29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

62. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér finnst nú nógu lítill sómi okkar karla hér á Alþingi, sem birtist í viðverunni, meðan þessu merkilega máli var hér hreyft og fyrir því mælt þó að við látum það nú ekki alveg fram hjá okkur fara. A.m.k. vil ég koma hér upp og taka undir það, þó ekki verði nema í almennum orðum, sem hér er flutt. Hér er auðvitað um að ræða anga af miklu stærra máli, eins og flm. reyndar vék að, þar sem er almennt mat á þeim þýðingarmiklu störfum sem unnin eru innan veggja heimilisins við almenn heimilisstörf, umönnun barna og því um líkt.

Ég tel það eðlilegt, eins og reyndar flm. till. hljóta að gera með því að flytja málið með þessum hætti, að hið opinbera móti hér stefnuna og gangi þannig frá málum við það fólk, sem hjá því starfar, að líta megi á það sem fordæmi. Væntanlega léttir það þá róðurinn hjá öðrum, sem vinna úti á hinum almenna vinnumarkaði, að ná fram rétti sínum í þessum efnum.

Það er út af fyrir sig nokkur skaði að hæstv. fjmrh., sem hér ætti að eiga hlut að máli sem viðsemjandi opinberra starfsmanna, skuli vera fjarstaddur. En mikil stoð er í því að hér er hæstv. félmrh. sem einnig tengist réttindamálum launþega á ýmsa vegu með störfum í sínu rn. Ég held að ástæða sé til að ætla að ef slík ákvæði næðust inn í samninga opinberra starfsmanna og hins opinbera, eins og hér er gerð till. um, þá yrði það tiltölulega létt verk að ná hliðstæðum ákvæðum á hinum almenna launamarkaði í komandi kjarasamningum. Eðlilegast væri þó að mínu mati að einhver rammi um þessi réttindi yrði markaður með lögum. Kannske verður það í framtíðinni ef áfangasigrar nást með þessum hætti.

Ég vil svo, herra forseti, aðeins lýsa almennum stuðningi mínum við þessa till. og harma það hversu fáir eru hér til að hlusta á málflutninginn eða þá að veita till. stuðning með öðrum hætti.