18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

2. mál, þjónusta við farþega í innanlandsflugi

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður spurði hvað liði störfum þeirrar nefndar sem ég skipaði til að gera tillögur um framkvæmdir á flugvöllum og langtímaáætlun um flugvallagerð almennt í landinu ásamt flugskýlum. Ekkert liggur fyrir enn þá, en ég lagði áherslu á það við nefndina að fá áfangaskýrslu í lok þessa árs en tillögurnar ekki fyrr en seinna. Ég þori ekki alveg að fullyrða hvenær því að ég hef það ekki fyrir framan mig.

Í sambandi við þessi mál almennt vil ég segja að það hefur verið stefna ríkisins, og burt séð frá því hvaða ríkisstjórn hefur verið, að ríkið hafi með að gera uppbyggingu flugstöðva í landinu og stjórn flugvalla og standi undir þeim kostnaði. Ég hygg að það sé ekki í mörgum atvinnugreinum sem orðið hefur jafnmikil fjölgun á starfsmönnum og einmitt í sambandi við flugið, öryggismál og stjórn flugvalla á undanförnum árum. Á hverju ári hafa verið teknar í notkun nýjar flugstöðvar, sem hafa verið að rísa upp, og einkum á flugvöllum sem er flogið reglubundið til og nokkuð oft þar sem farþegafjöldi hefur verið tiltölulega mikill. Á s.l. ári var tekin í notkun myndarleg flugstöð á Höfn í Hornafirði og í Aðaldal fyrir Húsavík. Í lok þessa árs verða teknar í notkun flugstöðvar á Þingeyri, Patreksfirði og í Stykkishólmi. Það hefur því markvisst verið unnið að því að byggja upp flugstöðvar. Fyrst og fremst hefur áherslan verið lögð á öryggi. Því sækjumst við fyrst og fremst eftir og það leggjum við höfuðáherslu á.

Við úthlutun sérleyfa til flugfélaga á þessum leiðum öllum, en ég held að það sé um hálfur fimmti tugur áætlunarflugvalla á landinu, en tiltölulega fáir flugvellir þar sem er um verulega umferð að ræða, þá hafa verið gerðar mjög strangar öryggiskröfur til íslenskra flugfélaga og flugáhafna og með þeim ágæta árangri, sem við getum glaðst yfir, að hér eru slys í áætlunarflugi mjög sjaldgæf sem betur fer. Hins vegar hafa stjórnvöld sett fram mörg ströng skilyrði við flugfélögin og m.a. það stranga skilyrði að halda niðri verði á flugfargjöldum áratugum saman. Þetta hlýtur að leiða af sér að flugfélögin geta ekki gert allt sem þau gjarnan vilja gera nema fá heimild til að hækka verulega fargjöld. Ef við berum saman fargjöld hér innanlands og fargjöld í nágrannalöndum okkar eru þau mun lægri hér á Íslandi en þar.

Hins vegar er það rétt hjá hv. flm. þessarar till. að víða er ekki nógu gott skipulag á ferðum til og frá flugvöllum. En ég fullyrði að orðið hafa gífurlega miklar breytingar á nokkrum árum á flugstöðvum á helstu flugvöllum landsins. Víða er það ástand núna í mjög góðu horfi. En þarna verður einnig að halda áfram að byggja upp og að því er markvisst stefnt eins og eðlilegt er.

Flugrekstrarleyfum og einkaleyfum til áætlunarflugs fylgja mörg skilyrði frá hendi stjórnvalda. Leiðir þær eru mismunandi góðar sem um er sótt. Sumar leiðir er fyrir fram vitað að verða reknar með miklum halla. Tvö félög skipta hér mestu máli vegna stærðar sinnar og þá sér í lagi Flugleiðir. Það eru ákaflega mismunandi góðar flugleiðir sem þar er um að ræða. En enginn getur fengið eina, tvær eða þrjár bestu leiðirnar, en látið sig hinar engu varða. Reynt hefur verið á undanförnum árum af stjórnvöldum, alveg sama hver hefur verið í ríkisstj., að leggja ákveðna skyldu á þau félög sem um þessi leyfi hafa sótt. Hitt félagið, Arnarflug, er með minni vélar á tilteknum leiðum. Sumar þessar leiðir eru afar magrar og miklir erfiðleikar að halda flugi þar áfram.

Ég geri ráð fyrir því að við munum hafa í sambandi við þessi mál í fyrsta lagi náið samráð við flugmálastjórn, flugráð og rn. Við vinnum að því að bæta eins og hægt er þjónustu við farþega, en reynum að halda verði niðri eins og frekast er kostur því að ærið nógur er skatturinn sem kemur á strjálbýlið þó að við færum ekki allt of mikið út í einu. En áfram verður unnið að uppbyggingu á flugvöllum og í öryggiskerfinu.

Þær tvær framkvæmdir sem ég álít að séu langstærstar og skipti mestu máli eru bygging nýs flugvallar á Egilsstöðum, sem ég tel tvímælalaust stærstu og mest aðkallandi flugvallarframkvæmdina, og í öðru lagi er aðbúð í flugstöðinni í Reykjavík allsendis ófullnægjandi. Hér er um gamla flugstöð að ræða sem var upprunalega byggð af miklum vanefnum þó að margar mikilvægar endurbætur hafi verið á henni gerðar. Þetta tel ég langstærstu atriðin sem eru til meðferðar og skoðunar hjá þeirri nefnd sem fjallar núna um þessi mál.