18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

2. mál, þjónusta við farþega í innanlandsflugi

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þeir sem ferðast eitthvað að ráði með flugvélum hér innanlands hefðu frá mörgu að segja, ef þeir væru hér staddir og hefðu orðið, varðandi þjónustu flugfélaga, aðstöðu á flugvöllum og ferðir með sérleyfishöfum í tengslum við flug. Hver hefur ekki þurft að bíða langtímum saman eftir flugi, t.d hér á Reykjavíkurflugvelli, án þess að nokkrar viðhlítandi skýringar væru gefnar á seinkun eða röskun á flugáætlun? Hver hefur ekki þurft að eyða löngum tíma til að ná símasambandi við afgreiðslur flugfélaganna til að fá skorið úr um breytingar á áætlun og stundum gefist upp og ekið til flugvallar upp á von og óvon til að verða ekki strandaglópur? Hver hefur ekki haldið um langan veg til aðalflugvallar og þurft að bíða þar flugs upp á von og óvon á eigin kostnað, jafnvel svo dögum skiptir? Hver hefur ekki orðið fyrir því að komast ekki leiðar sinnar að og frá flugvelli á vetrardegi, jafnvel í blíðskaparveðri, vegna þess að Vegagerð ríkisins ryður ekki snjó af vegum nema einu sinni eða tvisvar í viku á ákveðnum vikudögum? Hver hefur ekki norpað í óupphituðum og óvistlegum biðskýlum, jafnvel án snyrtiaðstöðu, á flugvöllum úti á landi um lengri eða skemmri tíma í bið eftir flugi? Hver hefur ekki sest upp í kaldar og stundum óþrifalegar rútur á sérleyfisleiðum að og frá flugvöllum? Þessar og fleiri spurningar koma upp í hugann þegar ég mæli hér fyrir till. til þál. um bætta þjónustu við farþega í innanlandsflugi, en þá till. er að finna á þskj. 2.

Ég vil taka það skýrt fram að ég geri mér fulla grein fyrir þeim erfiðleikum sem eru á vegi flugs hérlendis vegna óblíðrar og síbreytilegrar veðráttu og ófullnægjandi skilyrða á flugvöllum eins og þeir eru nú búnir. Við flugmenn okkar og starfsmenn flugfélaganna er ekki að sakast. Þeir leggja sig að jafnaði fram um að greiða götu farþega. Við erum hins vegar með einokun í innanlandsfluginu þar sem opinberir aðilar veita einkaleyfi til áætlunarflugs á tilteknum flugleiðum. Reglugerð um þau fyrirtæki sem starfa að loftflutningum er birt sem fylgiskjal með þáltill. svo og auglýsingar samgrn. um leyfisveitingar til áætlunarflugs á flugleiðum hér innanlands.

Ég hef leitað í þessum reglugerðum og leyfisbréfum með logandi ljósi að ákvæðum sem varða aðbúnað að farþegum og eðlilega vernd fyrir viðskiptavini þessara einkaleyfisflugfélaga, en engin slík ákvæði fundið. Getur það verið að stjórnvöld standi þannig að málum að úthluta sérleyfum til flugs og farþegaflutninga með flugvélum og sérleyfisbifreiðum án þess að stafkrókur sé settur á blað um skyldur fyrirtækjanna gagnvart farþegum? Eru yfir 600 þús. farþegar, sem ferðast árlega í flugi á innanlandsleiðum, nánast réttlausir og hafa flugfélög og sérleyfishafar engar tilgreindar skyldur að rækja gagnvart þeim aðrar en halda uppi ákveðnum ferðafjölda og hlíta öryggisreglum? Ég vil ekki fullyrða að svo sé, en hitt er augljóst að afar mikið skortir á eðlilega þjónustu af hálfu flugfélaganna við farþega og samtengingu vegaþjónustu við flugferðir á innanlandsleiðum. Hæstv. samgrh., sem er viðstaddur þessa umr., getur eflaust greint okkur frá ef slík ákvæði er að finna í leyfisbréfum sem snerta velferð farþega og neytendavernd að þessu leyti.

Ég taldi eðlilegt að taka þetta mál upp á háttv. Alþingi með svofelldri þáltill., með leyfi forseta. „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram ítarlega úttekt á þjónustu við farþega á flugleiðum innanlands og á samgöngum við flugvelli og gera tillögur til úrbóta.

Áhersla verði m.a. lögð á að kanna eftirtalda þætti:

a) Aðstöðu flugfélaga til að rækja eðlilega þjónustu við farþega.

b) Núverandi þjónustu af hálfu flugfélaganna við

farþega í áætlunarflugi, m.a. þegar tafir verða.

c) Samgöngur að og frá flugvöllum, m.a. með sérleyfisbifreiðum, og reglur um snjóruðning af vegum í því sambandi.

