19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6387 í B-deild Alþingistíðinda. (5904)

111. mál, áfengt öl

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram að aldrei þessu vant get ég tekið undir flestallt það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan að öðru leyti en því að ég tel það út í hött að ásaka forseta um það þó að hann taki fyrir mál sem kemur frá n. Undir slíkt get ég ekki tekið en að því undanskildu get ég tekið undir allt, held ég, sem hann sagði um þetta mál. Ég vil ekki að það fari neitt á milli mála að ég er algerlega á móti því að rýmka um í þessu efni af þeirri ástæðu að hvar sem maður heyrir frá þeim þjóðum sem hafa reynslu í þessu máli er sú reynslan að meira hafi verið drukkið af áfengi eftir því sem rýmkað er meira um þessa hluti.

Ég vil taka enn þá dýpra í árinni en hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan og hv. 11. þm. Reykv. nú fyrir skömmu. Ég vil telja það blátt áfram hneyksli ef fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan sem væri í sögu okkar lýðveldis, á 40 ára afmælinu, yrði um þetta mál, jafn ómerkilegt og það er í mínum huga þannig séð þó að það geti haft skaðlegar afleiðingar fyrir þjóðina. Hvað með vímugjafaefnin, sem menn deila nú um hvort séu skaðleg, eða nokkuð skaðlegri en áfengi, verða þau ekki næst? Ég held að menn ættu að hugleiða það hvar þeir eru staddir í þessum málum.

Í sjálfu sér er eðlilegt að greidd séu atkvæði hér á Alþingi um þessi mál eins og hver önnur, það er bara allt annað mál. En eins og fram hefur komið og kemur fram í umsögn um þessa till. frá áfengisvarnaráði er til nefnd sem er að fjalla um þessi mál og er að vinna í þessum málum. Hvers vegna vilja menn ekki bíða eftir þeirri niðurstöðu fyrst búið er eftir kröfu Alþingis að setja slíka nefnd til að vinna að þessum málum? En ég sé ástæðu til að lesa hér upp úr þeirri umsögn sem kom frá áfengisvarnaráði, með leyfi forseta:

„Með bréfi dagsettu 29. mars s. l. sendi hv. allshn. Sþ. áfengisvarnaráði till. til þál. um almenna atkvæðagreiðslu um áfengt öl, 111. mál, til umsagnar.

Áfengisvarnaráð leyfir sér, um leið og það sendir umsögn sína, að fara þess á leit við hv. allshn. að það fái að koma til viðræðna við n. Vísast í því sambandi til þess að áfengisvarnaráð er m. a. til þess kjörið af Alþingi að „fylgjast sem best með áfengis- og bindindismálum og veita hlutlausar upplýsingar um þau,“ eins og segir í 28. gr. áfengislaga. Telur áfengisvarnaráð miklu varða að ekkert fari milli mála um þá vitneskju og þær upplýsingar sem það hefur tiltækar og tjáir sig reiðubúið til samstarfs og þjónustu.

Skal þá snúið að umsögninni sjálfri.

Skilgreiningin á hugtakinu meðalsterkt öl er ekki alls staðar hin sama, jafnvel ekki alls staðar á Norðurlöndum.

Varðandi almenna atkvæðagreiðslu er vafamál hvort rétt sé að stuðla beinlínis að flokkadráttum um efni sem tengjast jafnnáið heilbrigði fólks og velferð sem áfengismál. Það er sammæli þeirra sem gerst vita að áfengi valdi víðtækara heilsutjóni á Vesturlöndum en annað sem menn leggja sér til munns. Því leggur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áherslu á að sem flestir sameinist í baráttu gegn þeirri vá sem þetta lögleyfða vímuefni veldur. Kjörorð stofnunarinnar er nú: „Allir heilir árið 2000“. Þar á bæ er talið að torsóttasta hindrunin á veginum að því marki muni verða áfengisneysla sem framleiðendur og seljendur nota milljarða til að auka.

Brýn nauðsyn er hér sem annars staðar að efla samstöðu um forvarnir í heilbrigðismálum og skilning á nauðsyn þeirra. Því ber að reyna að draga fram það sem þjóðin getur sameinast um í áfengisvörnum en síður það sem blæs í glæður sundrungar. Seint mundu menn efna til „almennrar atkvæðagreiðslu“ um lögskyldu til bólusetningar og ýmissa sóttvarna.

Þá ber og að benda á að sjálfsagt er meiri hluti þjóðarinnar að velja sér leiðtoga þegar til Alþingis er kosið. Ef alþm. telja rétt að breyta áfengislögum ber þeim að gera það og í þá veru sem líklegt er að til heilla horfi að bestu manna yfirsýn.

