18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6238 í B-deild Alþingistíðinda. (5689)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vesturl., formaður sjútvn. deildarinnar, færði okkur samnm. sínum í deildinni þakkir fyrir samstarfið á liðnu þingtímabili. Ég vil færa honum sérstakar þakkir fyrir góða stjórn á nefndinni og fyrir sanngirni hans og liðlegheit í undirbúningi mála. Þar hefur hann í hvívetna staðið sig mjög vel og sinnt óskum okkar stjórnarandstæðinga eftir því sem við höfum beðið hann um. Ég man ekki til þess að á öllum þeim fundum sem búið er að halda í sjútvn. hafi komið fram óskir sem formaður hafi reynt að koma sér undan að verða við og oftast nær hefur honum tekist að koma því til leiðar sem við höfum beðið um í sambandi við starfshætti nefndarinnar. Um leið og ég segi þetta um hin almennu vinnubrögð formannsins vil ég sérstaklega undirstrika það að í sambandi við það mál, sem við ræðum nú, hefur formaðurinn sýnt þolinmæði alveg fram á síðustu stundu við það að kalla til menn til skrafs og ráðagerða um þetta mál og fram á síðustu stundu leitað eftir því að samkomulag gæti náðst í nefndinni um það hvernig þessu máli lyktaði.

Á fundi n. í morgun varð samkomulag um að nefndin skilaði sameiginlegu nál. um frv. og við stæðum sameiginlega að þeim brtt. sem n. ber fram. Á hinn veginn lýsti ég því þar yfir að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara og mundi flytja brtt. Það er að einhverju leyti ekki alveg rétt sem kemur fram í nál. að ég hafi lýst því yfir að ég mundi styðja frv. heldur væri það á þann veg að ég mundi ekki beita mér gegn því. Mín afstaða til frv. er sú — það er rétt að segja það strax í upphafi — að ég mun ekki greiða atkv. gegn frv., standa að brtt. Það er kannske svolítið sérstakt að segja það hér í ræðustól að jafnvel þó að allar mínar brtt. verði felldar breytir það ekki minni afstöðu. Ég mun ekki greiða atkv. gegn frv. við lok afgreiðslu þess hér í deildinni.

Þetta frv. hefur átt þó nokkuð langa sögu. Við rifjuðum það nokkuð mikið upp við 1. umr. í deildinni og ég sé ekki ástæðu til þess að fara að hefja þá umr. aftur. Ég tel þó ástæðu til þess að fara yfir frv. og í sambandi við það mun ég gera grein fyrir þeim brtt. sem ég flyt við frv. En meðferð málsins í Nd. var dálítið söguleg. Málið var afgreitt út úr sjútvn. Nd. fyrir páska með meirihlutaáliti þar sem frv. var í engu breytt. Málið var afgreitt á þann mála að þar voru inni varamenn sem voru fúsir til að ganga að óskum ríkisstj. eða ráðh. og ekki var beðið eftir því að aðalmenn kæmu heim til þess að ganga frá þessu frv. í n. Þegar aðalmenn komu síðan heim var nál. tekið til baka og gerðar við frv. allveigamiklar breytingar sem manni virtist að væru allt að því ótrúlegar miðað við þá umr. sem um þetta frv. hafði verið á undirbúningsstiginu. Þær breytingar miðuðu allar í þá átt að minnka vald fiskmatsráðs, sem var í upphaflega frv. mjög valdamikil stofnun, og einnig að nokkru að minnka vald ráðh. yfir stofnuninni.

Þegar frv. síðan kemur til Ed. er þó ekki búið að breyta það miklu í því að nm. í sjútvn. Ed. teldu ekki ástæðu til þess einmitt að athuga betur þann þáttinn sem sneri að því hvað ráðh. gæti skipt sér af starfsemi fiskmatsins. Við í sjútvn. deildarinnar höfum orðið sammála um, eins og form. n. gerði hér grein fyrir, að gera tillögur um ákveðnar breytingar þar að lútandi.

Í 16. gr. frv. eins og það lá fyrir eftir umr. og afgreiðslu í Nd. er sagt í tveimur lokamálsgreinum: „Rn. er heimilt að svipta framleiðanda vinnsluleyfi sýni hann vítaverða meðferð á hráefni eða komi alvarlegir gallar í ljós í afurðum hans.

