18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

2. mál, þjónusta við farþega í innanlandsflugi

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Mér þótti rétt að segja örfá orð í tilefni af þessari þáltill. hv. 5. þm. Austurl. Ástæðan er sú að ég gegni formennsku í þeirri nefnd sem vitnað hefur verið til, bæði í grg. með þessari till. svo og í umr. hér í dag.

Sú nefnd, sem getið hefur verið um, var skipuð fyrri hluta þessa árs og henni er ætlað að skila áfangaskýrslu um áramót, eins og hæstv. samgrh. gat um, en að hafa skilað af sér þann 1. okt. 1986. Verkefni nefndarinnar er að gera áætlun um uppbyggingu flugvalla landsins og sérstaklega tilgreint að gera skuli áætlun um Egilsstaðaflugvöll, en það er sá flugvöllur, eins og hæstv. samgrh. gat um, sem af svokölluðum aðalflugvöllum landsins er í mjög slæmu ástandi og þarfnast mikillar lagfæringar. Hefur helst komið til greina að flytja flugbrautina um set til að bæta ástand þess flugvallar.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir að nefndin geri áætlun um uppbyggingu flugstöðvar í Reykjavík og byggi í því efni á starfi sem byggingarnefnd þeirrar flugstöðvar hefur unnið á undanförnum árum.

Ég vil hins vegar vekja athygli á að þessi mál tengjast mjög þeirri till. sem hér er flutt þannig að aðstaða flugfélaga til að rækja eðlilega þjónustu við farþega, eins og fram kemur í till., á að vera eitt af þeim verkefnum sem vinna ber að skv. tillögunni. Það kemur auðvitað mjög inn í uppbyggingu flugvalla landsins og þá aðallega uppbyggingu flugstöðva. Við nm. höfum litið á það sem eitt af okkar verkefnum í umfjöllun um uppbyggingu flugvalla að flugstöðvar séu þar meðtaldar, þjónusta við farþegana sé óaðskiljanlegur hluti í uppbyggingu flugvalla. Öryggið er að sjálfsögðu mjög mikilvægt, en aðstaða farþega á flugvöllum hlýtur að vera grundvallaratriði einnig. Þess vegna mundi sú áætlun sem við komum til með að skila frá okkur einnig taka til uppbyggingar flugstöðva, en eins og fram hefur komið af hálfu hæstv. samgrh. hefur mikið verið unnið að framkvæmdum á því sviði að undanförnu og allmargar nýjar flugstöðvar verið teknar í notkun og að því stefnt af hálfu flugmálastjórnar að reyna að staðla flugstöðvarbyggingar til að reyna að gera þær eins hentugar og ódýrar og möguleiki er.

Smæð okkar veldur því hins vegar að mjög erfitt er að halda uppi ýmiss konar þjónustu í tengslum við flugið. Það kemur t.d fram í grg. með þessari till. að æskilegt væri ef hægt væri að hafa aðstöðu til veitinga þar sem það á við. Því miður hefur það reynst mjög erfitt. Ég nefni sem dæmi flugstöðina á Hornafirði sem er tiltölulega ný flugstöð, mjög vel úr garði gerð. Í henni er aðstaða til veitinga, sem byrjað var á eftir að flugstöðin komst í gagnið, en því miður hefur sá rekstur ekki gengið. Smæð markaðarins veldur því. Sú starfsemi er t.d ekki gangandi núna. Hætt er við að svo verði á ýmsum öðrum stöðum þar sem farþegafjöldinn er ekki nægur til að standa undir slíkum rekstri.

Ég held, og það byggi ég á upplýsingum sem við höfum aflað okkur í þessari nefnd, að þó að margt megi segja varðandi þjónustu sjálfra flugfélaganna og þau verði oft fyrir aðkasti óánægðra farþega, t.d þegar flug er fellt niður, sé niðurstaða okkar sú að mjög hafi breyst um til hins betra á undanförnum árum í þessu efni, þ.e. að flugfélögin hafi reynt að gera það sem í þeirra valdi stendur til að bæta þjónustu við farþega, að sjálfsögðu miðað við aðstæður á hverjum stað; og menn geti treyst betur en áður þeim upplýsingum sem flugfélögin gefa varðandi áætlaðar ferðir.

Þessum atriðum vildi ég aðeins vekja athygli á og þá ekki síst því að veigamikill þáttur þessarar till. fellur þegar undir það starf sem unnið er að á vegum þeirrar stjórnskipuðu nefndar sem hér hefur verið vitnað til.