19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. sem ég flyt við þetta frv. um verðjöfnunargjald af raforkusölu. Ég hef ritað undir frv. með fyrirvara ásamt Guðrúnu Agnarsdóttur og við höfum áskilið okkur rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv.

Það má segja að sá kostur hafi verið til staðar að skila sérstöku áliti um þetta mál og til þess hafi verið í rauninni gild ástæða til að fylgja eftir þeim viðhorfum sem ég hef komið á framfæri við 1. umr. málsins. Þar gagnrýndi ég allharðlega þau vinnubrögð sem liggja að baki þessu máli af hálfu hæstv. iðnrh., bæði hversu seint málið er komið fyrir þingið og ekki síður hitt, hvernig ráðh. hefur hagað sínum yfirlýsingum um þetta mál og undirbúningi, og kemur nú á síðustu stundu með málið breytt aðeins að því leyti að verðjöfnunargjaldið er lækkað úr 19% í 16%, en hins vegar ekki tekin af tvímæli um það hvernig eða hvenær viðkomandi fyrirtækjum verði bætt það tekjutap sem um er að ræða. Ég tel mjög líklegt og ráðh. hefur raunar viðurkennt einnig í umr. um málið að svo geti farið, vegna lækkunar þessa gjalds m.a., að verðmunur aukist á nýjan leik á milli veitusvæða þeirra sem gjaldsins njóta og hinna sem við hagstæðust kjör búa í sambandi við raforkukaup til heimilisnota. Þetta tel ég vera hina háskalegustu stefnu, ef þróun yrði á þennan veg, og raunar í andstöðu við það sem flestir hafa talað fyrir, a.m.k. utan af landi sem kallað er. En það væri svo sem eftir öðru hjá núv. hæstv. ríkisstj. að sú öfugþróun hæfist einnig á þessu sviði og eru þau þá orðin fá, hagsmunamál landsbyggðarinnar, sem ekki hafa farið hraðfara niður á við í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Til að leitast við að koma í veg fyrir þessa þróun hef ég ásamt hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmasyni flutt brtt. við frv. sem lúta að því í senn að hindra öfugþróun af því tagi varðandi gjaldskrár sem ég hef hér nefnt og að tryggt verði að fyrirtækjunum verði bættur tekjumissir strax frá byrjun næsta árs. Tillögurnar eru á þskj. 369. Það er í fyrsta lagi brtt. við 1. gr. um að 2. málsl. fyrri mgr. falli brott. Hann færist raunar yfir í 2. gr. sem orðist þannig:

„Verðjöfnunargjald skal nema 16% árið 1985 og skal því varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða og til að draga úr verðmun á rafmagni til heimilisnota. Á árinu 1985 skal þess gætt að verðmunur á rafmagni vaxi ekki frá 1. desember 1984 á veitusvæðum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða í samanburði við gjaldskrá Rafmagnsveitu Reykjavíkur.“

Og 3. brtt. er á þessa leið:

„Á eftir 2. gr. komi ný gr. er verði 3. gr. og orðist svo:

Til að bæta Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða þann tekjumissi, sem hlýst af lækkun verðjöfnunargjaldsins úr 19% í 16%, skal ríkissjóður yfirtaka áhvílandi lán sem þessu nemur hjá fyrirtækjunum frá ársbyrjun 1985 að telja.“

Þetta eru okkar brtt. við frv. og ég vænti að þær fái stuðning, svo sjálfsagt sem það virðist að koma í veg fyrir öfugþróun í sambandi við verðlagningu raforku og að ekki halli á ný undan fæti fyrir fjárhag þeirra veitufyrirtækja sem annast það erfiða verkefni að byggja upp og viðhalda raforkukerfunum í dreifbýli og selja þar orku til dreifðra notenda og búa þannig við allt önnur skilyrði en rafveitur í þéttbýli sem hafa tiltölulega auðveldan markað. Vissulega hefur Rafmagnsveitunum og Orkubúinu verið léttur nokkuð róðurinn á undanförnum árum, sérstaklega með því að upp var tekið jafnaðargjald á rafmagni í heildsölu snemma á árinu 1983 þegar lögin um Landsvirkjun gengu í gildi í breyttu formi og þar með það ákvæði að heildsöluverð á raforku skyldi vera eitt og hið sama eða gjaldskrá varðandi heildsölu á raforku yrði hin sama hvar sem er á landinu. Þetta var stórt hagsmunamál, ekki síst fyrir Orkubú Vestfjarða, þegar það náði fram. En þetta eitt dugir ekki. Dreifingin innan svæðanna og uppbygging kerfanna þar er erfitt viðfangsefni og kostnaðarsamt og því er óhjákvæmilegt, hvaða leið sem er valin, að gera þessum fyrirtækjum kleift að selja orkuna sem næst á sambærilegu verði við það sem gerist á helstu þéttbýlissvæðum landsins.

Ég ætla, herra forseti, ekki að orðlengja þetta frekar þar sem rök mín og hv. 2. flm. liggja fyrir úr ræðum við 1. umr. um þetta mál.