Rn. setur nánari reglur um skilyrði fyrir sviptingu og veitingu vinnsluleyfis.“

Í Nd. kom fram till. frá Kjartani Jóhannssyni sem var beint í þá átt að nema þetta vald ráðh. burtu en þar var sú till. felld. Við umr. við hagsmunaaðila, bæði starfsmenn, fiskistarfsfólk, og stjórnendur framleiðslufyrirtækja og frammámenn í samtökum þeirra kom fram að talið var óeðlilegt að ráðh. hefði slíkt vald. N. var því sammála um að leggja til að í stað þess að í frv. stendur „rn. er heimilt að svipta framleiðanda vinnsluleyfi“ yrði sett: Ríkismati sjávarafurða. Þar með er vald til þessara hluta fært inn í stofnunina sjálfa sem að okkar dómi og flestra er við ræddum við er mun eðlilegra.

Lokagreinin var svo á þann mála að rn. setur reglur um skilyrði fyrir sviptingu og veitingu vinnsluleyfis. Bent var á það að með þessu væri rn. raunverulega að taka sér í hendur það vald að sjá um veitingu vinnsluleyfis á ýmsum sviðum sjávarútvegsframleiðslu. Vera má að hér hafi verið um misskilning að ræða og nm. voru sammála um að til að forða því að þarna væri verið að setja í lög annað en þeir, sem sömdu frv., hefðu ætlast til að þarna stæði, skyldi ganga hreint til verks og í stað orðsins „veitingu“ kæmi: endurveitingu.

Jafnframt var n. sammála um að setja inn í þessa 16. grein þessa svohljóðandi mgr.:

„Verði meiri háttar mistök í meðferð sjávarafla og/eða framleiðslu sjávarafurða skal Ríkismat sjávarafurða framkvæma ítarlega rannsókn á orsökum þess og gefa sjútvrh. og fiskmatsráði skriflega skýrslu um tildrög og orsakir mistakanna.“

Það var ekki fyrr en á síðustu tímum umr. um þetta mál sem þessi till. kom fram en hún kom frá formanni Samtaka fiskiðnaðarmanna. Hann benti á að slík grein væri nauðsynleg vegna þess að þegar meiri háttar mistök eigi sér stað í meðferð sjávarafla hafi oft á tíðum verið dæmdur einhver sleggjudómur um að það hafi verið þessum eða hinum að kenna að þannig hafi farið. Þess vegna væri nauðsynlegt við slíkar aðstæður að Ríkismat sjávarafurða framkvæmdi ítarlega rannsókn á slíkum hlutum. Um þetta var n. öll sammála og ég féll frá beinni andstöðu minni við frv. við það að þessar greinar voru settar í það.

Hinu er ekki að leyna að mér finnst frv. að mörgu leyti mjög gallað og ætti að vera í mörgum hlutum öðruvísi en það liggur hér fyrir og verður að öllum líkindum að lögum. Þau lög, sem nú eru í gildi, eru að mörgu leyti eins góð og engin ástæða er til að samþykkja sérstök lög um þessa hluti. Þau lög, sem við búum við, skapa okkur möguleika á að gera hverja þá hluti sem við þurfum að gera í sambandi við endurbót á okkar fiskmati.

Einnig hef ég haldið því fram og held því fram að þættir eins og þátttaka hagsmunaaðila að Ríkismati sjávarafurða séu mjög neikvæðs eðlis. Eins og ég hef getið um áður hefur staða þess eða vald þess innan þessa ramma frv. verið veikt mjög en þó er ég á þeirri skoðun að enn sé þarna um ákvæði að ræða sem æskilegt væri að félli burtu.

Ef litið er á frv. og fyrst í I. kafla þess um almenn ákvæði stingur 1. mgr. í augu: „Ríkismat sjávarafurða heyrir undir sjútvrh. og lýtur stjórn hans.“ Ég skil ekki til hvers þessi aukasetning er sett þarna í 1. mgr. frv. — „lýtur stjórn hans“. En ég taldi ekki ástæðu til að flytja um það brtt. og gerði heldur ekki ráð fyrir því að jafnvel þó að ég hefði flutt hana mundi hún verða samþykkt. En ég hef ekki séð þetta í lögum fyrr. Yfirleitt er í lögum um ríkisstofnanir talað um að þær heyri undir þennan eða hinn ráðh., ekki þarf að taka það neitt sérstaklega fram að sú stofnun lúti stjórn hans.

