16.11.1983
Efri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Virðulegi forseti. Hv. fjh.- og viðskn. Ed. hefur fjallað um mál þetta og aflað upplýsinga m.a. frá fjmrn. og gjaldeyrisyfirvöldum. Eins og menn vita er þetta frv. um staðfestingu á brbl. frá í sumar um afnám álags á ferðagjaldeyri.

Nefndin ræddi mál þetta í bróðerni, eins og öll önnur mál, en varð þó ekki algerlega um það sammála, og minni hl. n. mun gera grein fyrir sinni afstöðu, sem byggist á því, að ég hygg, að minni hl. telji að ótímabært hafi verið að gefa þessi brbl. út á sínum tíma.

Málið var nokkuð rætt hér þegar það var til 1. umr. Það sem ríkisstj. og stuðningsmenn frv. leggja megináherslu á er það, að íslenska krónan þurfi að verða alvörukróna, hún þurfi að vera gjaldgengur peningur erlendis, og um það hygg ég að allir geti verið sammála, en hún verður það auðvitað ekki á meðan tvöfalt gengi er skráð og svartur markaður stundaður með peninga. Menn fá ekki fyrir þá þegar þeir leggja þá inn í banka hér það sama og þeir verða aftur að greiða þegar þeir taka peninga út til ferðalaga o.s.frv. Þetta verður auðvitað að uppræta. Um það má að sjálfsögðu deila hvort það átti að gerast mánuðinum fyrr eða seinna. Ég taldi best að aðhafast strax í því efni. Við þurftum að losna við tvöfalda gengið og svarta markaðinn.

En meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt.