11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Páll Pétursson:

Herra forseti. Í sporum síðasta ræðumanns, hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, mundi ég nú reyna að gleyma iðnþróunarafskiptum hans og orkumála af Norðlendingum.

Mér fannst það vondur leiðari sem hv. þm. Eiður Guðnason las hér upp eftir Jónas Dagblaðsritstjóra og held að hv. þm. ætti fremur að lesa úr eigin verkum því hann kemst miklu betur og skynsamlegar að orði en gert var í því lesi sem hann fór með áðan.

Auðvitað er ekki nein allsherjarlausn á atvinnumálum í Eyjafirði að reisa þar álver og það getur m.a. s. staðið í vegi fyrir eðlilegri iðnþróun þegar menn fara að einblína á einhver stórvirki og ímynda sér að þau geri þá sáluhólpna. Auk þess eru ekki góðar horfur á því að sú verksmiðja sem þarna yrði hugsanlega reist gæti borgað framleiðslukostnaðarverð fyrir þá raforku sem hún þyrfti að nota og ég vara eindregið við því að við förum að borga niður raforkuverð til fleiri stóriðjuvera.

Það hefur verið rætt hér mjög um mengunarþáttinn. Það er sjálfsagt að vanda til mengunarrannsókna áður en að byrjað er að huga að svona verkefnum og betur að það hefði verið gert í tíma á Reyðarfirði, en mér finnst að hinn félagslegi þáttur megi ekki gleymast heldur og hann er í mínum huga miklu gildari en mengunarþátturinn þó að ég vilji ekki gera hann grannan. Það er nefnilega útilokað að setja fyrirtæki eins og álver niður í Eyjafirði nema með sæmilegu samkomulagi við það fólk sem býr næst fyrirtækinu, jafnvel þó að einhverjir sem fjær því búa gætu séð sér hag í því að það yrði reist.