir Ísland, lánafyrirgreiðslur og lánamöguleika hjá Norræna fjárfestingabankanum, Norrænu eldfjallarannsóknarstöðina og Norræna húsið. Á þessu ári ákváðu Norðurlönd að veita Íslendingum verulegan fjárstuðning til átaks í markaðsöflun fyrir íslenskar vörur á Norðurlöndum og er nánar skýrt frá því máli í kaflanum um utanríkisviðskipti. Á þessu sést að norræn samvinna er ekki aðeins í orði heldur svo sannarlega einnig á borði.“

Undir þennan kafla vil ég leyfa mér að taka. Ég tel hins vegar engu að síður rétt að draga athygli manna að því að ég held að nauðsynlegt sé að við veltum dálítið betur fyrir okkur þátttöku okkar í hinni norrænu samvinnu. Samstillingin á þátttöku rn. annars vegar í norrænni samvinnu og Alþingis hins vegar er t. d. hvergi nærri nógu góð. Til þess að þáttur okkar í norrænni samvinnu verði myndugri og betri en hann er nú verðum við einfaldlega að kosta nokkru meiru til en við gerum núna. Ég er sannfærður um að virkari þátttaka í norrænni samvinnu getur skilað okkur enn meiri ávinningi en við þó þegar höfum og ég er ekki í nokkrum vafa um að þátttaka í norrænni samvinnu á að vera forgangsverkefni þegar við erum að leggja línurnar um þátttöku í alþjóðlegum eða fjölþjóðlegum samtökum og stofnunum.

Í nánum tengslum við þetta mál er rétt að minnast á tengsl og samskipti okkar við Færeyinga og Grænlendinga sérstaklega. Þar hefur það gerst á síðustu árum að fulltrúar grænlensku landsstjórnarinnar og íslenskra stjórnvalda hafa aftur og aftur hist til viðræðna og greinilegt er að hin nýja, grænlenska landsstjórn, sem hefur nú verið til um fárra ára skeið, leggur áherslu á að leggja rækt við samskiptin við Ísland. Ég held að samstarf þessara aðila að sameiginlegum málefnum, m. a. fiskveiðimálum í Norður-Atlantshafinu, séu einhver þýðingarmestu utanríkimál sem við yfir höfuð getum tekið á dagskrá. Í þeim efnum eigum við að horfa til náinnar og skipulegrar samvinnu Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga. Í þeim efnum er gott svo langt sem það nær að menn hittist og ræði málin, en ég held að við hljótum að fara að nálgast það stig að unnt verði að koma föstu skiputagi á samstarf þessara þriggja eyríkja. Ég tel að í þeim efnum hafi samþykkt Alþingis hinn 22. febrúar s. l. um sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga skipt verulegu máli og ég tel að við eigum að halda áfram á sömu braut. Við vitum að senn fara fram kosningar á Grænlandi og áður en langur tími liður verður mynduð ný landsstjórn. En allt um það held ég að við eigum að leggja áherslu á að þegar á þessu sumri verði teknar ákvarðanir um að skipuleggja samstarf þessara þriggja þjóða betur og ég legg á það áherslu að utanrmn. fái einnig í sumar að fylgjast mjög náið með því hvernig þessum málum vindur fram.

Í skýrslu ráðh. er fjallað um varnar- og eftirlitsstöðina, sem svo er kölluð, hérna suður í heiðinni. Ég hef rætt um hana nokkuð og ætla ekki að gera mikið ítarlegar nú, en bendi á að ofarlega á bls. 22 koma fram athyglisverðar upplýsingar sem geta orðið okkur dálítið umhugsunarefni. Þær eru um það að slást um milljón hér og milljón þar í framkvæmdir á Íslandi. Þar segir:

„Samið var á s. l. hausti um nýjar varnarliðsframkvæmdir fyrir u. þ. b. 9.3 milljónir Bandaríkjadala. Samþykktar framkvæmdir frá fyrri árum, sem eru ýmist í verktöku eða ekki byrjað á, nema samtals 36.7 milljónum Bandaríkjadala. Viðhaldsframkvæmdir Keflavíkurverktaka nema á þessu ári 11.1 milljón Bandaríkjadala.“

Samtals eru hér undir verkefni upp á 57.1 milljón Bandaríkjadala, þ. e. 1.7 milljarða íslenskra króna sem samsvarar 2.5% af þjóðarframleiðslu Íslendinga. Stundum hefur verið talað um það að eðlilegt framkvæmdamagn okkar á ári væri 20–25% af vergri þjóðarframleiðslu. Hér er um að ræða framkvæmdir sem samsvara 1/10 þess sem ríkið, sveitarfélögin, fyrirtæki og einstaklingar á Íslandi ráða við að leggja í á einu ári. Auðvitað hljóta svona gífurlegir fjármunir að hafa áhrif, einnig í þjóðfélaginu sjálfu.

