23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er æðimerkilegt mál á ferðinni. Fiskmatsmál í landinu eru auðvitað mjög mikilvæg og að rétt sé á þeim haldið og á þeim sé góð regla og gott skipulag. Hins vegar get ég ekki séð að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu til mikilla bóta eða leysi yfirleitt nokkurn vanda. Það gefur auga leið á þessum tímum, þegar við leggjum vaxandi áherslu á að sífellt sé betur farið með fisk til sjós og lands, að gæðamálin komi til meðferðar á sem flestum sviðum í sjávarútvegi.

Þetta frv. Framsfl. frá því í fyrra á að verða til þess að bæta meðferð afla og tryggja betur en nú er gert meðferð aflans og eftirlit. Ekki get ég séð hvar það birtist í þessu frv. Við 1. umr. er kannske ekki ástæða til að setja á langar tölur í þessum efnum, en ég treysti því að við meðferð málsins verði lögð mikil vinna í að kanna þessa hluti sem gaumgæfilegast.

Höfuðbreytingin frá gildandi lögum er ekki mikil, eins og ég nefndi áðan, og eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh. er þar um tiltölulega fá atriði að tefla. Það sem mestri breytingu veldur er hið nýja fiskmatsráð, sem þarna kemur sem yfirstjórnstofnun.

Því miður sýnist mér að ýmislegt sé óljóst, a.m.k. ekki sagt berum orðum, í frv. Strax í 3. gr., þ.e. fyrsta greinin sem er undir kaflaheitinu Um fiskmatsráð í II. kafla, er talað um að í fiskmatsráði eigi að vera sjö menn. Ráðh. skipar þá alla. Hér er einnig sagt að ekki skuli vera færri en fjórir af þeim sjö komnir frá helstu hagsmunasamtökum sjávarútvegsins, en það er ekki sagt frá hverjum hagsmunasamtökum þeir eiga að koma. Þess vegna hefði mér fundist að hæstv. ráðh. hefði átt að gefa sér tíma til að nefna hver þau hagsmunasamtök eru með tilliti til verksviðs fiskmatsráðs, sem er m.a. fólgið í því að það á að vera umsagnaraðili um marga hluti og auk þess á það að verða úrskurðaraðili um mat og framkvæmd þess. Eins og segir í 23. gr.: Ef ágreiningur rís vegna fiskmats skal fiskmatsráð úrskurða. — Það er sem sagt um leið dómstóll. Hagsmunaaðilar eiga að verða dómarar um mat á sinni eigin framleiðslu. Sýnist mér að sú hugsun sem þar liggur á bak við sé síst til bóta. Mér finnst að þessu leytinu til allt of fast að orði kveðið og fiskmatsráði falið of mikið vald í tilfellum eins og áðurnefndri grein.

Ráðh. virðist eiga að hafa þetta allt í hendi sinni, eins og margt annað í þessu frv., ef að lögum verður, og er þá gengið í þessum efnum eins og mörgum öðrum lengra til þeirrar áttar að fela ákveðnum ráðh. mikið vald í hendur.

Það er nokkuð einkennilegt á þessum tímum, þegar við erum sífellt að gera meiri kröfur og þurfum að gera meiri kröfur um meðferð afla og vinnslu hans, að þá skuli verða gerðar minni menntunarkröfur til starfa en áður. Það er fróðlegt fyrir hv. alþm. að hafa við hendina þau lög sem nú eru í gildi um þessi málefni, þar sem kveðið er á um að yfirmaður þeirrar stofnunar sem nú er við lýði, Framleiðslueftirlits sjávarafurða, skuli hafa háskólamenntun í matvælafræðum eða skyldri fræðigrein, sem fjallar um meðferð mestu matvælaframleiðslu meðal þjóðarinnar, en nú eru hins vegar engar menntunarkröfur gerðar til þessa manns. Ég gæti trúað því að það þætti við hæfi að hann væri úr Samvinnuskólanum. (Gripið fram í.) Og væri ekki verra þó hann hefði flokksskírteini Framsfl., sem hefur verið notadrjúgt plagg til að komast í embætti að undanförnu, því miður.

