23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil taka fram að þetta frv., sem hér hefur verið flutt, er niðurstaða af mjög löngu starfi sem hófst 1979, á meðan hv. þm. Kjartan Jóhannsson var sjútvrh. Það er með þetta frv. eins og margt annað, að jafnvel þótt skipt sé um ríkisstjórnir halda störfin áfram og áfram er haldið að vinna að málum. Þetta frv. er eitt dæmið um það. Það er niðurstaða af starfi þeirra manna sem best þekkja til á þessu sviði og hafa langa reynslu. Ég tel mikilvægt að mál séu skoðuð í ljósi reynslunnar og lögum og reglugerðum breytt og tekið mið af því sem gerst hefur áður.

Það hefur komið mjög skýrt hér fram að menn óttast að hagsmunasamtökin fái hér óeðlileg áhrif. Ég tel enga ástæðu til að óttast það. Þau hagsmunasamtök sem hér er um að ræða eru vinnslan, útgerðin og sjómenn. Og það er að sjálfsögðu alveg ljóst að ekki verður skipað í fiskmatsráð með öðrum hætti en að fulltrúar þessara aðila komi þar inn. Hitt er svo annað mál, að hagsmunasamtökin í sjávarútveginum eru mjög mörg og það getur reynst erfitt að telja þau upp lið fyrir lið og binda það, hvaða hagsmunasamtök skuli á hverjum tíma sitja í fiskmatsráði.

En það er eins og menn gleymi því oft að undirstaðan fyrir því að við fáum verðmæti úr okkar sjávarafla er ekki aðeins að fiskstofnarnir séu sterkir, heldur einnig að það séu góðir markaðir þar sem seld er gæðavara. Það er í reynd undirstaðan. Og það eru söluaðilarnir sem starfa á þessum markaði og þekkja kröfur neytendanna. Reynsla þeirra og þekking er hvað mikilvægust varðandi framleiðsluna. Síðan þarf að tryggja að allt annað starf, þ.e. veiðar og vinnslan, meðferðin í landinu, taki mið af þessum kröfum.

Reynslan er sú, að ekki er mögulegt að reka hér matstofnun án þess að hafa verulegt samstarf við þessa aðila. Sú hefur líka orðið reyndin á, að þeir sem starfa í freðfiskframleiðslu, bæði Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og SÍS, hafa sína eigin eftirlitsmenn sem eiga að tryggja að kröfur markaðarins séu uppfylltar. Það var einnig svo, að gert var ráð fyrir að Framleiðslueftirlit sjávarafurða væri nægilega sterkt til að framfylgja gæðakröfum í saltfiskframleiðslu. Nú er reyndin orðin sú, að Samband ísi. fiskframleiðenda hefur komið sér upp eigin eftirlitsmönnum sem hafa eftirlit með framleiðslunni til að tryggja að kröfur markaðsins séu uppfylltar. Það verður ekki gengið fram hjá þessu.

Það sem er aðalhlutverk opinberra aðila í þessu sambandi er að setja á vöruna gæðastimpil sem neytandinn getur treyst, þ.e. að neytandinn í viðkomandi landi geti treyst því að haft sé opinbert eftirlit í viðkomandi landi sem tryggi að um gæðavöru sé að ræða. Svo er í reynd um alla matvælaframleiðslu. En það er ekki þar með sagt að hið opinbera eftirlit þurfi að ná inn á hvert einasta stig og allt skuli vera undir opinberri forsjá. Það er ekki endanleg trygging þess að um bestu framleiðslu sé að tefla. Það er af og frá. Þess vegna er nauðsynlegt, og það er mjög ríkt í þessu frv., að efla ábyrgð framleiðenda, efla ábyrgð þeirra sem selja á markaði, þannig að þeir geti ekki beitt því fyrir sig að hið opinbera eftirlit hafi brugðist, eins og oft hefur viljað brenna við.