Nú er að störfum alifjölmenn nefnd, skipuð af ráðh. að tilmælum Alþingis, og á að „vinna að undirbúningi tillagna um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum.“

Til þess mun Alþingi væntanlega hafa stuðlað að skipun þessarar nefndar að þar yrði fjallað um málin af skynsamlegu viti og ekki rasað um ráð fram að neinu sem kynni að valda tjóni meiru en nú verður árlega af völdum þess vímuefnis sem menn sækjast eftir í öli, vínum og sterkum drykkjum. Því væri ráð að bíða eftir tillögum og niðurstöðum frá þessari nefnd ef þær eru þá ekki einhverjar fram komnar þegar.

Ljóst er af grg. með till. þessari að flm. eru hlynntir því að hafin verði bruggun og sala áfengs öls hérlendis. Því er ekki úr vegi að spyrja grundvallarspurninga í upphafi umfjöllunar um grg. Hvar hefur aukið framboð áfengis, þ. á m. öls, orðið til að bæta ástandið í vímuefnamálum? Hefur aukin öldrykkja einhvers staðar dregið úr tjóni af völdum vímuefna? Ekki höfum við getað fundið nein dæmi þess, en mörg um hið gagnstæða og er þar einkum kunn reynsla nágrannaþjóða af því að leyfa framleiðslu og sölu milliöls.

Kunnugt er að ölið var hvorki Svíum né Finnum til þeirrar blessunar sem ýmsir ætluðu að það yrði. Síður mun kunnugt að Færeyingar leyfðu sölu áfengs öls um mitt ár 1980. Ölið er aðeins selt á tveim stöðum; annar staðurinn er í Þórshöfn, hinn í Klakksvík. Árið 1979 drukku Færeyingar í heild 158 þúsund lítra af hreinu áfengi en árið 1982 drukku þeir 171 þúsund lítra af hreinu áfengi. Í áfengislítrum á mann, 15 ára og eldri, er þetta 1979 5.2 lítrar af hreinu áfengi en 1982 5.5 lítrar af hreinu áfengi.“

„Vínandinn er það efni blöndunnar er vímuáhrifunum veldur. Verða þau í samræmi við það hve mikið berst af vínandanum til blóðsins í einu og þaðan til miðtaugakerfisins. Einu gildir hvort vínandinn kemur úr öli, víni eða brenndum drykkjum. Áhrif hans verða ætíð hin sömu. Minna varðar um vatnið því líkami manna er að miklu leyti úr því gerður hvort eð er og býr yfir mikilli hæfni til þess að tempra innihald sitt af vatni.

Sé áfengi dulbúið sem fæða eða svaladrykkur verður hættan af því mun meiri. Öl er gjarnan meðhöndlað á þann máta. Jafnvel á þeim heimilum þar sem vín og sterkt áfengi er geymt í læstum hirslum þar sem börn og unglingar ná ekki til þess er öl geymt í kæliskáp heimilisins innan um matvöru og svaladrykki, aðgengilegt öllum heimilismönnum. Aðgát sú, sem sjálfsögð þykir gagnvart sterkara áfengi, nær síður til ölsins. Það hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér aukna hættu á áfengisneyslu unglinga og jafnvel barna. Sú hefur orðið raunin á í löndum sem leyfa bruggun og sölu á áfengu öli. Þar um má f. d. vitna til reynslu Þuríðar Jónsdóttur félagsráðgjafa úr starfi hennar í Halifax í Kanada: „Í Halifax leitaði yngra fólk hjálpar en hér . . . vegna vímuefnaneyslu árum saman . . . Þar var um tvær tegundir að ræða, áfengt öl og hass . . .“

Jafnframt er hætta á að auðveldur aðgangur að áfengu öli leiði til aukinnar drykkju á vinnustöðum og þar með til aukinnar hættu á vinnuslysum, lélegum vinnubrögðum og til aukinna fjarvista.

Lífeðlisfræðileg áhrif vínanda á miðtaugakerfi manna eru margþætt og flókin. Frumur í berki framheilans virðast vera viðkvæmari fyrir þeim en t. d. frumur lífsnauðsynlegra sjónstöðva í mið- og afturheila. Áhrifa tiltölulega lítils magns vínanda í blóði gætir því fyrr í röskun á starfsemi ýmissa svæða í berki framheilans, ekki síst þess hluta hans sem hefur með vitræna starfsemi að gera, t. d. dómgreind eða stjórnun „impulsa“, t. d. hömlur á tilfinningum og löngunum.

Öldrykkja getur þannig orðið kveikja að neyslu sterkara áfengis. Vínandinn í áfenga ölinu, þótt í litlum mæli sé, getur orðið til þess að skerða dómgreind og losa um hömlur hjá neytandanum og veikja þannig fyrirfram teknar ákvarðanir hans um að stilla neyslunni í hóf og láta neyslu sterkara áfengis vera.