Ég flyt brtt. við II. kafla, í fyrsta lagi um heiti kaflans og legg til að í stað þess að II. kafli heiti „Um fiskmatsráð“ heiti hann: „Stjórn stofnunarinnar“. Það nafn skýrir sig með þeim brtt. sem ég flyt. Í stað 3. gr. þar sem fjallað er um fiskmatsráð legg ég til að komi ný grein. Greinin um fiskmatsráð hljóðar þannig í frv., með leyfi hæstv. forseta:

Sjútvrh. skipar sjö menn í fiskmatsráð til fjögurra ára er verði ráðh. til ráðuneytis varðandi starfsemi og verkefni Ríkismats sjávarafurða. Eigi skulu færri en fjórir þeirra, er í fiskmatsráði sitja, vera úr röðum helstu hagsmunasamtaka sjávarútvegsins. Ráðh. skipar formann ráðsins.

Tillagna fiskmatsráðsins skal leitað vegna setningar reglna er varða starfsemi og verkefni Ríkismats sjávarafurða. Fiskmatsráð skal vera umsagnaraðili um mál sem upp rísa vegna ágreinings um framkvæmd mats. Fiskmatsráð skal leitast við að koma á aukinni samvinnu Ríkismats sjávarafurða og hagsmunaaðila sjávarútvegsins um gæðamat sjávarafla og gera till. um rannsóknir og tilraunir er miða að bættri meðferð og nýtingu í vinnslu hans.

Fiskmatsráð kynnir sér erlend ákvæði eða reglur um lágmarksákvæði.

Fiskmatsráði ber að gera till. til ráðh. um hvaðeina er það telur ástæðu til í sambandi við framkvæmd mats og eftirlits, svo og stjórn og rekstur Ríkismats sjávarafurða.

Ráðh. getur óskað umsagnar fiskmatsráðs um hvaðeina varðandi stjórn og rekstur Ríkismats sjávarafurða, þ. á m. ráðningar í stöður innan stofnunarinnar.“

Ef litið er á þessa grein er tilætlan hennar í fyrsta lagi að hagsmunasamtök sjávarútvegsins hafi aðstöðu til þess að skipta sér af og hafa áhrif á þessa stofnun. Ég tel það mjög neikvætt. Á fundi sjútvn. í morgun kom í ljós þegar rætt var við framkvæmdastjóra síldarútvegsnefndar að aðilar eins og t. d. kaupendur saltsíldar spyrðu ákveðið um það hvort matið, sem tæki út afurðirnar, væri óháð ríkismat. Þess væri krafist í sambandi við þennan þátt viðskipta, þ. e. síldarsölunnar til Austur-Evrópuríkjanna og þá fyrst og fremst til Sovétríkjanna.

Á sama mála er vitað að í Bandaríkjunum eru mjög miklar kröfur gerðar til þess að hreinlætisþátturinn sé algjörlega óháður. Með því móti að taka hagsmunaaðila, sem hér eru svo nefndir, inn í stjórn og ráðgjöf við stofnunina erum við að hætta til mörkuðum okkar hjá þessum stærstu viðskiptaaðilum okkar, bæði í Bandaríkjunum og í Sovétríkjunum.

Svo kemur það frekar hvernig útfæra skuli starfsemi fiskmatsráðsins og sé ég reyndar ekki ástæðu til þess að fjalla um það. En þær tillögur eru býsna merkilegar eða kannske mætti frekar segja að þær væru skrýtnar, að hagsmunaaðilar, sem í sambandi við þessa umr. hafa fyrst og fremst verið nefndir þeir aðilar sem koma frá framleiðendum, þ. e. eigendum framleiðslutækjanna eða stjórnendum samtaka þeirra, eigi að gerast á breytilegan mála ráðgjafar og umsagnaraðilar þeirrar stofnunar sem á að ganga frá mati og taka út mat þeirra eigin afurða. Ég hef ekki heyrt á það minnst í sambandi við þá hagsmunaaðila sem hér hefur verið um talað að átt væri við hagsmunaaðila eins og t. d. fulltrúa frá fiskmatsmönnum sem eru vitaskuld hagsmunaaðilar að þessum málum eða frá samtökum verkstjóra eða verkafólks í fiskvinnslustöðvunum eða sjómanna. Gæti þó verið að það hafi einhvern tíma verið nefnt á nafn að það kæmi fulltrúi frá sjómannasamtökum. En þó að um það sé talað að það komi fulltrúi frá sjómannasamtökum er það tiltölulega lítill þáttur í þessu. Ef á að fara að tala um það að hagsmunaaðilar geti haft áhrif á stofnun sem þessa tel ég að miklu nauðsynlegra væri að þar kæmu fulltrúar þeirra sem nálgast það að umgangast fiskinn, þ. e. eins og ég nefndi áður, matsmenn, verkstjórar, sjómenn, og tekið væri af öðru stigi en í efstu stöðum þess, annaðhvort úr toppstöðum í samtökum sjómanna eða úr röðum þeirra aðila sem eru ekki beint í tengslum við starfið sjálft.

