22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

102. mál, Íslandssögukennsla í skólum

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp.: „Hefur menntmrh. lagt blessun sína yfir þá ákvörðun skólarannsóknadeildar að hætt verði að mestu leyti að kenna Íslandssögu í skólum landsins?“

Kveikjan að þessari fsp. er í Morgunblaðinu frá 13. nóv. þar sem annars vegar er birt grein sem ber heitið „Íslandssagan umrituð“ og hins vegar birt viðtal við Erlu Kristjánsdóttur, námstjóra í samfélagsfræði, sem ber fyrirsögnina „Gömlu námsbækurnar eru hlutdræg túlkun á Íslandssögunni“.

Mér er það ljóst að það er erfitt að skrifa námsbækur um söguna þannig að öllum líki. Og vafalaust er einnig erfitt að túlka hana. En spurningin hlýtur að vera sú hvort við erum að hverfa frá því að telja okkur skylt að fjalla um tímabilið allt, það ritaða tímabil sem við eigum sögu um, eða hvort við teljum að þetta námsefni tilheyri ekki samtíðinni vegna þess að tækni og vísindi hafi tekið við. Ég vil leyfa mér að lesa hér upp úr viðtalinu við Erlu:

„Sú nefnd, sem upphaflega gerði tillögu um þessa breytingu árið 1971, færði fram fjögur meginrök,“ segir Erla Kristjánsdóttir. „Í fyrsta lagi að hefðbundin mörk þessara greina væru miðuð við fræðilegar forsendur sem börn á grunnskólaaldri hefðu vart tök á að greina. Í öðru lagi yrði námið raunvirkara með þessum hætti og tengdist betur reynslu utan skólans. j þriðja lagi að skipulögð skipuþætting gerði námið hnitmiðaðra og kæmi í veg fyrir óþarfa skörun og endurtekningu. Í fjórða lagi var því haldið fram að ef ná ætti öllum meginmarkmiðum námsins hentaði samþætting betur því betra væri að koma þar fyrir sjálfstæðum afmörkuðum viðfangsefnum en ef skipt væri í sjálfstæðar námsgreinar. Enn fremur hefur verið vísað til stórstígra framfara í tækni og vísindum og þeirra miklu breytinga sem þjóðfélagið hefur tekið á undanförnum áratugum.“

Það er þetta með tækni og vísindi sem situr mest í mér. Sagan breytist ekkert hvort sem við finnum upp kjarnorkusprengjur eða nýja hluti í læknisfræði. Spurningin er aðeins hvort við teljum að hún sé þess virði að hún sé kynnt þegnum þessarar þjóðar. Sú Íslandssaga, sem kennd hefur verið, hefur lagt höfuðáherslu að mínu viti á tvo þætti, annars vegar mikilvægi samstöðu þjóðarinnar og það að sundrungin leiði yfir hana bölvun og afleiðingin af þessari sögutúlkun er vissulega þjóðernishyggja sem sumir hafa tekið á þann veg að við værum að kenna Danahatur í skólum. Hitt atriðið er að hún hefur lagt áherslu á mikilvægi einstaklingsins í þróun sögunnar. Það er boðskapur um það að vort lán búi í okkur sjálfum.

Sú saga, sem byggir á þessum grundvallaratriðum, boðar vissulega vissa túlkun; hún gerir það. En ég efa að það sé sanngjarn dómur sem upp er kveðinn af námstjóranum þegar sagt er: „Gömlu námsbækurnar eru hlutdræg túlkun á Íslandssögunni“. Ég efa að þeir, sem sitja við að semja nýjar, sleppi undan þeim dómi að einhverjum finnist ekki að það sé einnig hlutdræg túlkun á Íslandssögunni. Mér sýnist að eitt af því, sem eigi að leggja áherslu á í samfélagsfræðinni sem kennd verður, sé að það sé stéttaskiptingin fyrst og fremst sem hafi verið bölvaldur í sögu þjóðarinnar. Það má vel vera að einhver telji að það sé aðalatriðið að koma því á framfæri. Ég er þó ekki viss um að allir Íslendingar telji að það sé minna atriði að undirstrika það að við erum lítil, fámenn þjóð sem þarf að standa saman og vegna þess að við deildum innbyrðis þá töpuðum við frelsinu og við munum tapa því aftur ef við deilum of hart innbyrðis.

Hetjudýrkun sem kemur fram í Íslandssögunni hefur og verið gagnrýnd. Grímur Thomsen taldi þó að hetjudýrkunin ætti vissan rétt á sér. (Forseti hringir.) Ég vil, með leyfi forseta, fara hér með örstutt brot úr vísu eftir hann og það er úr Hemings flokki Áslákssonar:

„Hemingur til fósturs þar er fenginn

fornum raum frá Ólafs helga dögum

bæði elskar hann og æfir drenginn

elur hann á gömlum hetjusögum.“

Og ég efa að annað efni hafi verið betra til að efla hugrekki Íslendinga — það sem dugði okkur í sjálfstæðisbaráttunni.