18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Góðir hlustendur. stundum hefur verið sagt og það með nokkrum sanni, að útvarpsumræður gefi ekki alltaf rétta mynd af önn dagsins á Alþingi. Umræður í heyranda hljóði eru þó hluti af lýðræðinu í hefð þingsins. Þetta atriði var þungt á metum strax fyrir 150 árum, er Fjölnismenn börðust fyrir sérstöku þingi fyrir Íslendinga. Höfundar bænaskránna um þetta efni voru ekki í neinum vafa um það, að innlent þinghald mundi vekja þjóðina, umræður í heyranda hljóði og þingtíðindi prentuð á íslensku hefðu víðtæk og vekjandi áhrif. Einn þeirra sagði árið 1835:

„Um nytsemi þvílíkrar stjórnarlögunar sýnist mér þó mannkynssagan bera ljóst vitni og þá ætla ég þjóðirnar hafa komist hæst þegar þær hafa fengið að taka þátt í löggjöfinni. Svo virðast mér bændur hjá oss upplýstir, að brátt muni þeim skiljast hvað um er að vera ef til þeirra kasta kæmi. Fár er svo ókænn að ekki kunni skyn á hvað honum er helst til óhæginda og hvernig ráða megi bót á því með nokkru móti.“

Ljóst er af þessu að Fjölnismenn höfðu mikla trú á skynsemi þings og þjóðar. E.t.v. eru þingtíðindi okkar tíma ekki jafnvinsæl og vekjandi lesning og þeir töldu að vera mundi þá, en hitt er víst, að í skynsemi almennings er traustasti liðstyrkurinn til nauðsynlegra verka við stjórn landsins nú sem þá.

Núv. ríkisstj. tók við sameiginlegu búi okkar allra Íslendinga er efnahagur þess stóð andspænis hættum sem voru stórfelldari en nokkru sinni hafa blasað við frá stofnun Lýðveldisins. Þetta er ekki umdeilt. Engar raunverulegar úrbætur gátu verið sársaukalausar. Það var ekki heldur umdeilt.

Hv. þm. Svavar Gestsson átti ekki orð til að lýsa hneykslun sinni nú á því hvernig núv. ríkisstj. tæki á efnahagsmálum. Hann hélt því fram að kauplækkun hafi nú orðið 30%. En hið rétta er samkv. útreikningum Alþýðusambands Íslands, að lækkun verðbólgu um 100 prósentustig jafngildir 20% kjarabót. Eða man nú enginn eftir því, fyrr á þessu ári, er Alþb. bauð upp á samkomulag um neyðaráætlun til fjögurra ára þegar það sjálft hafði setið í ríkisstj. í fjögur ár? Ég hygg að láglaunafólk hafi að fenginni reynslu frábeðið sér forsjá Alþb. Þess vegna brýst nú beiskja þess fram.

Almenningur var orðinn langþreyttur á sýndarkjörum, sem byggðust á blekkingum, er fólust í hækkandi erlendum lánum í stað nægilegrar verðmætaframleiðslu í landinu. Lánunum er velt á herðar næstu kynslóðar. Þessi þróun var komin í það horf, að aðeins tvö lönd í veröldinni, Argentína og Brasilía, eru með meiri skuldabyrði en við sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Hin skynsamari hluti þessarar þjóðar vill auðvitað taka þátt í því að snúa rekstri þjóðarbúsins til betri vegar. Öllum sæmilegum mönnum er það áskapað að vilja búa í haginn fyrir næstu kynslóð og leggja nokkuð að sér til þess að svo megi verða. Þess vegna er það sem almenningur sýnir stefnu stjórnarinnar skilning og fylgi stjórnarinnar fer vaxandi samkv. skoðanakönnunum, sem nú nýlega hafa birst.

Kjarasamningar hafa vissulega verið skertir um skeið samfara stöðugu gengi, minni verðhækkunum og aðhaldi í fjármálum, í þeim tilgangi að kjarasamningar geti raunverulega orðið frjálsir til frambúðar, að menn geti samið frjálst um kjör sín og borið ábyrgð á samningum sínum á grundvelli raunverulegra verðmæta. Spurning dagsins í dag er hvort atmenningur í landinu er tilbúinn til þess með skynsemi sinni að ljá ríkisstj. atfylgi til þess að sá árangur í efnahagsmálum, sem þegar er farinn að koma í ljós, fái að batna og verða til frambúðar.