Síðan er talað um að fiskmatsráð kynni sér erlend ákvæði eða reglur um lágmarksákvæði. Ég sé ekki hver tilætlunin er að fiskmatsráð kynni sér þessi ákvæði. Eðlilegra væri að ef binda þarf það í lögum um slíka stofnun sem þessa, væri ætlast til þess að það væru starfsmenn stofnunarinnar sem kynntu sér þessi ákvæði, þá fyrst og fremst fiskmatsstjóri og deildarstjórar hans. Ég finn ekki rök fyrir því að setja þurfi fiskmatsráð og samtök hinna svokölluðu hagsmunaaðila á fót til þess að hægt sé að afla sér upplýsinga um ákvæði og reglur utanlands frá.

Í lok greinarinnar kemur svo:

„Ráðh. getur óskað umsagnar fiskmatsráðs um hvaðeina varðandi stjórn og rekstur Ríkismats sjávarafurða, þ. á m. ráðningar í stöður innan stofnunarinnar.“

Það má vel vera — ég er ekki það kunnugur öllum lagabálkum — að ráðh. geti ekki óskað umsagnar um ýmsa þætti í sambandi við stjórn og rekstur stofnunar eins og Ríkismats sjávarafurða og það þurfi að vera bundið í lögum. Þess vegna hef ég sett það í brtt. mína að ráðh. geti haft möguleika til þess að leita út fyrir stofnunina og til tækniaðila, það verði bundið í lög ef þess er þörf. Ég legg sem sagt til að 3. gr. falli öll út og í staðinn komi svohljóðandi grein:

„Komi upp vandi við mat og útflutning sjávarafurða, sem er faglegs og/eða viðskiptalegs eðlis, er ráðh. heimilt að leita ráðgjafar hjá mönnum utan rn. og Ríkismats sjávarafurða, telji hann þess þörf.“

Ef nauðsynlegt er að ráðh. hafi slíka heimild, sem mér virðist að menn hafi álitið sem bjuggu til það frv. sem við erum að ræða um, þá tel ég að nægilegt sé að þessi grein komi í stað greinarinnar fyrir fiskmatsráð.

Þá er ég með brtt. við 5. gr. frv. og legg til að upphaf gr. orðist svo að í staðinn fyrir „skrifstofu fiskmatsstjóra“ komi: skrifstofa Ríkismats sjávarafurða. Greinin orðast því þannig í stað þess sem hún orðast nú:

„Skrifstofa Ríkismats sjávarafurða annast almenn skrifstofustörf, fjárhags- og kostnaðaráætlanir, svo og önnur rekstrar- og starfsmannamál stofnunarinnar. Skrifstofan skal enn fremur annast söfnun og úrvinnslu matsgagna.“

Breytingin er sem sagt sú að í stað þess sem í frv. stendur „skrifstofa fiskmatsstjóra“ kemur „skrifstofa Ríkismats sjávarafurða“ og við bætist „almenn skrifstofustörf“. Ef þessi grein hefur verið nauðsynleg til að útlista það hvernig skrifstofan skuli starfa held ég að inn í þá grein eigi einnig að koma það sem unnið er á skrifstofunni, hin almennu skrifstofustörf, þó að ég geti ekki á móti því borið að mér finnist þessi grein ekki skipta stóru máli.

