22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6573 í B-deild Alþingistíðinda. (6179)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ætli það sé nokkur vafi á því að hæstv. ríkisstj. heldur áfram á núllgrunnspunktinum í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum, hv. þm. Svavar Gestsson?

Herra forseti. Það eru engin tök á að ræða hér að neinu gagni það mál sem nú er á dagskrá þó að vissulega væri ástæða til þess. Ég kvaddi mér hljóðs hér vegna ræðu hv. 8. þm. Reykv. Stefáns Benediktssonar. Ég fagna því mjög að skýrsla Framkvæmdastofnunar ríkisins, hið skrifaða mál í henni, hefur vakið þennan hv. þm. til umhugsunar um það hvað í raun og veru er að gerast hér í landinu. Hv. þm. orðaði það eitthvað á þann veg að hann hefði ekki séð svo svartan dóm lengi, hvorki frá Framkvæmdastofnun né öðrum aðilum í landinu, um tilfærslur og fólksflutninga frá dreifbýlishéruðunum yfir á þéttbýlissvæðið á suðvesturhorni landsins. Þó að þessi skýrsla Framkvæmdastofnunar hefði ekkert gert annað en að vekja þennan hv. þm., og ég vona miklu fleiri hv. þm., til umhugsunar um það hvert stefnir í málum okkar þjóðar, verði áframhald á þeim fólksflótta frá dreifbýlinu á þéttbýlissvæðið, þá hefur hún vissulega gert gagn.

Að sjálfsögðu má deila um stofnun af því tagi sem Framkvæmdastofnun ríkisins er. Auðvitað gerir hún mistök. Þar má margt betur fara. En það er enginn vafi á því að hún gerir á ýmsum mikilvægum sviðum gagn í þjóðfélaginu. Hún varð á sínum tíma til þess ásamt ýmsu öðru að snúa við þeirri þróun, sem hafði átt sér stað nokkuð mörg ár, að fólksflutningar urðu utan af landsbyggðinni hingað á þéttbýlissvæðið. Og enn ber að sama brunni. Á þessu hef ég ásamt ýmsum öðrum hv. þm. vakið athygli hér á Alþingi margoft í vetur. Ef stjórnvöld grípa ekki strax til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari þróun í þessum efnum, þá er vandséð hvort það tekst á næstunni.

Það er vissulega ánægjuefni þegar augu hv. þm., eins og hv. þm. Stefáns Benediktssonar, opnast í þessum efnum. Því fagna ég innilega og ég vænti þess að sama megi segja um þingsystkin hans í Bandalagi jafnaðarmanna, að augu þeirra hafi opnast fyrir þessum vágesti sem komið hefur í heimsókn á síðustu tímum. Ég vona að augu fleiri hv. þm. hafi opnast við lestur þessarar skýrslu frá Framkvæmdastofnun ríkisins. Sé það svo og verði það svo, þá er ég a. m. k. bjartsýnni á að ná eyrum meiri hl. hv. þm. og hæstv. ríkisstj. um það að grípa til aðgerða, stöðva þessa óheillavænlegu þróun, koma í veg fyrir að til landauðnar stefni í hinum dreifðu byggðum og allir hópist hér á suðvesturhorn landsins.

Stofnun Framkvæmdastofnunar ríkisins á sínum tíma átti að vera og var liður í að snúa við þeirri þróun sem þá hafði átt sér stað. Það tókst. Og auðvitað er hægt að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Ef þeir sem ferðinni ráða á hverjum tíma, stjórnvöld í landinu og Alþingi, eru þannig sinnuð að þau viðurkenna vandann og hafa kjark og þor til að takast á við hann, þá er ekkert vafamál að hægt er að snúa þessari óheillaþróun við. Ég vona að hin svarta skýrsla stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins fyrir árið 1983, hið skrifaða mál í henni hafi orðið til þess að opna augu fleiri hv. þm. hér á Alþingi en Stefáns Benediktssonar fyrir því að hér þarf að grípa til fljótvirkra aðgerða til að snúa þessari óheillaþróun við.