Fiskmatsráð, sem hér hefur einkum verið gagnrýnt, er sett upp til að tryggja tengslin milli hagsmunaaðilanna og hins opinbera. Mér kemur mjög á óvart að heyra að menn telja að það sé óeðlilegt og hættulegt að slík tengsl séu fyrir hendi. Hvernig er hægt að koma á gæðaframleiðslu í landinu án þess að eiga um það samvinnu og tengsl við s ómenn, útgerðarmenn og þá sem selja á mörkuðum? Ég hefði einmitt haldið að það væri nauðsynlegt að menn vildu leggja ríka áherslu á það.

Það hefur verið mjög þýðingarmikið upp á síðkastið að hafa starfandi fiskmatsráð, jafnvel þótt það ætti sér ekki ákveðna stoð í lögum. Þar eru fulltrúar frá vinnsluaðilum, frá útgerðarmönnum og frá sjómönnum. Starfsemi þessara manna hefur verið mjög mikilvæg og það eru mjög margir aðilar að vinna að endurskoðun á reglugerðum og betri framkvæmd mála.

Ég tek undir það með hv. þm. Karvel Pálmasyni, að auðvitað skiptir framkvæmdin hér mestu máli. Við tryggjum þetta ekki eingöngu með lögum og reglugerðum. Það verður ekki framleidd hér hæsta gæðavara eingöngu með því að setja lög og reglugerðir. Hins vegar geta þessar reglur verið mjög mikilvægar til stuðnings og eftirlits, þannig að hér sé sem best aðhald.

Ég ætla ekki hér að fara að gera gæðamálin í heild að umtalsefni. Hér er aðeins um þátt þeirra að ræða. Hér er ekkert fjallað um veiðarnar eða vinnsluna sem slíka. Hér er fyrst og fremst rætt um eftirlitið. Ég er þeirrar skoðunar, að sú breyting sem hér er lögð til sé mjög til bóta og gerð í ljósi reynslunnar. Ég held að ég megi fullyrða að það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði áðan, og vitnaði hann þá í reynstu Norðmanna og Kanadamanna, sé ekki alls kostar rétt eða það sem kom fram í þeirri grein sem hann vitnaði í. En við höfum reynt að kynna okkur sem best framkvæmd mála hjá nágrannaþjóðunum og maður á vegum ríkisins hefur að undanförnu lagt sérstaka rækt við að kynnast þessum málum sem best. Hins vegar ber að geta þess, að t.d. í Noregi eru mun fleiri aðilar í útflutningsstarfsemi en hér á landi. Hér eru tiltölulega fáir aðilar t.d. í freðfiski. Þannig er skipulag hér nokkuð með öðrum hætti en hjá þeim.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að gera þetta mál að lengra umtalsefni nú. Ég vænti þess að hv. n. kynni sér mál þetta sem best. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að hún fái allar upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar til að kynna sér mál þetta. Það liggur mjög mikil vinna hér að baki og mikið lesefni og margir hafa hér komið að verki.

En ég vil vara við því, eins og hér hefur komið fram í máli manna, að þetta frv. leysi ekkert, það sé ekki til nokkurs gagns. Ég vil ekki á nokkurn hátt fullyrða að þetta frv. leysi öll okkar vandamál. Það er ekki ætlunin. Þetta er aðeins eitt af þeim skrefum sem við þurfum að stíga. En ef öllu er tekið þannig að engu megi breyta og ekkert megi gera er ekki von á góðu.

Mér heyrðist helst á hv. þm. Garðari Sigurðssyni að þetta gerði ekkert gagn og væri til einskis. Ég vil biðja hv. þm. að skoða mál þetta betur, því að ég veit að hann vill gera það sem réttast er í þessum efnum. Það er þá náttúrlega nauðsynlegt fyrir hann og aðra nm. að ræða við þá aðila sem hafa unnið að undirbúningi þessa máls.