05.12.1984
Efri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

188. mál, barnabótaauki

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Mál það sem hér um ræðir hefur verið keyrt nokkuð hratt í gegnum þessa d., enda sjálfsagt brýnt mál og í ljósi síðustu þróunar í afkomumálum Íslendinga sjálfsagt orðið brýnna en ella. Sú fyrir fram jólagjöf sem landsmenn fengu að heyra að þeir ættu í vændum sem er veruleg hækkun á vöxtum, hún á sjálfsagt eftir að slétta út þá litlu bót sem af þessum aðgerðum er.

Barnabótaaukinn er framlenging á mildandi aðgerðum ríkisstj. frá því fyrr á þessu ári. Eins og segir í aths. með frv., hafa þær upphæðir sem þar voru tilgreindar verið hækkaðar einfaldlega um 25% sem er í samræmi við áætlun Þjóðhagsstofnunar um hækkun tekna hvers gjaldanda milli áranna 1984 og 1985. Ég spurði að því við 1. umr. hvernig þessar tölur væru fengnar. Það var kannske ekki furða þótt hæstv. fjmrh. hefði ekki svör á reiðum höndum, því tölurnar eru komnar úr þeirri áttinni sem hann sjálfsagt átti síst von á, en það var upplýst á fundi hv. fjh.- og viðskn. að þessar tölur eru komnar frá þeim aðila sem almennt er kallaður „aðilar vinnumarkaðarins“. Þessar tölur eru í raun og veru tölur sem lagðar voru fram af verkalýðsfélögum og farið fram á sem viðmiðunarmörk við úthlutun þessara barnabóta. Ríkisstj. er að því leyti saklaus í þessu máli að hún gerði ekkert annað en að taka þær viðmiðunartölur sem verkalýðsfélögin lögðu fram og nota þær í sínu frv., þar á ég við skerðingarmörk barnabótaaukans. Ég verð að viðurkenna að að þessu leyti tel ég nokkuð illa staðið að þessu máli af hálfu verkalýðsfélaganna að hafa ekki fylgst með framhaldi þess, því núna eru þessar tölur hækkaðar um 25%. Það á verkalýðsforustan að vita manna best að sú upphæð sem ætluð var sem barnabótaauki í fyrra og úthlutað var með þeim skerðingarmörkum sem þá var lagt til af hálfu verkalýðsfélaganna. sú upphæð dugði hvergi nærri. Þess vegna er ekki eðlilegt að hækka þessa upphæð bara einfaldlega um 25%. Það verður að skoða hana í ljósi þeirra aðstæðna sem eru ríkjandi og það tel ég líka að ríkisstj. hefði átt að gera. Hún ætti líka manna best að átta sig á því að þessar mildandi aðgerðir og þessir peningar sem var úthlutað dugðu ekki. Þess vegna hef ég lagt til að þessi skerðingarmörk verði færð ofar. Ég geri það í þeirri trú að menn átti sig á þeirri einföldu staðreynd að það er óeðlilegt að miða skerðingarmörk barnabótaaukans til einstæðra foreldra við lágmarkstekjur, sem raunverulega eru ekki lengur laun eða tekjur í sjálfu sér, þær eru minni en fólk þarf sér til framfærslu. Á þeim mörkum byrjar þessi barnabótaauki að skerðast. Eðlilegra hefði verið að setja þessi mörk ofar, færa þau nær raunhæfum aðstæðum, eitthvað nær þeim a.m.k. því eins og sagt hefur verið, 15 þús. kr. í dag eru í raun og veru ekki laun. Það eru lág laun í dag þegar einstaklingar verða að sætta sig við um 25 þús. kr. á mánuði. Einstaklingar eiga fullt í fangi með að framfleyta sér og sínum á slíkum launum og það vita allir sem hér eru inni. Þess vegna hef ég lagt til að þessi skerðingarmörk verði hækkuð hvað samanlagða útfærslu hjóna snertir upp í 30 þús. kr. á mánuði eða 360 þús. kr. á ári og falli síðan út við 500 þús. kr. árstekjur. Einnig hef ég lagt til að skerðingarmörkin verði hækkuð hvað einstaklinga áhrærir með börn á framfæri í 240 þús. kr., þ.e. í 20 þús. kr. mörkin hvað mánaðarlaun snertir, og falli síðan út við 400 þús. kr.

Þetta eru þær brtt. sem ég hef lagt fram við 2. gr. frv. eða 2. mgr. hennar. Ég sá ekki ástæðu til að leggja fram brtt. við 3. gr. frv. því að ég tel að fólk sem á annað borð hefur efni á að standa undir eignum sem þarna eru nefndar hafi þá trúlega efni á að hafa börn á sínu framfæri. En það verður að segjast að eftir nýjustu aðgerðir bankanna í bankamálum getur maður aftur farið að efast um að þetta eigi rétt á sér og hvort ekki sé ástæða til að breyta þessum tölum.

Menn eru að spyrja sig að því hvaða nýjustu aðgerðir bankanna sem ég er að tala um séu. En það er búið að tilkynna að við eigum von á 5% hækkun vaxta á allra næstu dögum.