Ölvunarakstur er nú þegar mjög verulegt vandamál hér á landi. Árlega hlýst af honum mikið tjón á lífi manna, limum og eignum. Umtalsverður hópur manna er árlega tekinn ölvaður við stjórn ökutækja. Ísland er land þar sem veður er óstöðugt, færð oft slæm og samgöngur erfiðar. Því hljóta margir, sem þannig missa ökuleyfi, að verða fyrir verulegu tjóni og hafa af því ýmiss konar óþægindi og erfiðleika.

Sumir vilja fremur telja það, hve margir eru teknir ölvaðir við akstur hér á landi, vitnisburð um góða löggæslu á þessu sviði en vitnisburð um það að Íslendingar hafi öðrum fremur tilhneigingu til þess að setjast ölvaðir undir stýri bifreiða sinna. Vel má vera að nú sé því þannig varið. Með tilkomu áfengs öls er hætt við að á því verði breyting og ölvunarakstur verði þá mun tíðari en nú.

Þeim sem horfa á stór bifreiðastæði við ölstofur í Bretlandi sneisafull af bifreiðum tæmast á stuttri stundu eftir að drykkju dagsins lýkur á ölstofunni dylst ekki að þaðan hljóta margir að fara út í umferðina með meira magn vínanda í blóði sínu en umferðarlögin leyfa. Niðurstöður flutninga- og vegarannsóknastofnunarinnar bresku frá 1974 sýndu að einn af hverjum þremur ökumönnum, sem létu lífið í slysum úti á vegum, hafði magn vínanda í blóði yfir þeim 80 mg% sem lög í Bretlandi miða ölvunarakstur við. Hér á landi eru mörkin lægri eða við 50 mg%. Milli kl. tíu að kvöldi og fjögur að morgni virka daga vikunnar óx þetta hlutfall í einn af hverjum tveim og á laugardagskvöldum og aðfaranóttum sunnudaga náði það að verða 71 af hundraði. Vafalaust má rekja mikið af þessum ölvunarakstri og dauðsföllum, er honum tengjast, til hinna fjölmörgu ölstofa í Bretlandi og mikillar neyslu áfengs öls.

Vínandi truflar að sjálfsögðu starfsemi fleiri fruma líkamans en taugafruma og störf fleiri líffæra en heilans. Það fellur að mestu leyti í hlut lifrarinnar að losa líkamann við vínanda sem neytt er. Við daglega neyslu áfengra drykkja getur það orðið mjög verulegt álag á hana ofan á aðra starfsemi sem hún verður að inna af hendi.

Menn hefur greint á um það hve miklu magni hún ráði við að eyða á sólarhring án þess að henni séofboðið. Þau mörk hafa verið að færast niður á við fram að þessu.

Hjá grannþjóðum okkar virðist vera náið samband milli tíðni skorpulifrar og heildarneyslu hreins vínanda. Dánartíðni af völdum skorpulifrar hefur verið lág hér á landi og kemur það vel heim við að dagleg neysla áfengis mun enn þá vera heldur sjaldgæf hérlendis. Sala áfengs öls mundi vafalaust leiða til daglegrar neyslu áfengis hjá mörgum og valda þannig auknu álagi viðvarandi vínandabruna á lifur margra neytenda þótt vínandamagn í blóði þeirra yrði e. t. v. ekki svo mikið að það ylli hjá þeim einkennum verulegrar ölvunar.

Það lögmál gildir yfirleitt um vímuefnaneyslu að veikari efni kalla á þau sem sterkari eru. Sjálfsagt á það rætur að rekja til margra og margvíslegra orsaka, m. a. til þeirrar myndunar þols sem á sér stað hjá neytendum og leiðir til þess að þeir bæði þola stærri skammta af efninu í einu og þurfa meira magn af því en áður til þess að fá af neyslu þess sömu áhrif. Vínandi er einmitt dæmigert vímuefni þar sem þetta lögmál er í fullu gildi. Freistandi er að benda á sem dæmi um þetta lögmál að á bannárunum, þegar leyfð hafði verið sala á víni allt að 21% styrkleika, sóttu neytendur almennt ekki eftir því að fá til viðbótar veikari tegundir áfengis, svo sem öl, heldur sterkari brennda drykki.

Flutningsmenn þáltill. um almenna atkvæðagreiðslu um áfengt öl benda í grg. á það „að leyfður er innflutningur á ölgerðarefnum sem margir notfæra sér og brugga þá oftast mun sterkara öl en áfengislögin leyfa ... Auk þess hafa ýmsir í framhaldi af því leiðst út í eimingu og þar með bruggun sterkra vína.“ Þarna er í raun og veru verið að draga fram hið sama lögmál og lýst er hér að framan. Þeir leiðast út í bruggun sterkara áfengis og eimingu vegna þess að vínandinn í áfenga ölinu, sem þeir brugguðu, fullnægir ekki til lengdar þörf þeirra fyrir áhrif vínandans.

