19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6396 í B-deild Alþingistíðinda. (5909)

380. mál, utanríkismál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þó að hæstv. utanrrh. sé ekki á þessum fundi vil ég þakka honum fyrir þau svör sem hann gaf við þeim fsp. sem ég bar fram þegar umr. um þessi mál hófst og einnig þau svör sem hv. 9. landsk. þm. hefur nú komið á framfæri.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að í umr. um þessi mál að undanförnu hefur það komið fram að yfirstjórn herafla Bandaríkjanna gerði áætlun 1981 um breytingar á bandarísku herstöðinni. Það hefur verið sagt frá þeirri áætlun opinberlega nokkrum sinnum á liðnu ári.

Þar kemur það í fyrsta lagi fram að í áætluninni er gert ráð fyrir að auka geymarými á Keflavíkurflugvelli margfaldlega frá því sem verið hefur. Þetta er nú í framkvæmd.

Í öðru lagi er í áætluninni gert ráð fyrir að það þurfi að koma upp fullkomnara radarkerfi á Íslandi en áður hefur verið af ýmsum ástæðum. Þetta er nú þegar í undirbúningi.

Í þriðja lagi var í þessum áætlunum gert ráð fyrir að það yrði byggð neðanjarðarstjórnstöð í Keflavík, sem gæti staðist fullt stríð í sjö daga. Þetta er nú á dagskrá.

Árið 1981 gerði því yfirstjórn herafla Bandaríkjanna áætlun um breytingar í herstöðinni hér sem eru núna óðum að koma fram. En þessar áætlanir hafa aldrei verið kynntar íslenskum stjórnvöldum, hvorki fyrrv. hæstv. utanrrh. Ólafi Jóhannessyni né núv. hæstv. utanrrh. Geir Hallgrímssyni. Þetta hefur hins vegar komið aftur og aftur fram, núna næstliðið misseri a. m. k., í ýmsum dagblöðum erlendis og í umr. hér á Alþingi. Mér finnst það benda til þess að það sé nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld og utanrrh. á hverjum tíma að athuga vandlega hvaða hugmyndir Bandaríkjamenn eru með uppi vegna þess að þetta eru bersýnilega ekki marklaus blaðaskrif og vangaveltur, eins og hæstv. núv. utanrrh. hefur viljað vera láta, stundum a. m. k., heldur er hér um að ræða upplýsingar sem mark er takandi á.

Það sem síðast gerist svo í þessu efni er sú yfirlýsing frá hæstv. utanrrh., sem kom fram áðan í ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, að farið er að undirbúa byggingu radarstöðva. Bandaríkjamenn hafa viljað leggja fram formlega beiðni um byggingu radarstöðva hér á Íslandi, en utanrrh. Íslands hefur beðið um að beiðnin verði ekki formleg í bili, meðan verið er að rannsaka málið hér á landi. Það sem hæstv. utanrrh. á væntanlega við í þeim efnum er að það verði aðeins betur kannað hvernig unnt verði að slá saman hernaðarlegu hlutverki þessara radarstöðva annars vegar og hins vegar almennri starfsemi Landhelgisgæslunnar hér á landi og Pósts og síma. Það hefur margoft komið fram hjá honum að þetta þyrfti að kanna um leið. Hin formlega beiðni Bandaríkjamanna liggur sem sagt fyrir og hefur legið fyrir, þó að utanrrh. hafi neitað því aftur og aftur að hún hafi komið, en hún hefur ekki borist inn á borð ráðh. vegna þess að hann hefur beðið bandaríska sendiherrann um að senda sér ekki bréfið. Þannig liggur það. Þetta eru ákaflega athyglisverðar upplýsingar um samskipti utanrrn. og bandaríska sendiráðsins. Ekki einasta eru þær svo nánar að menn ræði þar málin frá degi til dags, heldur bera menn þar saman bækur sínar um það hvenær bréf eru póstlögð, og utanrrh. Íslands leggur á ráðin um það með bandaríska sendiherranum hvenær heppilegast er að láta landann fá formlegu beiðnina, Íslendinga. Ráðh. telur að ekki sé kominn tími til þess og þess vegna sé rétt að hinkra aðeins með að póstleggja bréfið og bandaríski sendiherrann er svo vinsamlegur að gera svo vegna þess að það breytir í rauninni engu á hvaða stigi þessi beiðni kemur vegna þess að það er þegar farið að undirbúa og ræða málin í smáatriðum.

Í öðru lagi, herra forseti, kom það hér fram að utanrrn. er kunnugt um hugmyndir og óskir Bandaríkjastjórnar um byggingu neðanjarðarstjórnstöðvar í Keflavíkurherstöðinni og að sótt hefur verið um fjárveitingu í þessu skyni til Bandaríkjaþings. Þessar upplýsingar hafa legið fyrir í dagblöðum núna um nokkurra mánaða skeið þannig að það hafa allir vitað um að þessar vangaveltur væru á dagskrá og sjálft Bandaríkjaþing væri að ræða um þetta mál í fjvn. bandaríska þingsins, þeirri undirnefnd sem fjallar um framlög til varnarmála eins og það er kallað. En þegar utanrrh. skilar skýrslu á hv. Alþingi Íslendinga minnist hann hvergi á þetta mál og það er ekki fyrr en með eftirgangsmunum, þegar spurt er um málið hér í hv. Alþingi, að svar kemur fram og það er jákvætt. Hæstv. ráðh. viðurkennir að stjórnstöð er á dagskrá af hálfu Bandaríkjastjórnar. Og hvers konar stjórnstöð ætli þetta sé nú, herra forseti? Þetta er neðanjarðarstjórnstöð sem á að geta staðist fullt stríð, eins og það heitir, í sjö daga. Sem sagt stjórnstöð sem getur haldið út í kjarnorkustríði í sjö daga. Það er þetta sem verið er að ræða um og utanrrn. á Íslandi er farið að gefa sig út í bollaleggingar um hvernig megi stjórna hernaðinum héðan frá Íslandi í sjö daga eftir að hafin er kjarnorkustyrjöld. Svona lagað hefur aldrei nokkurn tíma komið á dagskrá hér á Alþingi né á dagskrá ríkisstjórna svo að mér sé kunnugt um. Þetta eru kaflaskipti í sögu herstöðvarinnar vegna þess að nú liggur fyrir viðurkenning um það að fá að reisa stjórnstöð sem notuð verður í kjarnorkustríði.

