17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni fékk iðnn. til fundar við sig Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóra og þar kom fram að raforka mun hækka nú um áramótin um 22%, þannig að mér sýnist að sú lækkun sem hér er tilgreind í frv. um 3%.hafi lítið að segja til lækkunar á rafmagnsverði til almennings. Niðurstaðan er sú að rafmagn mun þrátt fyrir þetta hækka um 20% frá áramótum.

Ég hef leyft mér að bera fram nokkrar brtt. við þetta frv., brtt. sem reyndar voru mótaðar af nefnd sem ráðh. skipaði með bréfi dags. 27. jan. á þessu ári, nefnd sem hélt 16 bókaða fundi og skilaði ítarlegu áliti sem tilgreint er í þessu frv. Í niðurstöðum nefndarinnar segir:

„Niðurstaða nefndarinnar er sú að verðjöfnunargjaldið skuli afnumið. Nefndin telur þó ekki unnt að gera það að fullu um næstu áramót, en tillaga hennar er sú að gjaldið verði afnumið í áföngum. Er því lagt til að gjaldið, sem nú er 19% verði 10% árið 1985 og 1986, 5% árin 1987 og 1988, en falli síðan niður.

Auk þessarar megintillögu er lagt til að sala raforku til allrar rafhitunar (ekki einungis húshitunar eins og nú er) verði undanþegin verðjöfnunargjaldi að fullu frá og með 1. jan. 1985. Sama tillaga er gerð um sölu raforku til dælingar hitaveitna á heitu vatni, til skipa í höfnum og til varmadæla. Ætla má að greitt verðjöfnunargjald af þessari tölu sé nú um 20 millj. kr.

Þótt vitað sé að prósentuálagning verðjöfnunargjalds sé að því leyti óskynsamleg að hún leggst þyngst á það verð sem hæst er fyrir þykir ekki ástæða til að breyta álagningaraðferðinni nú þar eð verðjöfnunargjaldið fellur niður að tiltölulega skömmum tíma liðnum ef farið verður að tillögum nefndarinnar, enda fylgja slíkri breytingu ýmis tæknileg vandkvæði.

Til að mæta þeim tekjumissi Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða sem í niðurfellingu verðjöfnunargjaldsins felst eru eftirfarandi tillögur gerðar:

1. Þar eð tekjur af raforkusölu til hitunar standa ekki undir kostnaði verði veitunum bættur mismunurinn með kostnaðarþátttöku ríkissjóðs.

2. Ríkissjóður aðstoði fyrirtækin að öðru leyti með tvennum hætti:

a) Félagslegur þáttur framkvæmda, sbr. skilgreiningu í fskj. 2 d, verði árlega að fullu greiddur úr ríkissjóði.

b) Ríkissjóður yfirtaki 1. jan. 1985 20% áhvílandi lána Rafmagnsveitna ríkisins og 7.5% áhvílandi lána Orkubús Vestfjarða. Þeim hluta lána, sem eftir standa hjá fyrirtækjunum, verði breytt í jafngreiðslulán til 10 ára með raunvöxtum eigi hærri en 8% árin 1985–1987 og 6% árin 1988–1993.

Enn fremur er gert ráð fyrir nokkurri taxtahækkun hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða til samræmis við verðlag á raforku hjá öðrum rafveitum, eins og nánar er gerð grein fyrir hér á eftir.

Sérstaklega ber þó að geta þess að þótt tillögur séu gerðar um nokkra taxtabreytingu hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða verður ekki um hækkun orkuverðs til notenda að ræða á árinu 1985, raunar um nokkra lækkun hjá Orkubúi Vestfjarða þegar tekið er tillit til lækkunar verðjöfnunargjalds um 10%.

Með þessum aðgerðum, sem nefndin telur framkvæmanlegar, er þó ekki gengið lengra en svo á þessu stigi að meðalverð Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða á annarri raforku en til húshitunar verður því sem næst vegið meðaltal 15 rafveitna sveitarfélaga.

Skýringar á því að hlutverk Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða og afkoma þessara fyrirtækja gerir kröfu til sérstakra aðgerða af hálfu ríkisins eru raktar hér á eftir. Ítarlegir útreikningar hafa verið gerðir til að leiða líkur að því að afkoma fyrirtækjanna verði viðunandi ef farið verður að tillögum nefndarinnar.

Í þessu sambandi ber að hafa í huga að verðjöfnunargjaldið hefur farið til þess að mæta þeim vandkvæðum sem eru á rekstrarafkomu þessara fyrirtækja.

1. Stefna ríkisvaldsins í húshitunarmálum hefur leitt til þess að verulegt tap er á orkusölu til húshitunar hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða.

2. Meðalverði á annarri raforkusölu en til húshitunar hefur verið haldið tiltölulega lágu hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Hefur m.a. sætt gagnrýni að orkuverð þessara veitna til notenda er lægra en hjá flestum sveitarfélagarafveitum. Þennan mun verður að jafna. Í afkomuáætlunum nefndarinnar er þó gengið tiltölulega skammt í þeim efnum.

