17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

192. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt að ég taldi að hér þyrftu að koma inn í fjárlagafrv. 30 millj. kr. og það er líka rétt að ég taldi að eðlilegt væri að svipuð fjárhæð rynni til B-álmu Borgarspítalans og varð á þessu ári. Þær 14 millj., sem komu fram í brtt. fjvn., koma fram þrátt fyrir að ég hafði lagt þetta til. En hverju breytir að fresta afgreiðslu frv. til miðvikudags? Við vitum ekki hvernig deildafundum verður háttað. Hér er um 2. umr. að ræða núna. Í þessu er sjálfur nefskatturinn og ef frv. ekki nær fram að ganga hækkar hann ekki og þá verður enn minna fé til ráðstöfunar en hefur verið á þessu ári.

Við skulum segja að þó að nefskatturinn hækki og frv. fari ekki fram að öðru leyti breytir það ekki því að ríkissjóður átti að leggja þessum sjóði til sitt framlag. Þetta er eiginlega sama og ég benti á þegar þessi breyting var gerð á þessum lögum og lögum um heilbrigðisþjónustu, að mér litist ekki á að vera að færa þessi verkefni inn í þennan sjóð. En það er sjáanlegt með þessu að búið er að binda 30% í þessu verkefni á þessu ári, ef frv. fer fram, því að ólíklegt verður að teljast að sundurliðaðir liðir verði teknir aftur upp í 3. umr. Ég held að það séu fá dæmi þess og það er meira en ég sé óánægður með það. Ég er líka óánægður með að það eru fleiri aðilar þarna inni en ég taldi að ættu að vera.