22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

80. mál, kostnaður af kynningu á efnahagsaðgerðum Sjálfsæðisflokks og Framsóknarflokks

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Svörin við þessum spurningum eru eins og ég skal nú rekja:

1. Vegna funda er enginn reikningur vegna ferðalaga. Annaðhvort ók ég í minni bifreið eða fór með landhelgisgæslu, þegar ferð féll til, og með flugmálastjórn einu sinni.

2. Þrír reikningar hafa borist vegna fundarsala, frá Hótel Borgarnesi, Hótel KEA og Hótel Sögu, samtals 5820 kr.

3. Auglýsingareikningar eru 45 760 kr. Samtals var kostnaður við fundaferðir því 51 580 kr.

Vegna þess rits sem ríkisstj. ákvað að gefa út var hönnunarkostnaður 39 600 kr., prentunarkostnaður var samtals 104 802 kr. með söluskatti og önnur útgjöld, þ.e. sendingarkostnaður, annar kostnaður varð ekki, varð samkvæmt reikningi Póststofunnar í Reykjavík 197 610 kr. eða samtals 322 070 kr. auk söluskatts að upphæð 19 942 kr., sem ég gat um áðan og var inni í þeirri upphæð sem ég nefndi vegna prentunar.

Ríkisstj. varð eins og mönnum er kunnugt að grípa til mjög róttækra aðgerða í upphafi ferils síns til þess að bægja frá miklum voða í efnahagsmálum. Ríkisstj. taldi eðlilegt og skylt að kynna landsmönnum aðgerðir og árangur eins og frekast væri kostur. Um tvenns konar útgáfu var rætt. Annars vegar um ítarlegt rit eins og fyrr hafa verið gefin út — t.d. gaf viðreisnarstjórnin út slíkt rit í upphafi síns ferils -eða minna rit sem aðgengilegra væri fyrir almenning. Síðari kosturinn var valinn og þá m.a. með tilliti til þess að útgáfukostnaður og dreifingarkostnaður er miklu minni á slíku riti.

Ég vil vekja athygli á því að iðulega hafa verið gefin út upplýsingarit á vegum ráðuneyta. Svo að ég taki nærtækt dæmi gaf þáv. iðnrh. út í mars s.l. bæklinginn Álmálið, ýmis gögn, samskipti við Alusuisse vegna ÍSAL“ og annan bækling sem hét „Þættir af samskiptum íslenskra stjórnvalda og Alusuisse.“ Mér er ekki kunnugt um að um þetta væri fjallað í þeirri ríkisstj. sem þá sat en skv. upplýsingum iðnrn. var kostnaður vegna bæklingsins, þ.e. „Álmálið, ýmis gögn um samskiptin við Alusuisse vegna ÍSAL“, sem gefin var út í 3000 eintökum, 77 136 kr., aðeins prentunarkostnaður. Enginn annar kostnaður er skráður í rn. Kostnaður við samningu og prentun síðarnefnda bæklingsins, sem gefinn var út í 500 eintökum var samtals 165 686 kr. Ég er ansi hræddur um að sumir ráðherrar í fyrrv. ríkisstj. hefðu getað gert ýmsar aths. við ýmislegt sem í þessum bæklingum stendur og kostað var af opinberu fé.