17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6160 í B-deild Alþingistíðinda. (5550)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það gafst stuttur tími til að ræða þetta frv. og við höfðum ekki tíma né aðstöðu til að skoða þær umsagnir sem hv. iðnn. Nd. hafði aflað sér við könnun þessa máls. Rafmagnsveitustjóri kom á fund okkar og við spurðum hann um ýmsa þætti varðandi þá breytingu sem yrði á Rafmagnsveitum ríkisins við það að þessi hluti landsins yrði skilinn frá veitusvæði fyrirtækisins. Það kom í ljós að rafmagnsveitustjóri hafði vissar áhyggjur af því ef sú þróun héldi áfram að bestu bitar, ef svo mætti kalla, eins og Suðurnes, væru teknir frá Rafmagnsveitunum. Þá gætu komið upp ýmsir erfiðleikar í sambandi við rekstur Rafmagnsveitnanna í öðrum landshlutum.

Einnig kom það fram að önnur línan sem liggur til Suðurnesja og ætlast er til að Hitaveita Suðurnesja yfirtaki er fyrst og fremst flutningslína til Keflavíkurflugvallar og Rafmagnsveiturnar hafa um hana sérstakan samning sem er Rafmagnsveitunum hagstæður og skapar þeim um 29 millj. tekjur, reyndar að frádregnum ákveðnum þáttum. Ég tel að æskilegra hefði verið að þessi lína hefði verið undanskilin þessari breytingu en get viðurkennt að í sambandi við uppbyggingu orkukerfis á Suðurnesjum er jákvætt að rafmagnið tengist hitaveitunni og það sé byggð upp sameiginleg orkuveita á þessu svæði. Ég lýsi þó ótta um að það komi upp vissir erfiðleikar í sambandi við rekstur Rafmagnsveitna ríkisins á öðrum svæðum ef sú þróun heldur áfram, eins og rafmagnsveitustjórinn nefndi, að bestu bitar úr þessum rekstri verði teknir frá og stofnaðar um þá sjálfstæðar reksturseiningar. Ég mun sitja hjá við atkvgr. þessa máls.