3. Tekjur af framkvæmdum við stofnlínur og aðveitustöðvar, sem Alþingi hefur samþykkt, hafa ekki staðið undir kostnaði. Því er talin ástæða til að ríkissjóður standi straum af óarðbærum hluta þessara framkvæmda.

4. Stefna ríkisvaldsins hefur verið sú, að Rafmagnsveitur ríkisins hafa á undanförnum árum ekki fengið að leita hagkvæmustu lána til framkvæmda og eigin fjármögnun hefur verið lítil sem engin.“

Í áliti nefndarinnar, sem er mun ítarlegra en ég mun tilgreina hér, er rökstutt frekar hvernig þessar leiðir eru hugsaðar, en í lokaorðum segir:

„Raforkuverð til notenda hér á landi er orðið tiltölulega hátt, m.a. í samanburði við verð í grannlöndum. Heildsöluverðið er sömuleiðis orðið hátt. Hlutfall gjalda vegna orkukaupa og tekna af raforkusölu er hjá flestum rafveitum á bilinu 60–70%. En verulegur þáttur í hinu háa orkuverði er skattlagning sem er hærri hér en víðast annars staðar. Afnám verðjöfnunargjalds er því liður í þeirri viðleitni að lækka raforkuverð í landinu.

Verðjöfnunargjald af raforku hefur jafnan verið umdeilt, allt frá því að það var fyrst lagt á með lögum nr. 96/1965...

Þróun raforkuverðs hefur orðið sú á síðustu árum að mjög margar af rafveitum sveitarfélaga hafa orðið að selja raforku við hærra verði en þær veitur er verðjöfnunargjaldsins njóta, þ.e. Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Ljóst er því að gjaldið er orðið mjög óréttlátt. Því hefur nú þótt tímabært að endurskoða gildandi lög um gjald þetta.

Orkusala skv. sömu gjaldskrá frá öllum afhendingarstöðum í stofnlínukerfi Landsvirkjunar felur að sjálfsögðu í sér mikla verðjöfnun raforku um landið.

Fjárhagsaðgerðir ríkisins nú til að auðvelda niðurfellingu verðjöfnunargjaldsins eru m.a. studdar eftirtöldum rökum:

Stjórnvöld hafa ekki heimilað fyrirtækinu raunhæfa verðlagningu á orku. Þau hafa ákveðið hröðun ýmissa framkvæmda umfram áætlanir fyrirtækjanna. Þau hafa aðeins að hluta greitt sannanlega óarðbærar aðveituframkvæmdir (félagslegan þátt). Þau hafa ekki heimilað Rafmagnsveitum ríkisins að leita hagkvæmustu lána á erlendum lánamarkaði. Verðjöfnunargjaldið hefur verið mikilvægur tekjustofn fyrir Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Það stuðlaði því í upphafi að minni verðmun en ella. Á síðari árum hefur það hins vegar ekki leitt til þeirrar verðjöfnunar sem að var stefnt. Hið nýja misræmi í raforkuverði hinna ýmsu rafveitna í landinu telur nefndin nauðsynlegt að leiðrétta svo sem kostur er.

Nefndin telur því að ríkinu beri skylda til að greiða fyrir afnámi gjaldsins með aðgerðum þeim sem lýst er í grg. þessari og meðfylgjandi frv. til laga.“

Undir þetta nál. rita Birgir Ísl. Gunnarsson alþm., sem er formaður nefndarinnar, Kjartan Jóhannsson alþm., Stefán Guðmundsson alþm., Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri og Aðalsteinn Guðjohnsen rafmagnsstjóri.

Ég hef tekið þessa tillögu nefndarinnar upp hér sem brtt. við það frv. sem hér liggur fyrir. Það er rétt hjá hv. 4. þm. Vestf. að óþarfi hefði verið að hafa það frv. sem hér liggur fyrir frá hendi rn., svo margoft sem það kemur fram, þegar eingöngu er um að ræða framlengingu á þessu gjaldi með lítilli 3% lækkun.

Ég legg áherslu á að rn. hefur ekki treyst sér til að fylgja tillögum nefndarinnar, tillögum sem að mínu mati eru mun skynsamlegri en þær tillögur sem rn. lét frá sér fara og er meira í takt við þær yfirlýsingar, sem hæstv. ráðh. hefur látið frá sér fara að undanförnu, að leggja beri verðjöfnunargjaldið niður. Ég vænti þess að hv. þm. skoði þessar tillögur vel og sjái að með samþykkt þeirra er farið í réttan farveg. Ég minni á að þegar verðjöfnunargjaldið var sett á á sínum tíma barðist Sjálfstfl. með kjafti og klóm á móti þessu gjaldi og trúi ég ekki öðru en ég fái þá til fylgis við mig við að afnema það hér. Ég tel að almenningur á Íslandi verði undrandi á þeirri ráðstöfun að samþykkja hér smánarlækkun á verðjöfnunargjaldi, en jafnframt liggur það ljóst fyrir að rafmagn mun ekki lækka. Það mun hækka um 22% þegar um áramótin sem verður eins og köld gusa framan í orkukaupendur.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri nú, en vænti þess að hv. þdm. sjái að starf nefndarinnar, sem fjallaði um þetta, hafi verið af hinu góða og stefni í rétta átt.