Við 6. gr. er ég einnig með brtt. Þar legg ég til að í stað þess sem í frv. er sagt að Ríkismat sjávarafurða skuli starfa í tveimur deildum komi: „Ríkismat sjávarafurða starfar í þremur deildum. Við þær deildir, sem talað er um í frv., afurðadeild og ferskfiskdeild, bætist hreinlætis- og búnaðardeild. Þar sem talað er um það í greininni að ráðh. skipi forstöðumann fyrir hvora deild til fjögurra ára í senn komi: Ráðh. skipar til fjögurra ára í senn. skv. umsögn fiskmatsstjóra“ — það er viðbótartillaga frá mér — „forstöðumann fyrir hverja deild.“

Út frá þessu breytist 7. gr. Ég legg til að sú 7. gr. sem nú er í frv., falli niður en í stað þeirrar gr. orðist 7. gr. svo:

„Hreinlætis- og búnaðardeild hefur eftirlit með búnaði og hreinlæti í fiskiskipum og flutningatækjum fyrir afla og gefur út hæfnisvottorð til fiskiskipa. Enn fremur annast deildin útgáfu vinnsluleyfa til vinnslustöðva en þau staðfesta að viðkomandi vinnslustöð fullnægi settum reglum um hreinlæti og búnað. Óheimilt er að verka eða vinna sjávarafurðir til útflutnings án slíks vinnsluleyfis.“

Þessi grein er að efni til fyrir í frv., þ. e. hún er í 11. gr. þar sem síðari hluti þeirrar gr. tekur fram að ferskfiskdeild skuli hafa eftirlit með búnaði og hreinlæti í fiskiskipum. Þetta er líka í 14. gr. þar sem talað er um að afurðadeild annist útgáfu vinnsluleyfa til vinnslustöðva. Við 1. umr. ræddi ég mikilvægi hreinlætis- og búnaðardeildar og þessi till. mín hér er fyrst og fremst staðfesting á þeirri skoðun minni að ég tel að það sé rangt að leggja búnaðardeild undir aðrar deildir stofnunarinnar og nauðsynlegt sé að þessi deild hafi algjörlega sjálfstæða starfsemi. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þá nauðsyn, það gerði ég hér við 1. umr. um málið.

Í 10. gr. er ákvæði um það að fiskmatsstjóra er heimilt að veita mönnum án tilskilinna réttinda undanþágu til matsstarfa í allt að þrjá mánuði ef sérstakar aðstæður krefjast. Reynt hefur verið að færa rök fyrir því að nauðsynlegt væri að hafa þetta ákvæði inni í lögum til þess að hægt væri að gefa mönnum á hinum afskekktu stöðum undanþágu til þess að annast matsstörf. Talað hefur verið um Grímsey og Bakkafjörð og jafnvel mínar æskustöðvar, Strandir, og talið nauðsynlegt að þessi fyrirtæki gætu ráðið bílstjórana eða einhverja aðra til að meta fisk til útflutnings - eða einhvern annan góðan starfsmann af stöðinni.

Ég tel að þarna sé lagt til að fara inn á mjög vafasama braut. Ég hef verið við sjávarútveg frá því ég var smákrakki og er uppalinn einmitt á einum af afskekktu stöðunum, þ. e. norður á Ströndum í Árneshreppi, og voru samgöngur öllu verri á því tímabili en nú er. Það tókst að meta fisk með réttindamönnum á því svæði á því tímabili, þ. e. á milli 1940 og 1950, þegar engar samgöngur voru við það svæði öðruvísi en af sjó.

Ég tek ekki mikið mark á því að ekki sé hægt að koma fiski til mats með réttindamönnum hvar sem er á landinu. Það er langt frá því að samgönguerfiðleikar eða smæð staðanna skapi fyrst og fremst þessi vandamál. Þessi vandamál verða búin til og kallað verður á undanþágur, ekki eingöngu í Grímsey eða Bakkafirði. Um leið og búið er að opna slíka möguleika verður kallað á undanþágu jafnt í Reykjavík og á Hellissandi, það er mín tilfinning. Það er mjög neikvætt að gefa þennan möguleika lausan gagnvart því fólki sem er að afla sér réttinda til þessara starfa. Frekar ætti að vera tilætlun hjá ríkisvaldinu og sjútvrn. að stefna að því að efla Fiskvinnsluskólann, fjölga námskeiðum, þjálfa fólk til þessara starfa á hinn breytilegasta mála. Ég get svo tekið undir það sem fulltrúi Fiskiðnaðarfélagsins sagði sem við áttum tal við í morgun að hægt er að leita þess möguleika að ala upp fiskmatsmenn á annan mála en þann að koma þeim endilega í gegnum Fiskvinnsluskólann þó að það sé vitaskuld æskilegast. Hægt er að halda námskeið, bæði stuðla að því að fyrirtækin sjálf haldi námskeið og halda námskeið á vegum skólans og á vegum sjútvrn. eins og gert hefur verið, til að koma mönnum til, ef svo má orða, nokkurs þroska í þessu starfi. Ég legg því til að þessi hluti — sem orðast svo: „Fiskmatsstjóra er heimilt að veita mönnum án tilskilinna réttinda undanþágu til matsstarfa í allt að þrjá mánuði ef sérstakar aðstæður leyfa“ — falli niður.