Úttekt þessari verði lokið fyrir 1. maí 1985 og þá skilað um hana greinargerð til Alþingis. Í framhaldi af henni verði endurskoðuð lög og reglur varðandi flugsamgöngur innanlands, m.a. með það að markmiði að tryggja góða þjónustu við farþega í innanlandsflugi og virkt eftirlit með starfsemi sérleyfishafa.“

Í greinargerð er nánar vikið að rökum fyrir þessum tillöguflutningi og á það bent hve flug er veigamikill þáttur í samgöngum heilla landshluta. Einkum á þetta við um fólk á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi sem er að miklu leyti háð flugsamgöngum í samskiptum við höfuðstaðinn einkum að vetrarlagi. Flug innan landshluta gegnir einnig vaxandi hlutverki. Fimm flugfélög hafa leyfi til reglubundins áætlunarflugs innanlands og flugvellir, sem þar koma við sögu, eru 44 talsins. Fjöldi farþega í innanlandsflugi var á árinu 1982 talinn 606 þúsund manns, eins og tilgreint er á fylgiskjali með till., en upplýsingar um farþegafjöldann 1983 voru ekki fyrirliggjandi hjá flugmálastjórn fyrir tveimur vikum, ekki fullkomnar upplýsingar.

Sérstök stjórnskipuð nefnd á vegum samgrn. hygg ég að vinni nú að tillögugerð um helstu framkvæmdir á sviði flugmála á næstu árum, þar á meðal varðandi öryggi í flugumferð. Af þeim sökum er ekki um þau atriði fjallað í þessari till., en út af fyrir sig væri fróðlegt að vita hvað miðar störfum þeirrar nefndar, ef hæstv. samgrh. vildi greina frá því við þessa umr. Vissulega kalla endurbætur á flugvöllum á framkvæmdir, einkum við flugstöðvar og flugskýli, og þannig eru þessir þættir samslungnir.

Till. gerir ráð fyrir ítarlegri úttekt á öllu því sem varðar þjónustu við farþega á innanlandsleiðum og samgöngur við áætlunarflugvelli. Líðan farþega er komin undir smáu og stóru allt frá upphafi ferðaundirbúnings til loka ferðar. Aðstæður á flugvöllum eru víða afleitar fyrir farþega og sums staðar á áætlunarflugvöllum er ekkert farþegaskýli að finna. Slíkt takmarkar að sjálfsögðu alla þjónustu við farþega og sérstök þörf er úrbóta í þeim efnum.

Á flugvöllum og í flugi reynir mikið á mannlega þjónustuþætti og greiðar upplýsingar fyrir farþega, eins og ég gat um í upphafi. Flestir starfsmenn flugfélaganna leggja sig fram í starfi innan þess ramma sem þeim er ætlaður, en oft reynir mjög á þá vegna þeirra hnúta sem myndast þegar tafir eru á flugi. Því er sérstaklega að því vikið að athuga hverra úrbóta sé þörf þegar þannig aðstæður skapast.

Sú staðreynd að flugfélögin hafa einokunaraðstöðu á tilteknum flugleiðum hefur ótvírætt þá hættu í för með sér að dregið sé úr þjónustu við farþega umfram það sem væri ef um virka samkeppni milli flugfélaga væri að ræða. Þessu þarf að mæta með skýrum reglum, sem flugfélögum sé gert að fara eftir varðandi þjónustu við farþega, og liður í því hlýtur að vera ákveðið lágmark starfsmanna m.a. til að sinna farþegum.

Erfið veðurskilyrði og bágbornar aðstæður á flugvöllum valda því oft að tafir verða á flugi, til mikilla óþæginda fyrir farþega og flugrekstur. Gera verður ráð fyrir slíku í þjónustu við farþega, á því er mikill misbrestur í innanlandsfluginu. Fólk situr jafnvel heilu og hálfu dagana í flugskýlum án þess að eiga kost á málsverði eða vera boðin hressing og falli flug niður milli daga þurfa menn að jafnaði að verða sér úti um náttstað á eigin kostnað, jafnvel leita heim til sín aftur um langan veg þegar um er að ræða flugvelli úti á landi. Hér eru aðstæður vissulega mjög mismunandi, en engar fastmótaðar reglur svo mér sé kunnugt um eru til um það til hvers sé ætlast af flugfélögunum við slíkar aðstæður. Þetta leiðir oft til árekstra og misskilnings til ama bæði fyrir farþega og starfsfólk flugfélaganna. Að mínu mati er eðlilegt að gera hér meiri kröfur til flugfélaganna en hingað til, en um það þarf vissulega að leita skynsamlegs samkomulags og fella það að veitingu á sérleyfum hverju sinni.

Í till. er gert ráð fyrir að lokið verði við þá úttekt, sem þar er lagt til að gerð verði, eigi síðar en 1. maí n.k. og henni verði skilað sem grg. til Alþingis. Ég tel eðlilegt að framlenging á sérleyfum flugfélaganna, sem mörg hver renna út um næstu áramót, verði gerð um takmarkaðan tíma með tilliti til þess að fyrir liggi niðurstöður úr þessari úttekt og þá verði hægt í reglubundinni framlengingu leyfa að taka þá þætti inn í sem varða þjónustu við farþega.

Í framhaldi af athugun þessara mála er síðan gert ráð fyrir því samkvæmt till. að unnið verði að æskilegum laga- og reglugerðarbreytingum til að tryggja sem besta þjónustu og eftirlit með þeim sem leyfi hafa til flugrekstrar og sérleyfi til fólksflutninga að og frá flugvöllum.

Aðbúnaður að flugi hérlendis hefur verið allt of lakur til þessa. Taka þarf þar á mörgum þáttum, en í því sambandi má farþeginn, ferðamaðurinn sjálfur, síst verða út undan.

Herra forseti. Eftir að umr. hefur verið frestað legg ég til að máli þessu verði vísað til hv. allshn.