Greiður aðgangur að sterku öli leiðir til þess að fleiri umgangast vínanda og umgengni við hann verður tíðari. Hjá ýmsum mun sú umgengni leiða til aukinnar neyslu vínanda, hvort heldur hann kemur í mynd áfengs öls, léttra vína eða brenndra drykkja. Hætt er við að þetta bitni þannig á þeim sem þegar eru orðnir ofneytendur að þeir auki drykkju sína og hljóti af henni meiri skaða. Þannig kemur t. d. fram í grein, er prófessor Kendell við háskólann í Edinborg hefur ritað 17. sept. 1983, að neyslutollur á áfengi í Bretlandi var hækkaður í mars 1981. Við það steig verðlag áfengis hraðar en almennt verðlag í Bretlandi í fyrsta skipti í 30 ár. Athuganir á áhrifum þessa leiddu í ljós að hjá hópi neytenda áfengis, sem neysla hafði verið könnuð hjá á árunum 1978 og 1979, hafði neyslan dregist saman um 18% er hún var könnuð að nýju á árunum 1981 og 1982, en neikvæðar afleiðingar hennar höfðu jafnframt minnkað um 16%. Stórdrykkjumenn og neytendur, sem grunur lá á að væru orðnir háðir áfengi, höfðu jafnframt minnkað sína neyslu a. m. k. jafnmikið og hófdrykkjumennirnir. Þeir höfðu líka orðið fyrir mun minni neikvæðum afleiðingum af henni. Hluti af skýringunni á því hvers vegna ofneytendur drukku minna gæti vel verið fólginn í því að þegar aðrir neytendur í umhverfinu drukku sjaldnar sköpuðust færri tækifæri fyrir ofneytendurna til þess að hrífast með í drykkju.

Þegar byrjuð er neysla áfengis á áfengu öli er hætt við að hún haldi áfram í sterku áfengi, sbr. það sem sagt er hér að framan. Þetta á ekki síst við í þeim tilfellum þar sem neysla ölsins hefur leitt til myndunar þols fyrir áhrifum vínanda þannig að aukið magn þarf af vínanda til þess að ná þeim áhrifum sem eftir er sóst.

Fram hefur komið í umræðum um sölu áfengs öls hér á landi að áhugi er á innlendum iðnaði á sviði ölgerðar. Framleiðendur eygja hér aliverulegan markað eða markað fyrir 12–15 millj. lítra af áfengu öli á ári, sbr. grein í Dagblaðinu/Vísi 7. apríl 1984. Þetta jafngildir 480–600 þús. lítrum af hreinum vínanda á ári eða u. þ. b. 2–2.6 lítrum af hreinum vínanda á hvert mannsbarn í landinu. Reikna má með að meginhluti þessa vínanda yrði bein aukning þeirrar neyslu sem fyrir er. Hætt er við að ekki yrði eingöngu um beina aukningu að ræða heldur jafnframt óbeina.

Til þess að ná 12–15 millj. lítra markaði hérlendis þyrftu framleiðendur bæði að einbeita sér að því að láta fjölga útsölustöðum áfengis og halda uppi kynningarherferðum fyrir ölið. Það yrði lögð áhersla á ánægju þá sem fólgin er í öldrykkju og ágæti ölsins. Þar sem sterkt öl er jafnframt áfengi yrði þetta óhjákvæmilegur áróður fyrir neyslu áfengis almennt. Liggja mundu í þagnargildi hinar skaðlegu afleiðingar mikillar og tíðrar áfengisneyslu. Aukningar neyslu áfenga ölsins mundi trúlega fljótlega gæta einnig í aukinni neyslu annarra tegunda áfengis, þó líklega fyrst og fremst í neyslu brenndra drykkja.

Reynsla nágrannaþjóða okkar, svo sem Svía og Finna, varð á þann veg að vínandi úr áfengu öli, sem bætt var í hóp þeirra áfengistegunda sem fyrir voru, bættist við heildarneyslu þjóðanna á vínanda en dró ekki úr henni. Þetta kemur líka vel heim við þá reynslu að í þeim löndum Evrópu þar sem neysla áfengs öls hefur lengi verið hefðbundin hefur heildarneysla vínanda farið vaxandi á undanförnum árum.“ (Forseti: Má ég vekja athygli hv. þm. á því að það er ákveðið að umr. um utanríkismál hefjist ekki síðar en kl. 6. Ég vildi því mega biðja hv. ræðumann ef hann er ekki að ljúka ræðu sinni hvort hann geti haft hæfileg þáttaskil þannig að við getum byrjað umr. um utanríkismál kl. 6.) Það er sjálfsagt að verða við því.