Eins og ég nefndi áðan hef ég lagt til að síðari mgr. 11. gr. verði flutt í 7. gr., þ. e.: „Ferskfiskdeild hefur eftirlit með búnaði og hreinlæti í fiskiskipum og flutningatækjum fyrir afla og gefur út hæfnisvottorð til fiskiskipa.“ Þessi hluti greinarinnar er þegar kominn skv. mínum tillögum í 7. gr. þar sem ég legg til að hreinlætis- og búnaðardeild verði í fiskmatinu og þetta verði verksvið hennar.

Þá er það sama að segja um lokamálsgrein 14. gr., þ. e. 3. mgr. sem er þannig:

„Afurðadeild annast útgáfu vinnsluleyfa til vinnslustöðva, en þau staðfesta að viðkomandi vinnslustöð fullnægi settum reglum um hreinlæti og búnað. Óheimilt er að verka eða vinna sjávarafurðir til útflutnings án slíks vinnsluleyfis.“

Orðið „Afurðadeild“ í upphafi greinarinnar fellur burtu, en að öðru leyti er þessi hluti greinarinnar kominn í 7. gr. skv. mínum tillögum og fellur þá undir verksvið hreinlætis- og búnaðardeildar.

Þá er í brtt. mínum till. um það að orðin „sé þess óskað“ í 1. og 2. málslið 1. mgr. 20. gr. falli niður og einnig orðin „í fiskmatsráði“ í 1. mgr. greinarinnar. Greinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, í frv.:

„Hverjum þeim, sem annast sölu og útflutning sjávarafurða sem lög þessi ná til, ber, sé þess óskað, að láta fiskmatsráði í té upplýsingar um kvartanir sem berast frá erlendum kaupendum vegna gallaðrar vöru eða vegna þess að umbúnaði hennar er áfátt. Þá ber þeim, sé þess óskað að veita Ríkismati sjávarafurða upplýsingar um greiddar skaðabótakröfur.“

Ég spurðist fyrir um það í n. hvernig á því stæði að þarna kæmi fram að þeim aðilum, sem annast útflutning sjávarafurða, bæri ekki að láta Ríkismat sjávarafurða vita ef kvartanir kæmu. Þá komu fram dálítið merkilegar upplýsingar. Það er ekki þægilegt að gera það þar sem fiskmatsráð er yfirstofnun þessa fyrirtækis eða stofnunarinnar og í fiskmatsráði eru hagsmunaaðilar frá skreið, saltfiski, hraðfrystum fiski o. s. frv. og ekki er eðlilegt að hver aðili viti um alla smávægilega galla hjá hinum. Með því að búa til þetta fiskmatsráð er ekki hægt að halda eðlilegum trúnaði inni í þessari stofnun og þar af leiðandi er þessum aðilum í sjálfsvald sett hvort þeir láta fiskmatið vita um það hvort fram koma kvartanir um galla hjá þeim.

Átt hafa sér stað smá mistök í sambandi við vélritun eða jafnvel hefur það fallið út hjá mér í handriti. Til þess að breyta þessu og útiloka þessa hættu um trúnaðarbrest í stofnuninni og í framhaldi af till. minni um það að fiskmatsráð verði lagt niður legg ég til að orðið „fiskmatsráð“ falli burt úr þessari grein, en í brtt. minni kemur ekki fram að ég leggi til að þar komi í staðinn: Ríkismat sjávarafurða. Ég vil benda hæstv. forseta á það að ég áskil mér rétt til að leiðrétta þetta í brtt. mínum, að í sambandi við 8. liðinn vantar að í stað orðsins „fiskmatsráð“ komi: Ríkismat sjávarafurða fái án undantekninga um það að vita ef útflytjendur eru krafðir skaðabóta eða þeir þurfa að borga þær.