Í þessum kafla kemur einnig fram að fjöldi hermanna var um síðustu áramót 3105. Í skylduliði varnarliðsmanna, eins og hér segir, voru samtals 2144. Síðan segir:

„Samtals störfuðu 2214 Íslendingar á Keflavíkurflugvelli um s. l. áramót. Alls voru íslenskir starfsmenn varnarliðsins 1047, þar af 20 á Stokksnesi. Starfsmenn Íslenskra aðalverktaka voru 563 og starfsmenn Keflavíkurverktaka voru 145.“

2214 Íslendingar störfuðu á Keflavíkurflugvelli. Í beinum tengslum við þessa menn með fjölskyldum þeirra má ætla að sé a. m. k. tvöföld þessi tala. A. m. k. tvöföld þessi tala eða milli 4–5000 manns. Hér erum við komin með ámóta fjölda sem er í vinnu hjá ameríska hernum og nemur fólksfjöldanum í minnstu kjördæmunum í landinu. Hér erum við komin með álíka fjölda og nemur kjósendafjöldanum í minnstu kjördæmunum í landinu. Það má verða okkur nokkurt umhugsunarefni hvílíkt pólitískt vald bandaríski herinn getur haft í gegnum þetta. Ég er ekki að gagnrýna það fólk sem hér um ræðir en ég er að benda á hvílíka möguleika stórveldið hefur með þessu til að ráða úrslitum um pólitíska þróun í landinu þegar hér er um að ræða fólksfjölda sem er ámóta og í minnstu kjördæmunum í landinu. Þegar við þetta bætist svo það ógnarlega fjármagn sem verktakarnir og aðrir slíkir aðilar hafa undir höndum og einnig hefur áhrif hér á landi.

Í skýrslu utanrrh. er einnig fjallað um svokallaða Sölunefnd varnarliðseigna. Það er stofnun sem ætti einfaldlega að leggja niður. Það er í rauninni algjör óhæfa að það skuli vera stunduð ríkisvernduð ruslasala fyrir Bandaríkjamenn hér á landi, eins og þetta er. Auðvitað ættu allir menn að sjá sóma sinn í því að loka svona sjoppum. Þetta er til vansa. Þeir sem fara með utanríkismál ættu að skoða það vel og leggja eyrun að því að það sjónarmið, sem ég hef hér nefnt í þeim efnum, er örugglega viðhorf mikils fjölda hér á landi. Herra forseti. Ég kem þá í stuttu máli að næsta kafla skýrslunnar sem fjallar um hafréttarmál. Þar er fyrst rætt um hafréttarsamninginn og greint frá því að nú sé unnið að undirbúningi á fullgildingu hafréttarsamningsins sem var undirritaður 10. des. 1982. Hér segir:

„Samningurinn hefur verið þýddur á íslensku og er nú til nákvæmrar meðferðar áður en hann er prentaður til framlagningar á Alþingi. Tíu ríki hafa nú fullgilt samninginn. Hann öðlast gildi 12 mánuðum eftir að 60 ríki hafa fullgilt hann.“

Ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Er þess að vænta að frv. til staðfestingarinnar á þessum samningi verði lagt fyrir þingið strax á næsta hausti? Treystir hann sér til þess að svara þeirri spurningu minni nú í umr.?

Í skýrslunni er einnig sérstaklega fjallað um hafsbotnsmálefni og minnt á að í framhaldi af ályktunum Alþingis um hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg og Hatton-Rockall-svæðinu frá 14. mars 1984 hafi farið fram viðræður við Færeyinga, Breta, Dani og Íra um hafsbotnssvæðið milli þeirra landa og Íslands. Síðast átti Hans G. Andersen fund með þjóðréttarfræðingum í danska utanrrn. fyrir hönd Færeyinga og í breska og írska utanrrn. og hæstv. utanrrh. átti fund með utanrrh. Danmerkur og Bretlands auk viðræðna við formann færeysku landsstjórnarinnar sem hingað kom vegna fiskveiðimála. Utanrmn. hefur fengið skýrslu um þessar viðræður og þetta hefur ítarlega verið rætt þar. Enn fremur hefur utanrmn. rætt um skýrslu sem Manik Talwani, sérfræðingur í hafsbotnsvísindum, samdi að tilhlutan utanrrn. um hafsbotnsréttindi Íslands í suðri. Vinnur hann nú áfram að viðbótarskýrslu um þessi mál.