Það væri ástæða til þess, herra forseti, að setja á nokkuð langt mál um þetta alvarlega mál. Ég vil hins vegar taka tillit til allra aðstæðna og ekki gera það nú. En ég bið hæstv. ríkisstj. og forustumenn stjórnarflokkanna sem hér eru staddir, hv. formann Sjálfstfl., formann utanrmn. og hæstv. iðnrh., um að hugleiða það alvarlega hvort ekki sé nú kominn tími til að við athugum okkar gang og leggjum sjálfstætt íslenskt mat á þessa hluti og reynum að nálgast þessi mál af hleypidómaleysi þannig að ákvarðanir og afstaða verði tekin út frá þeim einu forsendum sem henta íslensku þjóðinni.

Ég ætla svo ekki að eyða frekari orðum að þessu atriði, herra forseti.

Að lokum vil ég fagna því að það verður fullskipuð sendinefnd af hálfu Íslands á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eins og hér kom fram.

Þá vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um ræðu sem flutt var fyrr í þessum umr. og til þess að mótmæli mín við ósannindum séu bókuð í þingtíðindum. Hæstv. forsrh. hélt því fram að allar þær nýju framkvæmdir, sem nú eru í gangi á Keflavíkurflugvelli, hefðu verið ákveðnar í tíð síðustu ríkisstjórnar Alþb., eins og honum þóknaðist að orða það þá. En hann gleymir því stundum, sá góði maður, að hann var sjálfur í þeirri ríkisstjórn og flytur gjarnan níðræður um hana sem eru í rauninni einhver hrikalegasta sjálfsgagnrýni sem sögur fara af, jafnvel þó að menn lesi sér til um þá sjálfsgagnrýni sem iðkuð var austar á hnettinum fyrir allmörgum árum.

Hæstv. forsrh. landsins lét sér sæma að fara með ósannindi í þessum efnum sem nú skulu rakin.

Í fyrsta lagi er það svo að framkvæmdirnar í Helguvík voru ákveðnar eftir að fráfarandi ríkisstj. hafði misst meiri hl. sinn og hafði sagt af sér. Þáv. utanrrh. var svo smekklegur eða hitt þ'ó heldur að heimila fyrstu áfanga framkvæmdanna eftir að forsrh. hafði beðist lausnar fyrir rn. sitt. Ákvörðun um framkvæmdirnar í Helguvík var því ekki tekin í tíð þeirrar ríkisstj. Um það liggja fyrir óyggjandi pappírar, m. a. í utanrmn. og upplýsingar um það hafa komið fram frá núv. hæstv. utanrrh. Ég tek orð hans gildari í þessum efnum en núv. forsrh.

Í öðru lagi viðurkenna allir og vita að svokallað neitunarvald Alþb. kom í veg fyrir að hafist var handa um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Jafnvel núv. hæstv. forsrh. viðurkennir að svo sé.

Í þriðja lagi er það svo að á síðasta kjörtímabili komu fram beiðnir um það frá Bandaríkjastjórn að reist yrðu ný sprengjuheld flugskýli á Keflavíkurflugvelli. Þegar þær óskir lágu fyrir birtust um það blaðafréttir og ég lagði þá strax fram mótmæli mín við þeim fyrirhuguðu framkvæmdum í herstöðinni. Þáv. utanrrh. tók tillit til þeirra mótmæla þannig að sú framkvæmd var ekki hafin á þeim tíma að öðru leyti en því að lagður mun hafa verið grunnur að þremur þessara flugskýla.

Í fjórða lagi er það ljóst að radarstöðvarnar komust ekki á dagskrá í síðustu ríkisstj. Það var aldrei um það mál rætt. Hæstv. núverandi forsrh. Íslands lætur sér sæma að flytja um það ræðu úr þessum ræðustól að það hafi verið ákveðið í tíð síðustu ríkisstj. þegar það liggur raunar fyrir að hugmyndirnar um radarstöðvarnar komu ekki fram fyrr en mörgum mánuðum eftir að núv. ríkisstj. var mynduð.

Í fimmta lagi nefni ég hér neðanjarðarstjórnstöðina sem ég hafði nefnt í minni upphaflegu ræðu. Núv. forsrh. svaraði því til að þetta væri framkvæmd sem hefði verið ákveðin í fyrrv. ríkisstj. Þetta er framkvæmd sem hefur reyndar ekki verið ákveðin enn þá. Málið hefur aðeins verið rætt á milli núv. utanrrh. og bandaríska sendiráðsins og bandarískra ráðamanna. Hér er því um að ræða hrein ósannindi, herra forseti. Og þó að það séu stór orð að bera slíkt fram hér tel ég að það sé óhjákvæmilegt og ég harma að núv. forsrh. skuli haga máli sínu með þessum hætti.

Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að koma þessum aths. einnig á framfæri.