17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

192. mál, málefni aldraðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Eins og ég hef áður getið um óskaði ég eftir að fyrir lægi að samanlögð framlög Framkvæmdasjóðs og ríkisins til málefna aldraðra minnkuðu ekki að raungildi frá því sem verið hefur á þessu ári. Þar sem brtt. frá fjvn. eru varla væntanlegar fyrr en í fyrsta lagi á morgun eða jafnvel miðvikudag tel ég ekki óeðlilegt að fara fram á að þessari lokaafgreiðslu málsins héðan úr Nd. verði frestað. Ég held að það geti ekki á nokkurn hátt tafið það að málið verði afgreitt nú fyrir þinghlé. Ég óska þess vegna eftir því að atkvgr. um málið fari ekki fram nú, heldur á miðvikudag þegar fyrir liggur hversu mikið er á fjárlögum til þessara mála. Til glöggvunar fyrir þá sem ekki sátu hér í salnum í dag, þá kom fram að áætlaðar eru 14 millj., en hæstv. heilbrrh. sagði að þessi tala þyrfti í raun og veru að vera 30 millj. Um það erum við alveg sammála. Og í öllu falli þarf þessi upphæð að hækka verulega til þess að samanlögð framlög til þessara mála haldi raungildi. Þess vegna óska ég eftir því að þetta mál verði látið bíða þar til breytingar frá fjvn. liggja fyrir. (Forseti: Forseti verður við þessari ósk þm. Málinu er frestað þar til á miðvikudag.)