Ég vil láta það koma hér fram, herra forseti, að í framhaldi af ályktun Alþingis um hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg og Hatton-Rockall-svæðinu tel ég að til greina komi að íhuga það mjög alvarlega að Alþingi lýsi þegar í stað yfir, annaðhvort með beinni breytingu á landhelgislögunum, þ. e. með lagafrv. og lögum eða þá með öðrum hætti hvern við teljum rétt okkar á þessu Rockall-svæði og við látum það koma alveg skýrt fram að við teljum að þarna eigum við verulegan rétt og að við látum það koma skýrt fram í samþykkt, helst með lagafrv. á Alþingi, hver vilji Alþingis Íslendinga er í þessum efnum. Slík afstaða mundi styrkja stöðu íslensku ríkisstj. í þeim samningaviðræðum sem framundan eru um þessi mál og ég er sannfærður um að það er skynsamlegt fyrir ríkisstj. að undirbúa slíka málsmeðferð fyrir haustið og hefði jafnvel komið til greina að taka á málum með þessum hætti þegar á þessu þingi.

Ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, til að víkja aðeins að fiskveiðisamningum við Færeyinga. Ég tók þátt í afgreiðslu utanrmn. á framlengdum fiskveiðisamningi við Færeyinga. Um þessi mál hafa verið nokkrar deilur á liðnum árum. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að við ættum að leggja áherslu á sem best samkomulag við Færeyinga í þessu efni og ég fagnaði því fyrir mitt leyti að ríkisstj. skyldi ná samningum við Færeyinga með þeim hætti sem gerðist í marsmánuði s. l. þegar aðilar voru sammála um að samkomutagið sem líklega er orðið 5 ára gamalt — frá 1976 er það reyndar upphaflega — haldi gildi sínu en með þeirri breytingu að íslensk stjórnvöld ákveði leyfilegt aflamagn Færeyinga ár hvert. Ég tel að þetta hafi verið skynsamleg niðurstaða og tel ástæðu til að fagna henni sérstaklega.

Ég ætla ekki að ræða ítarlega um þróunaraðstoðina að öðru leyti en því að benda á að í töflu á bls. 35 í skýrslu utanrrh. kemur mjög vel fram hvernig þau mál hafa þróast. Þar sést að á árinu 1982 var hlutfall þróunaraðstoðar okkar af vergri þjóðarframleiðslu 0.075%. Á árinu 1983 hækkaði þetta hlutfall verulega, eða í 0.129% og hafði hækkað á milli áranna 1981 og 1982. Á milli áranna 1983 og 1984 gerist það hins vegar, því miður, að þetta hlutfall lækkar úr 0.129% í 0.1%. Þetta skiptir verulegu máli þó að þetta séu tölur sem ekki telji hátt og láti mikið yfir sér. Ég vil minna á það að þegar frv. til fjárlaga var til afgreiðslu hér í Sþ. flutti Alþb. till. þar sem gert var ráð fyrir því að nærri tvöfalda framlag Íslands til Þróunarsamvinnustofnunarinnar. Till. hljóðaði upp á það að hækka töluna úr líklega um 13 millj. kr. í liðlega 20 millj. kr. Því miður sá meiri hl. Alþingis sér ekki fært að fallast á þessa litlu till., en hefði hún verið samþykkt hefði hlutfall Íslands hækkað á árinu 1984 þriðja árið í röð. Og það satt að segja veitir ekki af því að það er ekki mikið að státa sig af í þessu efni hjá þessari ríku þjóð eins og reyndar er tekið fram í skýrslu hæstv. utanrrh.

Ég læt nú máli mínu senn lokið, herra forseti. Ástæða væri til að ræða hér fleiri þætti, m. a. utanríkisviðskipti sem farið er ítarlega yfir í skýrslunni skv. grg. frá viðskrn. svo sem venja er til. Það vekur athygli mína í þessari skýrslu núv. utanrrh. að ekki er minnst á það að ráðh. telji nauðsynlegt — a. m. k. hef ég ekki séð það í skýrslunni — að leggja viðskrn. niður. Ég man ekki betur en að fyrrv. hæstv. utanrrh. hafi látið liggja að því í skýrslu sem hann lagði hér fyrir á síðasta þingi að rétt væri að leggja viðskrn. niður og sameina það utanrrn. Ég vil nota þetta tækifæri að lokum til að láta það koma fram sem mína skoðun að ég tel að óskynsamlegt væri að leggja viðskrn. niður. Það hefur verulega þýðingu að við eigum sjálfstætt viðskrn. sem starfar að utanríkisviðskiptum. Ástæðan fyrir því að miður hefur gengið í þeim efnum en margur hefur viljað er sú að utanríkisþjónustan og starfslið viðskrn. hefur verið of fáliðið til þess að sinna þeim verkefnum sem til hefur verið ætlast af því fólki. En ég held að okkar staða sé öll þannig í alþjóðaviðskiptum að skynsamlegt sé fyrir okkur að vera með sjálfstætt viðskrn.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.