Um leið og greininni yrði breytt er 2. mgr. óþörf, þ. e. áherslugrein sem er í frv. um það að ef stórir hlutir ske í þessum málum væri viðkomandi aðilum skylt að láta Ríkismati sjávarafurða í té upplýsingar um kvartanir sem berast frá erlendum kaupendum vegna alvarlegra galla eða skemmda á vörum. Ég sé ekki ástæðu til að þarna eigi nokkuð að flokka í gott eða vont, allir gallar og allar kröfur um bætur skuli tíundaðar beint til fiskmatsins.

Við 22. gr. frv. legg ég til að fyrri liður gr. falli niður, þ. e. hlutinn um dóm úrskurðaraðila eða dómstólinn sem er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Ef ágreiningur rís vegna fiskmats eða eftirlits úrskurða yfirfiskmatsmenn í samráði við fiskmatsstjóra og fiskmatsráð.“

Ja, það er nú svo. Er eðlilegt að fiskmatsráð, sem samanstendur af hagsmunaaðilum eins og margoft er búið að nefna, sé einnig dómstóli um það hvort þetta eða hitt hafi ekki verið rétt framkvæmt? Burtséð frá allri annarri umræðu um fiskmatsráð finnst mér þó þetta fáránlegasti þátturinn og að það sé næstum útilokað að fiskmatsráð, eins og það er upphugsað hér skv. frv., geti tekið að sér þennan þátt vegna þess að það beri það í sér að það geti orðið hlutdrægt — á hinn veginn líka. Fiskmatsráð er sjö manna stofnun og úrskurður sem þessi þarf að eiga sér stað á þeim stöðum sem ég nefndi áðan. Það getur farið svo að yfirfiskmatsmaður sé staddur úti í Grímsey, norður á Ströndum eða í Bakkafirði. Hvernig skal kalla sjö manna fiskmatsráð til að úrskurða um það sem þar þarf að úrskurða um? Ég held að þeir ágætu menn, sem sömdu þetta frv. á öllum þeim fundum sem þeir komu saman til þess — voru þeir ekki eitthvað um 50? — hafi ekki litið allt of vel í kringum sig þegar þeir voru að marka þessu merkilega ráði sínu bás og verksvið.

Ég legg til að í stað fyrri hluta þessarar greinar, sem ég hef hér skýrt, komi svohljóðandi grein:

„Ef ágreiningur rís vegna fiskmats eða eftirlits sker yfirmatsmaður úr. Heimilt er að vísa slíkum ágreiningi til forstöðumanna deilda og fiskmatsstjóra.“

Það hlýtur að verða í valdi yfirmatsmanns að úrskurða þegar hann kemur á staðinn hvort þessi eða hinn fiskurinn er hæfur til þess að fara til útflutnings. Ef viðkomandi framleiðandi fellir sig ekki við þann dóm á hann að hafa möguleika til þess að vísa þeim úrskurði til forstöðumanna þeirrar deildar sem viðkomandi fiskmatsmaður heyrir undir eða fiskmatsstjóra. En það er fráleitt að vísa slíkum úrskurði til einhvers fjölmenns ráðs sem hefur ekki aðstöðu til að kanna hlutina á vettvangi, hvað þá ef það getur einnig orðið hlutdrægt.

Síðari hluti greinarinnar stæði svo áfram: „Skjóta má úrskurði um skilning á lögum þessum og reglum settum skv. þeim til ráðh.“ Þetta er eðlilegt. Ef um þetta verða deilur þannig að fiskmatsstjóri eða forstöðumenn t. d. koma sér ekki saman, fiskmatsstjóri deilir við sinn yfirmatsmann, þá sé hægt að fá úrskurð ráðh. um skilning á viðkomandi reglum.

Ég legg svo til að eftir 23. gr. komi ný grein í frv. Sú grein hljóði þannig, með leyfi virðulegs forseta: „Fiskmatsstjóri, forstöðumenn deilda, fulltrúar og yfirmatsmenn hafa skyldur og njóta réttinda sem opinberir starfsmenn. Um laun þeirra fer eftir ákvæðum kjarasamninga ríkisstarfsmanna. Þeim er óheimilt að stunda nokkurn atvinnurekstur sem lýtur að fiskverkun eða fiskverslun.“

Þessi grein er næstum óbreytt tekin upp úr núgildandi lögum um Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Hún er eins og flestar greinar í þeim lögum snöggtum betri og fyllir betur út í þann ramma sem við þurfum að hafa lagalega til að geta haldið uppi eðlilegu fiskmati á landinu en það frv. sem við erum hér að fjalla um. Hvergi kemur fram í frv. að þeim, sem taka að sér störf og eru forustumenn í fiskmati og verða forustumenn í Ríkismati sjávarafurða, sé óheimilt að stunda nokkurn atvinnurekstur sem lýtur að fiskverkun eða fiskverslun. Ég tel nauðsynlegt að slíkt sé í frv. og einnig að réttindi þeirra og skyldur séu tíundaðar.