Í þessum efnum á auðvitað ekki að viðhafa slík vinnubrögð eða láta þann úrelta hugsanagang ráða, heldur ber okkur auðvitað skylda til þess að velja í öll störf af slíku tagi með tilliti til menntunar, reynslu og hæfni.

Æðsti prestur hins nýja fiskmatsráðs þarf sem sagt ekki að hafa neina menntun í þeim málaflokki sem hann á að vera æðstur og valdamestur í og dómari. Það tel ég rangt. Auðvitað er það rangt og þarf ekki um að tala.

Annað atriði finnst mér heldur vafasamt varðandi nefndan fiskmatsstjóra. Hann á aðeins að ráða til fjögurra ára í senn og stendur hvergi hér að það megi endurráða hann, þó skilja megi það á báða vegu. En ef maður er settur í slíkt embætti aðeins til fjögurra ára, sem er eins viðamikið og þarna kemur fram og fjallar um mörg afar sérgreind viðfangsefni, er varta hægt að ætlast til þess að menn komist inn í þessi málefni öll saman og hafi vald á þeim á mjög stuttum tíma. Jafnvel þó menn vilji ráða slíka starfsmenn til ákveðins tíma eru fjögur ár afar skammur tími. sama er að segja um deildarstjórana væntanlegu, sem eiga hins vegar að hafa menntun. Sem betur fer er þeirra menntunarkröfum ekki sleppt, heldur er ætlast til þess að undirmennirnir hafi lært nokkuð til sinna starfa. En þá á einnig að ráða til fjögurra ára. Það er lítill reynslutími. Þó að það sé í tísku núna og baráttumál ýmissa manna í pólitík að binda ráðningartíma við mjög fá ár tel ég það heldur óskynsamlegt í sérgreindum verkefnum.

Með því að setja á laggirnar fiskmatsráð er verið að setja sérstaka stjórn yfir alla þessa stofnun. Ef hugsað er til þess hverjir koma til með að vera í þessu ráði benda allar líkur til þess að orðið „hagsmunasamtök“, eins og nefnd eru þarna, gæti átt við t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sjávarafurðadeild Sambandsins, Samband ísl. fiskframleiðenda eða SÍF, Skreiðarsamlagið eða eitthvað ámóta. Ég vona að það verði ekki svo einlitur hópur, en þarna er sem sagt um aðila að ræða sem hafa hagsmuna að gæta og eiga að stýra þessu apparati. Annað eins hefur nú gerst í þessu landi, að menn hafa á mörgum sviðum reynt að hafa áhrif á smávægilegri hluti en það, hvort dæma eigi hellan farm óhæfan o.s.frv. Það er ekki eyðandi tíma í að ræða það.

Ég get ekki séð að þessar breytingar, setning þessa nýja ráðs, séu til nokkurra bóta, síður en svo, jafnvel þó að ráð þetta teljist eiga að vera ráðh. til aðstoðar og umsagnaraðili. Við skulum einnig athuga að þetta ráð á að vera umsagnaraðill um stöðuveitingar í stofnuninni, þannig að ef hæstv. ráðh. hverju sinni kemur til með að hafa viss tök á yfirstjórninni hefur hann um leið jafnmikil tök á því að ráða hverjir eru settir til hinna ýmsu starfa.

Hæstv. sjútvrh. greindi einnig frá hinni væntanlegu deildaskipan í þessari stofnun. Það á að fækka deildum í stofnuninni. Ég tel að deildirnar sem nú eru í Framleiðslueftirliti sjávarútvegsins eigi varla að vera miklu færri. Þarna held ég að sé gengið til rangrar áttar. Þetta gæti auðvitað gengið, en á núverandi skipan er komin góð reynsla og ég get ekki séð að breyting sé til bóta.

