04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

145. mál, útboð Vegagerðar ríkisins

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Við þessari fsp. er því til að svara að það fer allt eftir samningum hverju sinni, hvernig þeir samningar eru. Það fer m.a. eftir tímalengd þess verkefnis sem um er að ræða. Þegar verkefni eru unnin á tiltölulega löngum tíma eða í mikilli verðbólgu, þá eru yfirleitt greiddar verðbætur á öll verkefni, á alla verktakastarfsemi, ekki eingöngu í þessum málaflokki heldur í öllum öðrum.

Út af því sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan og þeirri ályktun sem hann las upp vil ég segja að ég held að það sé ákaflega rangt að bjóða ekki líka út minni verk. Það er mjög þægilegt einmitt eftir því sem verkin eru minni. Eftir því sem verkin eru minni eru meiri möguleikar fyrir það fólk sem á tæki og má kalla litla verktaka að bjóða í verkefni. En að setja einhver ákveðin landamæri um útboð held ég að sé afar vafasamt að gera, að ekki sé meira sagt.

Um tiltekið verkefni hefur verið beitt svæðaútboðum hjá Vegagerðinni. Þau svæðaútboð hafa verið í mörgum tilfellum mjög gagnrýnd og þar hef ég hug á að gera breytingu á þannig að einhverjum ákveðnum útvöldum verði ekki boðið að bjóða í verk á tilteknu svæði, heldur verði öllum þeim sem stunda slíka atvinnu gert jafnt undir höfði að bjóða í þau verkefni. Þetta hef ég rætt við vegagerðarmenn um. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni.