22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

80. mál, kostnaður af kynningu á efnahagsaðgerðum Sjálfsæðisflokks og Framsóknarflokks

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Vegna þess að inn í þessa umr. hafa verið dregnir bæklingar sem gefnir voru út í minni tíð sem iðnrh. varðandi Alusuissemálið þá vil ég geta þess hér að þar er nú ólíku saman að jafna í sambandi við þá útgáfu. Það, sem hér hefur verið vikið að, eru ýmis gögn um samskiptin við Alusuisse vegna ÍSALs, þ. á m. tillögur stjórnar og stjórnarandstöðu fram komnar í málinu, svo og sérfræðileg álit í sambandi við athugun á raforkuverðinu til ÍSAL. Þetta eru upplýsingar um stórt hagsmunamál fyrir Íslendinga sem hafa að geyma sjónarmið beggja aðila, þ. á m. ræður haldnar hér á Alþingi af mér og hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni í tengslum við þetta mál.

Hitt atriðið, sem að var vikið, eru þættir af samskiptum íslenskra stjórnvalda og Alusuisse, tekið saman að beiðni iðnrn. af Gísla Gunnarssyni sagnfræðingi og nú doktor. Og ég held að hæstv. forsrh. sé alveg velkomið að segja sitt álit á innihaldi þessa máls hér. Ef hann telur það ekki hlutlæga frásögn þá er rétt að hann komi fram með það.