17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað dálítið sérkennileg túlkun á orðum mínum hér áðan að ég hafi verið að lýsa yfir stuðningi við brtt. hv. 6. landsk. þm. eins og þær liggja nú fyrir við það frv. sem ég er flm. að. (RA: Ég lýsti stefnu.) Já, rétt er það, en auðvitað held ég fast við það frv. sem samkomulag hefur orðið um og hér er flutt. Ég tók fram að ég hefði fellt mig við stefnumótun sem stjórnskipaða nefndin mótaði og flutti í frv.-formi, en samkomulag hefur orðið um annað og það er sú niðurstaða sem liggur hér fyrir til afgreiðslu.

Vegna samþykktar þess frv. liggur ljóst fyrir að sú fjármálalega gáta er ráðin með skuldbreytingu þar sem það hefur verið samið um frestun afborgana á lánum sem hafa horfið til Rafmagnsveitnanna og Orkubús Vestfjarða, í 5 ár. En þetta er auðvitað stórmál að ráða fram úr og ég vil ekki fullyrða nú og hér að það þurfi ekki að grípa til einhvers konar annarrar tekjuöflunar. Ekki vil ég fullyrða það. En okkur gafst ekki tími til að vinna málið nægilega vel. Niður verður sest við það nú væntanlega fljótlega upp úr áramótum. En það er stefna mín að þessar aðgerðir um að fella niður verðjöfnunargjaldið muni ekki verða til þess sérstaklega að hækka orkuverð á landsbyggðinni. Það vil ég að komi alveg skýrt fram vegna þess að sá er ekki tilgangurinn með því að fella niður þetta ósanngjarna gjald, sem verðjöfnunargjald á raforku er, þar sem menn borga langhæst að sjálfsögðu sem hæsta orkuverðið greiða. Árum saman, allar götur frá 1974 trúi ég, hafa menn ekki treyst sér til að biðja um framlengingu á þessu gjaldi nema ár í senn, af því að fulltrúar allra flokka hafa lýst yfir andstöðu við þessa aðferð við skattlagningu og það hefur verið siðurinn sá ævinlega, svo langt aftur sem ég hef kynnt mér málin, að bera þessi frv. fram á allra síðustu dögum fyrir þinghlé eða jólahlé, þannig að menn ættu engra annarra kosta völ en að húrra því áfram af því sem þarna væri um stórkostlega fjármuni að tefla sem ríkissjóður gæti ekki séð af, ef ætti að halda fram þeirri stefnu, sem menn hafa verið sammála um, að jafna orkuverðið í landinu. Sú stefna er enn þá uppi. Okkur hefur ekki tekist að ná nægilega langt í því, en verulegum árangri hefur verið náð. En það þarf að gera með öðrum hætti en því að beita til þess þessari aðferð um skattlagningu.