Þá er það lokaákvæði frv., ákvæði til bráðabirgða: „Frá og með 1. ágúst 1984 eru lagðar niður stöður forstjóra, skrifstofustjóra, deildarstjóra, fulltrúa og yfirfiskmatsmanna hjá Framleiðslueftirliti sjávarafurða.

Um réttarstöðu þeirra starfsmanna hjá Framleiðslueftirliti sjávarafurða, sem ekki verða skipaðir starfsmenn Ríkismats sjávarafurða, fer eftir ákvæðum viðeigandi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Þetta er mikil grein. Kannske er þetta aðatgrein frv., virðulegi forseti, að geta breytt og skipt um starfssvið á stofnuninni. Ég er á þeirri skoðun að allt of mikið sé gert af því hér á hv. Alþingi að semja lög og í þeim lögum séu ýmsir óljósir þættir sem ráðh. er síðan falið að framkvæma. Mörg lög eru ekki annað en góður rammi utan um reglugerð. Það tekst ekki nema í undantekningartilfellum að fá innihald reglugerða, sem samdar eru í sambandi við lög sem verið er að afgreiða eða samþykkja, til að gera sér grein fyrir því hvað Alþingi er að samþykkja í hendur ráðh. og hvað ráðh. ætlar að gera með þá heimild sem hann fær til reglugerðarútgáfu.

Ég hefði talið æskilegt í sambandi við ákvæði til bráðabirgða, þar sem fyrir liggur að þarna er um mikil mannaskipti að ræða, að hæstv. ráðh. hefði skilað sjávarútvegsnefndum tillögum sínum um það hvernig hann hefði í hyggju að skipta upp störfum í stofnuninni. Hér er um það veigamikið atriði að ræða að ég tel að það hefði átt að koma fyrir sjávarútvegsnefndir Alþingis hver hans stefna er í því og hvernig starfsskiptingu innan stofnunarinnar yrði háttað. En úr því verður sjálfsagt ekki. Við erum hér á síðustu stundu og jafnvel komin fram yfir þann tíma sem deildinni var ætlaður til þess að ræða þetta mál. Ég geri ekki ráð fyrir að við fáum neinar sérstakar upplýsingar um það hvernig með það verður farið, hvernig skipt verður á milli deildarstjóra og starfsmanna. Það má vel vera að vissir agnúar séu á því að gefa nákvæma skýrslu um hvernig það verði framkvæmt. En það eru sjálfsagt margir sem hafa hug á því að vita hvernig það verður gert.

Ég legg til að þetta ákvæði til bráðabirgða verði fellt niður en skal um leið viðurkenna að sjálfsagt skiptir það ekki miklu máli jafnvel þó að það yrði fellt niður vegna þess að verið er að búa til nýja stofnun með nýjum mönnum og leggja gömlu stofnunina niður sem hefur staðið sig vel í áraraðir, stofnun sem tók við af Fiskmati ríkisins og Síldarmati ríkisins, stofnunum sem höfðu byggt upp fiskmat, skapað traust hjá erlendum þjóðum á íslensku fiskmati og svo er enn. Erlendir viðskiptavinir bera mikið traust til Framleiðslueftirlits sjávarafurða. En ég er hræddur um að með því frv. sem við erum að samþykkja hér, sem þó hefur mjög mikið breyst til batnaðar í meðförum Alþingis og ekki síst með þeirri síðustu breytingu sem við leggjum til að gerð verði hér, meiri hl. eða sjútvn. d. verði sú þróun fyrirsjáanleg að erlendir viðskiptavinir Íslendinga í sjávarafurðum hafi ekki eins mikið traust á þeirri stofnun, sem hér er verið að leggja til að sett verði á laggirnar, og á þeim stofnunum sem hafa verið fyrirrennarar þeirrar stofnunar sem hér er lagt til að stofnuð verði.