05.12.1984
Efri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

188. mál, barnabótaauki

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Sem stimplaður falangisti get ég ekki annað en leyft mér að taka hér aðeins til máls. Það eina sem ég nefndi og hægt var að skoða sem gagnrýni á verkalýðshreyfinguna var að þeir gátu átt von á því að sá pakki sem þeir sömdu um fyrr á þessu ári yrði bundinn aftur. Mér finnst furðulegt að þeir skyldu ekki hafa kíkt í innihald hans núna fyrir jólin. (KSG: Við gerðum það.) Hv. 6. landsk. þm. þarf ekki að láta sem hann sé yfir gagnrýni hafinn þessum sölum og það séu tómir falangistar sem gagnrýna verkalýðshreyfinguna.

Ég gæti spurt hann bara þeirrar einföldu samviskuspurningar: Hvernig í ósköpunum gátu menn fengið það af sér að setjast niður og skrifa undir samninga, segjandi samtímis út um annað munnvikið, því miður eru engin kauptryggingarákvæði í þessum samningum, þar með eru þeir ónýtir, vitandi það að ríkisstj. mundi hirða þessa samninga af þeim vikunni seinna með gengisfellingu? Þetta er ekki bara spurning sem ég spyr. Þetta er spurning sem fólk spyr sig sem á umboð sitt undir þessum mönnum. Að það megi ekki gagnrýna verk sem þessi, þeirri fullyrðingu get ég ekki tekið og þaðan af síður látið það á mér sitja að þeir menn sem gagnrýna slík vinnubrögð séu falangistar. Víst hef ég ekki talið mér það skylt að taka ábyrgð af störfum verkalýðshreyfingarinnar. Hv. 6. landsk. þm. hefur sóst eftir þeirri ábyrgð. Ef hann hefur sóst eftir henni hlýtur hann líka að geta staðið og svarað fyrir þá hluti sem hann ber ábyrgð á.