05.12.1984
Neðri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna orða hæstv. ráðh. vil ég benda á að það er öllum kunnugt, sem fylgst hafa með heilbrigðismálum, í höfuðborginni a.m.k., að þar hefur verið mikill ágreiningur um þessi mál, það verður að segjast eins og er. Þegar núverandi borgarstjórn tók við stjórn borgarinnar hafði verið unnið mikið starf og skipulagt að uppbyggingu heilsugæslustöðva. Þegar kosningabarátta hófst við síðustu borgarstjórnarkosningar var eitt af höfuðbaráttumálum núverandi formanns heilbrigðisráðs, Katrínar Fjeldsted borgarfulltrúa og læknis, uppbygging heilsugæslustöðva og hennar skoðanir fóru mjög saman við það sem þegar hafði verið unnið. Það er hins vegar öllum ljóst að núverandi borgarstjóri hefur kúgað hana til að fara meira og minna ofan af skoðunum sínum á þessu máli, eða a.m.k. hefur hennar aðgerðum verið haldið niðri. Nú hefur hæstv. borgarstjóri fengið ráðh. til liðs við sig sem bókstaflega gefur honum gálgafrest til að sitja á þessum málum um eins árs skeið með lögum. Ég harðneita að taka þátt í þessari tegund löggjafar.