Í þeirri grein sem hæstv. ráðh. nefndi áðan, 19. gr., eiga að vinna saman að mati matsmenn framleiðenda og matsmenn ríkisvaldsins, en þó segir í grg. að það ætti ekki að vera þörf á því að ríkismatið sinnti þessu hlutverki. Ég tel að rangt sé að ríkismatið hafi ekki hendur á þessum hlutum alla leið því að þá væri farið í öfuga átt við það sem gerist hjá nágrannaþjóðum okkar og helstu samkeppnisaðilum, t.d. hjá Kanadamönnum því að þeir hafa verið að koma á laggirnar hjá sér ríkismati í allri framleiðslu, og ekki skynsamlegt hjá okkur að hafa ekki a.m.k. eins gott lag á matinu hér heima og þeir sem eru að keppa við okkur um markaðina.

Herra forseti. Eins og ég nefndi fyrst sé ég ekki að lagabreyting, raunar engin lagabreyting, verði til þess að leysa þau vandamál sem steðja að okkur í þessum málaflokki. Raunar hafa margar stjórnvaldsákvarðanir, sem birtar hafa verið í reglugerðum, verið með þeim hætti að fram hjá þeim hefur verið farið að meira eða minna leyti. Þessi lög mundu engu breyta um það ef þau yrðu að veruleika! Ég fæ ekki séð að helstu vandamálin, sem eru hjá okkur í þessum efnum bæði til sjós og lands, verði neitt betur leyst þó við komum á þessu skipulagi. Þau bæta að mínum dómi ekki þann misbrest sem er á meðferð sjávarafla, hvort sem er á veiðiskipunum eða í vinnslustöðvunum. Hins vegar er alveg ljóst að við þurfum að taka á í þeim efnum og koma í veg fyrir að illa sé farið með sjávarafla. Þar kemur margt til, ég hirði ekki um að nefna það allt.

Sjútvrn. hefur verið bent á margar leiðir til þess að farið sé betur með afla úr togurum. Ég minnist þess, að í maí fyrir tveimur og hálfu ári skilaði sérstök nefnd viðamiklu áliti til sjútvrn. um það, hvernig fara mætti betur með afla á togskipum. Við það var látið sitja. Sú nefnd var alveg sammála um til hverra ráða skyldi gripið, en mér er ekki kunnugt um að leiðbeiningum hennar eða ábendingum hafi verið sinnt að neinu leyti. Ábendingar hennar voru af mörgu tagi í einum 22 liðum. Það var talað um dagmerkingu fiskikassa, kælingu í lestum, kælingu á geymslurými í landi o.s.frv. Ég er að vísu með þetta plagg hér fyrir framan mig og ástæðulaust að rekja það allt saman, enda kannske ekki nema í óbeinu sambandi við það sem hér er verið að ræða. Ég leyfi mér þó að lesa ofurlítinn kafla úr lokaorðum þessarar skýrslu, með leyfi hæstv. forseta:

„Grundvallarforsenda þess að nýjar reglur sem gamlar geti haft einhver áhrif er að mönnum séu ljósar þessar reglur, tilgangurinn með þeim og sú staðreynd, að ef þær geta orðið til þess að bæta gæði íslenskra fiskafurða, þá horfir það öllum til góðs og hagsbóta. Þess vegna telur nefndin það jafnvel enn brýnna en að semja reglur að hrundið verði af stað áróðri, bæði í veiðum og vinnslu, að meðferð fisks á öllum stigum verði bætt. Þessi áróður þarf að ná til allra sem meðhöndla fisk, í þeirri löngu rás frá því að hann er veiddur og þar til að hann hefur verið unninn. Áróður af þessu tagi getur verið í því fólginn að semja upplýsingarit eða gera spjöld til dreifingar um borð í fiskiskipum og á vinnslustöðum og ennfremur í því að ráðnir verði menn gagngert í því skyni að fara á milli skipa og vinnslustöðva til þess að benda mönnum á hluti sem betur mega fara o.s.frv. Nefndin telur ekki á þessu stigi rétt að gera nákvæmar tillögur um áróðursherferð fyrir bættum gæðum fisks, en hún er sammála um að slíka herferð þurfi að undirbúa og hleypa af stokkunum sem fyrst.“

Herra forseti. Þetta voru lokaatriði skýrslunnar sem fyrrv. hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson fékk á borðið til sín í maí 1981.

