17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6147 í B-deild Alþingistíðinda. (5519)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða miklu af dýrmætum tíma þingsins á þessu kvöldi. En það er mín reynsla að alltaf megi bæta einni ræðu við ef hún er nógu stutt. Ég vil fyrst fagna því hvað tekist hefur að halda í horfinu um fjárframlög til þessara mála eins og nú árar í viðskiptaheiminum og efnahagsmálum. Þar vil ég þakka hæstv. samgrh. fyrir að hafa haldið fast á málum svo og vegamálastjóra og hans mönnum. Þeir hafa sýnt það á liðnum árum að þeir eru hverjum vanda vaxnir.

Það mætti nefna mörg verkefni, bæði þau sem tekist hefur að sigrast á, eins og Ó-veginum fyrir Ólafsvíkurenni. Þar getum við nú fagnað sigri, allir landsmenn vil ég segja og ekki síst á Vesturlandi. Það mætti einnig nefna fjölmörg verkefni sem óunnin eru og bíða síns tíma.

Ég ætla aðeins að fara hér örfáum orðum um eina lægstu fjárveitingu sem ég hef komið auga á í þessari till. Það er á 2. bls. þar sem rætt er um fjárveitingar til brúargerðar. Þar er nefndur Gilsfjörður-rannsóknir og til þeirra rannsókna á að verja 200 þús. kr. á þessu ári, en nokkru hærri fjárhæð næstu tvö ár. Við Íslendingar höfum lengst af þegar um vegagerð hefur verið að ræða horft á firði okkar sem óyfirstíganlega þó að á seinni árum hafi þessi skoðun nokkuð breyst. Ég minni á það að fyrsta brúin yfir fjörð á Íslandi var byggð yfir Hraunsfjörð í Eyrarsveit árið 1963 að mig minnir. Hún hefur sparað mörgum sporið og auðvitað margborgað sig á þessum árum. En nú kunna menn að spyrja: Hvað er unnið við það að kanna brúargerð yfir Gilsfjörð? Er nokkur ástæða til þess að leiða hugann að slíku verkefni á þeim erfiðu tímum sem við nú lifum á? Hér er aðeins farið fram á rannsóknir og ef það tekst, eins og vonir manna eru bundnar við, að finna leið yfir þennan grunna fjörð þar sem útfiri er mikið, frá Kaldrana í Saurbæ yfir í Króksfjarðarnes eða í námunda við Króksfjarðarnes með því að stikla eftir hólmum, skerjum og leirum, þá styttir það leiðina frá Vesturlandi til Vestfjarða hvorki meira né minna en um 25 km. Milli þessara nágranna hefur frá fornu fari verið góð samvinna með vináttu við hin erfiðustu skilyrði. Ekki þarf að lýsa því með mörgum orðum hvað mikill áfangi næðist ef þessi leið yrði talin fær.

Oft er minnst á það að framkvæmdir í vegamálum séu með allra bestu byggðarmálum sem við getum unnið að hér á landi. Og það er mála sannast. Á þessu svæði eða fyrir Dalasýslu og þrjá austustu hreppa Barðastrandarsýslu var gerð áætlun fyrir nokkrum árum, hin svonefnda Dalabyggðaráætlun, sem staðfest var af ríkisstj. í febr. árið 1981 að mig minnir. Við hljótum að stefna að því að koma góðum og gildum staðfestum áætlunum í framkvæmd þó að það taki sinn tíma.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en ósk mín er sú að þessi rannsókn hefjist sem fyrst og henni verði fram haldið uns gengið verði til fulls úr skugga um það hvort hægt sé að stytta leiðina milli þeirra staða sem ég nefndi. Því ef sú er raunin, þá er þarna áreiðanlega um greiðustu, sjálfsögðustu og bestu leið að velja milli Vesturlands og Vestfjarða sem mundi verða til þess að þessir ágætu nágrannar og vinir frá fornu fari mundu búa við stórbætt skilyrði til þess að vinna enn betur saman í framtíðinni.