23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. þekkja þetta mál og þjóðin raunar öll. Þetta er eitt þeirra mála sem tengist efnahagsráðstöfunum á liðnu vori og brbl. sem sett voru 27. maí á þessu ári. Ég held að ástæðulaust sé að ég sé hér að upphefja nokkrar almennar pólitískar umr. um þetta mál. Við höfum rætt um það mjög mikið í hv. fjh.- og viðskn. og fengið fjölmarga aðila okkur til aðstoðar til þess að reikna út eitt og annað, og minni hl. n. flytur sínar brtt. sem eðlilegt er. Þeir gera sjálfir grein fyrir þeim hér á eftir, en við í meiri hl. leggjum til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.

Þessar umr., sem fram hafa farið, hafa ekki einungis verið í fjölmiðlum, heldur líka verið almennar stjórnmálaumr. hér á Alþingi og menn þekkja þetta mál að svo miklu leyti sem almenningur getur komist til botns í því neti sem segja má að skattalög og allar slíkar tilfærslur milli manna séu. Það er meira og minna óskiljanlegt fyrir venjulegt fólk, en hins vegar meta menn auðvitað sína eigin pyngju og þá reikninga sem þeir fá í hendur og á því er auðvitað enginn efi að það hefur þrengst mjög um meðal alþýðu, og fólk þyrfti svo sannarlega á einhverjum kjarabótum að halda. Ég held að menn séu þó sammála um að nauðsynlegar hafi verið aðgerðir eitthvað í þá áttina sem gerðar voru á liðnu vori þó að auðvitað deili menn um hvort t.d. hinar svokölluðu mildandi aðgerðir hafi verið nákvæmlega þær einu réttu og hvað þá sé mikilvægast í þeim. Minni hl. mun hér leggja til og leggur raunar til í till., sem hann þegar hefur flutt, að á því verði nokkur breyting og sérstaklega að því er varðar persónuafslátt og barnabætur og er það allt saman skiljanlegt. En fyrsti liður í hinum svonefndu mildandi ráðstöfunum var einmitt á þann veg að reyna að lækka vöruverð beinlínis, verð á nauðsynjavöru. Nokkuð hefur verið af því gert og við ræðum nú einmitt í hv. fjh.- og viðskn. hugsanlegar aðgerðir til þess að reyna að draga enn úr hinu gífurlega háa verði sem er á ýmsum vörutegundum vegna aðgerða ríkisvaldsins í marga áratugi. Neysluskattar á sumar vörur hafa verið hækkaðir stanslaust, venjulega í kjölfar gengisbreytinga og þannig hefur ríkisvaldið sjálft að því stefnt að sprengja vöruverð upp. Svo er komið að þær vörur sem t.d. fellur á hið svokallaða sérstaka tímabundna vörugjald, tekur ríkið oft og tíðum 200% og jafnvel yfir 200% álag á vöruverðið, þannig að vörurnar, þegar álagning kemur til viðbótar, eru kannske allt að fjórum sinnum dýrari en þær eru á hafnarbakkanum. Þetta ræðum við allt saman núna í nefndunum, fjh.- og viðskn. þessa dagana, og kemur þá væntanlega til frekari umr. hér mjög bráðlega, hvort á því sviði verði eitthvað hægt að koma til móts við það fólk, sem áreiðanlega á erfitt með að láta enda ná saman til að kaupa brýnustu nauðsynjar.

Menn benda á það að síðustu dagana hafi í ríkum mæli verið tekin upp kreditkort svonefnd. Einhver sagði að þetta kynni að verka eins og magnyl í bili, að fólk hefði þá peninga til að kaupa einhverjar vörur á næstunni. Þó að ég sé eindreginn stuðningsmaður núv. stjórnar og þeirra aðgerða sem gerðar voru á s.l. vori, þá er mér auðvitað alveg ljóst eins og öðrum að nú er boginn mjög spenntur og með einhverjum hætti þarf að auðvelda því fólki, sem heyr erfiðustu lífsbaráttuna, að komast yfir þennan erfiða hjalla. En það eru fleiri ráð til þess en það sem minni hl. bendir hér á þó að ég skilji mjög vel að hann gerir þessar tillögur. Við í meiri hl. teljum engu að síður þar sem þetta ár er nú að líða að við þurfum fremur að hyggja að framtíðinni og grípa til annarra úrræða en þeirra sem hér eru fluttar tillögur um.

Ég skal ekki tefja þessa umr. Ég held að það sé rétt að afgreiða þetta mál annaðhvort á þessum fundi eða þá hinum næsta og legg á það áherslu.