„Sem fyrst“, sagði nefndin, en ekkert hefur verið gert enn. Ég vil leggja á það áherslu, að ekki aðeins verði tekið tillit til niðurstöðu þessarar nefndar, heldur verði einnig farið út í að taka til meðferðar fleiri veiðar en togveiðar, því þar er svo sannarlega þörf á að á sé tekið og það fast. Ekki síst gildir það um netaveiðar. Veiðar í þorskanet geta gefið og gefa mjög góðan fisk, ef rétt er að staðið. Hins vegar hefur ekki verið betur staðið að þeim veiðum nú til langs tíma en svo, að aðeins innan við tveir þriðju af aflanum, sem kemur upp úr sjó, eru fyrsta flokks, og þegar mikið berst að landi fellur það hlutfall mikið. Þar hafa verið settar og reglugerðir, en því miður hefur reyndin orðið sú, að þær hafa verið brotnar af allt of mörgum og allt of oft. Á þessum hlutum þarf að sjálfsögðu að taka öllum saman. Og það er auðvitað ekki vanþörf á því eins og reynslan sýnir að setja ákveðnar reglur og hafa eftirlit og reka áróður fyrir því að farið sé betur með síld, humar og fleiri fiskitegundir.

Þau vandamál sem steðja að okkur og hafa steðjað að okkur í þessum málum verða ekki leyst með þessu frv. og ég efast um að það geri þar hið minnsta gagn. Ég tel að þessum málum sé þokkalega fyrir komið eins og er og allra síst ástæða til að setja upp fyrirbæri eins o það fiskmatsráð sem er helsta nýjungin í þessu stjfrv. Ég er ekki með því að segja að matsmálin í landinu séu í því ástandi að ekki megi um bæta, því fer víðs fjarri, þar á eru margir gallar sem við þekkjum sem höfum komið mikið nálægt sjávarútvegi. Þar er auðvitað við marga vankanta að eiga og ærin ástæða til að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig unnt er að laga stærstu misfellurnar í sambandi við mat á fiski og meðferð hans. Í mörg undanfarin ár hafa samt þeir aðilar sem hafa haft með fiskmat og eftirlit að gera í landinu margsinnis bent á nauðsyn þess að auka þessa starfsemi og bæta hána, en talað fyrir daufum eyrum og ekki fengið nægilegt fjármagn til að sinna þessum verkefnum sem skyldi. En sannleikurinn er sá, að ég tel að þeim peningum sé vel varið sem fara til þessara hluta því líklega skila engir peningar sér eins vel og þeir sem fara til að bæta meðferð sjávarafla. Þar og kannske aðeins þar er um virkilega fjármuni að ræða. Kannske er þetta eini staðurinn þar sem við eigum von á að finna mjög mikið fé, kannske svo milljörðum skiptir. Ef hver fiskur og hvert sjávardýr sem dregið er úr hafinu kemur til lands í fyrsta flokks ástandi og fær fyrsta flokks meðferð verður útflutningsverðmæti aflans miklu meira en er og hefur verið hjá okkur undanfarin ár. Ég er ekki að saka neinn einstakan aðila um það, en ég harma að menn skyldu ekki taka við sér fyrr, ekki síst með tilliti til þess að á þetta hefur verið bent margsinnis og á margar leiðir til þess að nálgast þetta markmið, en því hefur ekki verið sinnt. Það hefur verið eytt fjármunum í þessu þjóðfélagi í alla skapaða hluti, en því miður hefur þeim ekki verið eytt í að bæta meðferð afla á öllum sviðum.