23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mikið hljótum við venjulegir þm. að öfunda Alþb. af þessum liðsauka sem það hefur fengið hér í þingsali, þessum hv. þm. sem veit meira en allir aðrir um alla hluti og talar í hverju máli.. Ég þekki að vísu hv. þm. því að hann leitaði sér um árabil frama innan Framsfl. og fékk hann ekki og fór sem betur fer. En ég vil ráðleggja hv. þm. að láta hv. þm. Garðar Sigurðsson fjalla um þetta mál. Hann talar af miklu viti og þekkingu um málið, en ég heyrði hvergi brydda á því í langri ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. (Gripið fram í: Þú hafðir búist við því.) Nei, ég bjóst ekki við því, það er alveg rétt. Ég varð fyrir engum vonbrigðum, langt frá því.

Ég get skýrt frá því að þessar tillögur sem hann hefur gert hér sérstaklega að umræðuefni og nefndar eru „Skýrsla nefndar um bætt gæði afla togskipa“ eru vandlega og ítarlega yfirfarnar og ræddar við menn sem hafa mikla þekkingu á þessum málum. Það er ekki rétt að samstaða hafi verið um allar tillögurnar. Um mikilvægustu tillöguna e.t.v. eða hina róttækustu var ekki samstaða, fyrstu tillöguna. Á bls. 2 segir: „Meiri hluti nefndarmanna er þeirrar skoðunar“ o.s.frv. Og þar segir einnig: „Nefndarmenn gera sér grein fyrir því að erfitt er að setja ákveðnar reglur um togtíma og sérstaklega að hafa eftirlit með því að eftir þeim sé farið.“

Staðreyndin er sú að við nána og ítarlega athugun með þeim mönnum sem gerst þekkja framkvæmd á hinum ýmsu reglugerðum, sem gilda fyrir Framleiðslueftirlit ríkisins, varð niðurstaðan sú að nauðsynlegt væri að taka reglugerðirnar allar til meðferðar og endurskoða þær í heild sinni. Það væru miklu fleiri atriði en þau sem hér er bent á sem þyrfti að breyta. Að því starfa nú hinir færustu menn í nefnd undir forsæti Sigurðar Haraldssonar, skólastjóra Fiskvinnsluskólans, og ég er sannfærður um að þeir gera þetta af mikilli þekkingu og samviskusemi.

Það var einnig niðurstaða fiskmatsráðs, sem fékk þessa skýrslu strax til meðferðar, að þótt margt væri í henni mjög athyglisvert þá væri eðlilegt og æskilegt að skýrslan fengi meðferð með þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til og þetta yrði tekið fyrir í heilu lagi en ekki smám saman og í kubbum, eins og hv. þm. orðaði það hér áðan.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þessi mál. Ég held að hv. þm. hafi nú nánast talað sig dauðan hér áðan. Óþarfi er að fara um það mörgum orðum. En ég bið menn að hugleiða það: Hvers vegna heldur hv. þm. af slíku ofstæki verndarhendi yfir núverandi Framleiðslueftirliti ríkisins?