19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

192. mál, málefni aldraðra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma hér fram að ég met mikils yfirlýsingar hæstv. ráðh., bæði heilbrrh. og fjmrh., hér við þessa umr. og tel að það sem fram kom hjá þeim skipti verulegu máli.

Hæstv. fjmrh. komst þannig að orði að hann væri reiðubúinn til að skoða þennan fjárlagalið betur og ef þörf gerðist til að ná sómasamlegum árangri mundi hann beita sér fyrir aukafjárveitingu á árinu 1985. Ég hygg að ég hafi náð þessu nokkurn veginn orðrétt eftir hæstv. ráðh. Hæstv. heilbrrh. tók síðan undir það hér áðan og bætti því við að sú aukning, sem kynni að verða á þessum lið frá fjárlögum ársins 1985 eins og þau nú líta út, hlyti að fara að talsverðu leyti til B-álmu Borgarspítalans án þess að hægt sé að slá því alveg 100% föstu á þessu stigi málsins.

Ég vil taka undir það að þessi málaflokkur, sem hér er um að ræða, hefur verið að breytast mjög mikið á undanförnum árum. Þær tölur, sem hæstv. heilbrrh. nefndi í þeim efnum, eru kannske gleggst dæmi um það, þar sem fram kemur að vistrými aldraðra voru samtals 1427 í byrjun árs 1974, en voru í byrjun þessa árs 2246. M.ö.o. vistrýmum fyrir aldraða á almennum elliheimilum, sem svo voru kölluð, og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða hefur fjölgað um 819 á þessum áratug. Hér er um gífurlega breytingu að ræða og þar munar um allt. Ég nefni í því sambandi t.d. Hrafnistu sem á mjög myndarlegan hlut að þeirri aukningu sem hér um ræðir. Þar hefur komið til á þessum tíma mjög veruleg aukning á rými og þó hygg ég að ekki sé öllu til skila haldið í þessum tölum vegna þess að Hrafnista kemur einnig við sögu sérstaklega á árinu 1982, 1983 og á fyrri hluta árs 1984 þar sem um er að ræða milli 150 og 200 pláss. Síðan hafa opinberir aðilar lagt í þetta líka með B-álmu Borgarspítalans sem er að koma hér inn í vaxandi mæli. Það hefur því verið tekið á þeim vanda sem um var að ræða í vistunarmálum aldraðra — neyðarástand var það kallað á árunum 1980 til 1981 — og ég tel að það sé vilji til þess í öllum flokkum hér á hv. Alþingi að taka á þessum vanda.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. ræddi hér um Framkvæmdasjóð aldraðra og það að gert var ráð fyrir að verja úr honum peningum í fjármögnun bygginga á móti sveitarfélögunum. Hann taldi að það hefði kannske verið vafasamt vegna þess að það þrengdi þá að öðrum framkvæmdum í þágu aldraðra. Í því sambandi verð ég að segja að ég taldi og tel reyndar enn að hjúkrunarrýmið sé forgangsflokkur í þessu efni. Þörfin er að vísu mikil fyrir almenn dvalarheimili, en ég tel að þörfin fyrir hjúkrunarrými fyrir aldraða sé enn þá í forgangsflokki í þessu. Ég taldi þess vegna og tel að það hafi verið réttlætanlegt að verja mjög stórum upphæðum úr þessum framkvæmdasjóði í hjúkrunarrýmið.

Eins og kunnugt er liggur hér fyrir brtt. frá okkur, mér og hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, um málefni aldraðra. Auðvitað er eðlilegt að það verði látið reyna á afstöðu þingsins til þeirra till., samþykkt þeirra væri stuðningur við hæstv. heilbr.- og trmrh. í þessu máli þó að honum sé vafalaust einnig styrkur að yfirlýsingu fjmrh. Verði till. mót vonum mínum felldar hljótum við að fylgjast mjög grannt með því hvernig hagað verður úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra á árinu 1985 og einnig því hvernig hugsanlegum aukafjárveitingum verður varið, en það var það sem hæstv. fjmrh. sagði, að hann mundi beita sér fyrir aukafjárveitingu í þessu skyni á árinu 1985. Þrátt fyrir margítrekaðar yfirlýsingar sínar um að hann væri andvígur aukafjárveitingum vildi hann gera undantekningu í þessum málaflokki, það liggur fyrir. Við munum fylgjast með því hér á Alþingi hvernig þeim aukafjárveitingum vindur fram og hvernig þær verða notaðar, enda er gert ráð fyrir því að Alþingi fái fulltrúa til samráðs um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra þó að hann sé þar ekki fullgildur stjórnaraðili, enda er það ráðh. sem formlega séð úthlutar úr Framkvæmdasjóði aldraðra.