17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Við afgreiðslu frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku á Alþingi 14. des. s.l. ár gaf ég þá yfirlýsingu að ég mundi beita mér fyrir lækkun gjaldsins í áföngum eða niðurfellingu þess, enda yrði séð fyrir fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða með öðrum hætti. Í samræmi við þessa yfirlýsingu skipaði ég með bréfi 27. jan. 1984 nefnd til að endurskoða verðjöfnunargjald af raforku. Í nefndina voru skipaðir eftirtaldir menn: Birgir Ísl. Gunnarsson, Kjartan Jóhannsson, Stefán Guðmundsson, allt alþm., Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri ríkisins og Aðalsteinn Guðjohnsen, rafmagnsstjóri og formaður Sambands ísl. rafveitna.

Álit nefndarinnar, sem dags. er í Reykjavík 23. nóv. 1984, er fskj. með frv. þessu. Eins og fram kemur í nál. leggur nefndin til að gjaldið lækki í áföngum og falli niður 31. des. 1988 og að samhliða því verði lögfestar aðgerðir til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Ekki náðist samstaða nú um þær leiðir sem nefndin lagði til og settar eru fram í frv. því til l. um verðjöfnunargjald af raforkusölu sem nefndin hefur samið og er fskj. með nál.

Með frv. þessu er lagt til að lögfest verði innheimta verðjöfnunargjalds af raforkusölu árið 1985. Upphæð gjaldsins, sem verið hefur 19%, verði lækkuð í 16% og verði tekjum af gjaldinu skipt á sama hátt og verið hefur milli Rafmagnsveitna ríkisins, sem fá 80%, og Orkubús Vestfjarða sem fær 20%. Gert er ráð fyrir að þessi tilhögun gildi aðeins eitt ár og að lögin falli sjálfkrafa úr gildi 31. des. 1985. Frv. þetta ber því að skoða sem 1. áfanga þess að verðjöfnunargjald af raforkusölu verði fellt niður.

Frv. felur í sér það nýmæli að auk lækkunar verðjöfnunargjaldsins úr 19% í 16% skal nú greiða beint til Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða í stað þess að gjaldið fór áður í gegnum Orkusjóð. Þá eru felld úr lögum um verðjöfnunargjald af raforkusölu ýmis ákvæði er varða málefni Rafmagnsveitna ríkisins og ekki þykja lengur eiga við. Skv. framlögðu fjárlagafrv. fyrir árið 1985 er gert ráð fyrir að tekjur af verðjöfnunargjaldi verði 420 millj. kr. á árinu 1985. Lækkun verðjöfnunargjaldsins á árinu 1985 úr 19 í 16% þýðir um 53 millj. kr. tekjumissi fyrir Rafmagnsveitur ríkisins og um 13.3 millj. kr. tekjumissi fyrir Orkubú Vestfjarða, og er þá miðað við heildartekjur af gjaldinu eins og þær eru áætlaðar í fjárlagafrv. Gert er ráð fyrir að þessum tekjumissi verði mætt með skuldbreytingu áhvílandi lána hjá fyrirtækinu. Skv. tillögum sem nú eru til athugunar næst að mæta þeim tekjumissi alfarið með slíkri skuldbreytingu.

Þar sem ekki náðist samstaða nú um frv. til l. um lækkun gjaldsins í áföngum og niðurfellingu þess samhliða aðgerðum til að bæta fjárhag fyrirtækjanna, sem fela í sér lausn til frambúðar, er óhjákvæmilegt með tilliti til fjárhagsstöðu Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða að framlengja gjald þetta um eitt ár, þó þannig að gjaldið lækki úr 19 í 16%. Um forsögu verðjöfnunargjaldsins vísast að öðru leyti til fskj. sem fylgir með frv.

Við þessa 1. umr. í hv. Nd. vil ég birta eftirfarandi yfirlýsingu:

Með tilvísun til fyrri yfirlýsinga um afnám verðjöfnunargjalds af raforkusölu og að fyrir fjárhag þeirra fyrirtækja sem þess hafa notið verði séð með öðrum hætti lýsir ríkisstj. því yfir að hún mun leggja fyrir Alþingi í síðasta lagi haustið 1985 frv. til 1. sem ræður þeim málum til lykta, þ.e. að við fyrri yfirlýsingar um afnám þessa óeðlilega gjalds verður staðið. Ég vil taka það fram að ég geri ráð fyrir því að fljótlega upp úr áramótum verði skipuð nefnd til þess að ná samkomulagi um með hvaða hætti staðið verður að samningu slíks frv. Ég býst við því að að verulegu leyti verði nál. hinnar stjórnskipuðu nefndar lagt til grundvallar. Þó á ég frekar von á því að afnám gjaldsins verði í jöfnum áföngum, 4% á ári, og taki þess vegna einu ári lengur að afnema það með öllu en gert var ráð fyrir í tillögum hinnar stjórnskipuðu nefndar.

Herra forseti. Ég legg til að þegar þessari 1. umr. lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.