23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Þetta er nú búin að vera verulega fróðleg umræða og um ýmislegt eru menn sammála. Menn eru sammála um að málið er snúið og málið er flókið og í mörg horn er að líta og við erum að tala hérna um allskyns veiðar og allskyns vinnslu. En ég held að ég geti ekki orða bundist um þá skoðun mína að það er gjörsamlega ómögulegt að setja um þetta allt saman reglur. Menn eru að tala um að setja reglur um togtíma, það eru reglur um möskvastærð og kassastærð og kassadýpt væntanlega og svo fara menn að setja reglur um stærð ísmola, hitastig ísmola og lögun ísmola, ég held að þetta geti aldrei náð tilgangi sínum.

Það var í sjónvarpsfréttum í kvöld skýrt frá því að núna væru innan 200 mílna lögsögu hátt á þriðja hundrað tegundir fiska og þá eru ótaldir allir hryggleysingjarnir. Ég held að við kæmumst aldrei fyrir þetta. Þetta yrði að koma upp eins og hálfgerðu gjörgæslueftirliti þar sem hverri síld eða hverjum fiski væri fylgt frá vöggu til grafar. Ég held að menn ættu að taka eftir orðum þess sem mesta reynsluna hefur í þessum málum í þessum sal, hv. þm. Björns Dagbjartssonar. Fyrr en seinna kemur að því að sölukerfi og verðlagning þessara afurða færist til frjálslegri hátta. Þá ræðst verðlagning af gæðum og slysin hitta veikasta punktinn sem er pyngjan. Og þannig lítur kerfið eftir sér sjálft, kaupendur og seljendur á öllum framleiðslustigum munu gera sjálfir út um hlutina. Ríkisvaldið getur látið sér nægja að setja almennar reglur um hreinlæti og vöruvöndun og þá gæti ríkismatið sem verið er að fjalla um núna verið nokkurs konar áfrýjunardómstóll. Þetta hlýtur að vera það sem við stefnum að og þetta ríkismat sem verið er að fjalla um hér í dag er stofnun sem ekki verður til margra ára.