Ýmislegt hefur það verið í aðgerðum ríkisstj. sem mótast af því viðhorfi að fjölskyldan er grunneining þjóðfélagsins og eftir því beri að styðja hana og vernda. Svo var um sérstakar ráðstafanir vegna barnmargra fjölskyldna, vegna húsnæðislána og niðurfellingar aðflutningsgjalda af ýmsum nauðsynjavörum til heimilis. Það var ekki síst núv. forseti Ed., Salome Þorkelsdóttir, sem átti hlut að því máli. Marga fulltrúa stjórnarandstöðunnar hefur því miður skort stórhug til að viðurkenna að þarna var vel að verki staðið og hafa þeir gert lítið úr. Er þó mála sannast að verð ýmissa þessara vara hefur staðið í stað og jafnvel lækkað. Má þar nefna ýmiss konar búvöru, búsáhöld, borðbúnað og heimilisvélar, allt nauðsynlega hluti á nútíma heimilum.

Í ýmsum málaflokkum setur þetta viðhorf til heimilis og fjölskyldu svip sinn á stefnu ríkisstj. Á vegum menntmrn. er nú unnið að því að gera úttekt á og tillögur um fjölmörg atriði, er öll miða að því að tengja betur skólastarf og fjölskyldulíf, í þeim tilgangi að styrkja fjölskylduna í uppeldishlutverki sínu á grundvelli jafnréttis kynjanna. Aðalviðfangsefni þessa verks eru tvö: Annars vegar hvernig má samræma betur vinnutíma foreldra og barna og hins vegar hvað er unnt að gera í skólastarfi, m.a. í námsgreinum og kennsluefni, til þess að styrkja samband foreldra og barna og stuðla þar með að samheldni fjölskyldna, efla fjölskylduna sem bakhjarl barnanna.

Ríkisstj. bindur miklar vonir við þetta verk sem getur orðið til þess að styrkja eina meginstoðina í þjóðlífinu. Allt hvílir þetta á þeirri hugsun að jafnrétti karla og kvenna sé og eigi að vera bæði á heimili, í skóla og á vinnumarkaði. Í starfi skólanna þarf að leggja megináherslu á þekkingu, þekkingu huga og handar, þekkingu sem myndar grundvöll undir sjálfstæði í hugsun, hvetur til sannleiksleitar, þjálfar menn í samstarfi við annað fólk. Bæta þarf upplýsingaflæði milli skóla og atvinnulífs og auka bein tengsl m.illi þessara þátta. Unnið er að sérstökum ráðstöfunum til að koma á skynsamlegri tölvunotkun í skólum til þess að undirbúa menn undir þátttöku í fjölbreyttara og arðvænlegra atvinnulífi.

Ekki fer hjá því að sparnaður í ríkisrekstri bitni um sinn á ýmsum þörfum framkvæmdum. Þetta á við um öll ráðuneyti. Á vegum menntmrn. hefur verið unnið að aðhaldi í rekstri og framkvæmdum í samstarfi við skóla og aðrar menningarstofnanir. Miðað er við að þessar aðhaldsaðgerðir skerði hvorki fræðslu, menningarstarf eða íþróttir né heldur rannsóknir. Allt eru þetta nauðsynlegir þættir fyrir lífvænlega byggð í landinu. Ríkisstj. vill efla sjálfstæða menningu og listir í landinu. Helstu menningarstofnanir þessarar fámennu þjóðar eru í augum sumra útlendinga kraftaverk. En þær eru nauðsynjar fyrir fámenna þjóð sem vill bera virðingu fyrir sjálfri sér og láta virða sjálfstæði sitt.

Í fjölmiðlum er unnið að auknu frelsi og væntanlega verður nýtt útvarpslagafrv. lagt fyrir Alþingi innan skamms. Ríkisstj. vill efla skilning æskulýðs og fullorðinna á nauðsyn þess að efla og bæta landið sjálft, náttúru þess og auðlindir. Þessu tengist nú atvinnuuppbygging til að skapa atvinnu fyrir sívaxandi fjölda ungra Íslendinga sem á vinnumarkaðinn koma á næstu árum. Á þessu sviði verður auðlindasókn framtíðarinnar eins og hún hefur lengi verið á hafinu. Ég hef leyft mér að líta aðeins smástund til framtíðarinnar og þeirra björtu vona, sem hún vekur. Þegar erfiðleikar sækja að og vetur gengur í garð er vert að minnast þess að eftir vetur kemur vor. Við skulum búa okkur undir það.

Ég þakka fyrir áheyrnina.