14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

39. mál, Landsvirkjun

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég fer fram á það við hæstv. forseta að hann fresti þessari umr., af því að hér hafa verið vefengdar upplýsingar sem ég hef gefið, meðan ég nálgast þau gögn.

Hv. 5. þm. Austurl. telur að við búum nú orðið við orkuverð sem einstakt verði að teljast um alla Norðurálfu og jafnvel þó leitað sé um víða veröld. Já, ekki er ástandið gott. Þetta er nú arfleifðin mín, sem ég tók við fyrir rúmum fimm mánuðum. Og hvergi við þetta miðandi nema þá í Ghana eins og hann er að upplýsa.

Hann spyr hvort ég ætli ekki að reyna að hafa út úr samningum, út úr þeim viðskiptum eins og hann orðar það, við Alusuisse verð sem a.m.k. mundi greiða framleiðslukostnaðarverð raforku okkar. Að sjálfsögðu ætta ég að reyna að hafa sem allra, allra mest út úr þeim auðhring, en það er ekki skynsamleg leið til þess að ná því marki að setja lög um lágmarksorkuverð. Það er fráleit aðferð sem engum heilvita manni getur dottið í hug og verð ég að segja að mér ofbýður að hv. 5. þm. Austurl., samþingismaður minn á Austurlandi, skuli láta sér detta þessa firru í hug. (JBH: Getur verið að hann geri þetta í áróðursskyni?) Það getur ekki verið vegna þess að það er engin svo fáfróður í þessum sökum að hann taki þetta gilt. (Gripið fram í: Ekki fyrir austan.) (Gripið fram í: Og ekki fyrir vestan.)

Hann talar um að koma á eðlilegri leiðréttingu og láta hinn erlenda meðeigenda okkar að Járnblendifélaginu greiða sanngjarnt verð. Hann orðar þetta svo sem þarna séum við lausir flestra mála. Við erum meirihlutaeigandi í þessu fyrirtæki og ég hef rakið það í svörum við fsp. hér á hinu háa Alþingi við hverju við megum búast af þessum sameignaraðila okkar ef okkur tekst ekki að ráða þá gátu sem viðreisn fétagsins er. Þá er fullkomin hætta á því að þessi minnihlutaaðili gangi frá þessu fyrirtæki og skilja það eftir í okkar umsjá. Að vísu mun hann vafalaust verða að greiða hluta af þeim skuldum sem safnast hafa, það skyldi maður ætla, en ég er sannfærður um að þá mundum við verða að loka þessu fyrirtæki. Okkur mundi bera upp á sker. Það er það sem við virðist blasa. En það er hægt sem sagt að setja þröskuld í veginn sem er óyfirstíganlegur, ég orðaði það ekki vægar en svo, þröskuld sem smíðaður yrði með því móti sem hér er lagt til.

Herra forseti. Ég ítreka beiðni mína um frestun þessarar umr. svo ég komi við upplýsingum mínum og fái þær staðfestar.