04.02.1985
Neðri deild: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2596 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ekki er ég alveg sammála hv. 2. þm. Reykv. þegar hann horfir yfir þjóðfélagið og kemst að því að auðnum sé jafnt dreift. Það er vafalaust misjafnt útsýni sem menn hafa. Mér sýnist að það megi flestum ljóst vera að sú ákvörðun á sínum tíma að reyna að bjarga trausti íslensku krónunnar með því að taka upp vísitölukerfið hafi leitt til þess að fæstir eiga nokkra möguleika á að fylgjast með því eða sjá fram í tímann hvaða fjármagnsskuldbindingar þeir hafa tekið að sér. Og vegna þeirrar erfiðu stöðu sem íslenskt þjóðarbú var í og leiddi til þess að kaupgjaldsvísitala var tekin úr sambandi fer það ekki á milli mála að röskunin hefur orðið slík að það er engin skynsemi eftir í. því kerfi sem við búum við. Það er út af fyrir sig hægt að halda því fram að ef maður hefur fengið ákveðna upphæð lánaða sé hægt að reikna verðgildi hennar út eftir einhverjum vísitölum og skila henni þannig.

Í frumstæðum þjóðfélögum var það gamla reglan að ef menn greiddu vinnuskuldir þá greiddu þeir með jafnlöngum tíma og þeir höfðu fengið að láni og þannig sléttaðist það út.

Mér er ljóst að núverandi stjórnvöld hafa haft þetta mál til meðferðar eins og fram hefur komið. En það virðist nú samt svo að frá viðskrn. komi aðrar tillögur öllu örar en hugmyndir um það hvernig taka beri á þeim vanda sem hér hefur verið lýst vel af flm. þessarar till.

Nú getur sá möguleiki stundum verið fyrir hendi að gjaldandi vill greiða að fullu það sem hann á að greiða og minnka þannig sínar skuldir. Hann kann að vera í þeirri stöðu að geta það og vilji þess vegna gera það. Ég tel því að slíkt ákvæði ætti að vera hér inni. Að öðru leyti er ég sammála því að miðað við þá stefnu sem er hljóti þetta að vera mjög til bóta. Og tvímælalaust er alveg fráleitt að tala um það að Alþingi eigi ekki að setja lög á lífeyrissjóði, sparisjóði eða banka. Ég veit ekki betur en þessir aðilar allir starfi skv. lögum. Og hvers vegna skyldu þau lög eða ákvæði um þá starfsemi ekki alveg eins geta lotið því valdi að þeim lögum sé breytt? Þetta á ekkert skylt við það hvort menn vilja verðtryggja höfuðstól eða ekki. Það hefur komið hér skýrt fram. Allt tal um slíkt er þess vegna að teygja lopann. Hv. 2. þm. Reykv. fór eins og köttur í kringum heitan graut þegar hann var að reyna að blanda þessu saman við. Það er enginn skyldleiki þarna á milli.

Og það verður líka að segjast eins og er að við höfum sett margs konar lög sem ganga nokkuð nálægt stjórnarskránni gagnvart því ákvæði að menn skuli ráða yfir sínu fé eftir að þeir hafi náð vissum aldri. Við höfum sett lög um skyldusparnað þar sem við tökum ákvörðun um að þjóðfélagið heimtar af þessum þegnum ákveðna upphæð til geymslu og varðveislu. Hvers vegna skyldum við ekki með lagasetningu taka ákvörðun um það að við heimtum af lífeyrissjóðunum vissar upphæðir til geymslu og varðveislu, eða af sparisjóðunum, miðað við þá stöðu sem þessi mál eru komin í? Ég hygg að það sé hollt að hugleiða það að undir mörgum kringumstæðum getur afleiðingin af óbreyttri stefnu orðið sú að sá sem skuldar lendir ekki aðeins í því að greiða skuld sína, heldur lendir hann í því að þurfa að tapa margföldum upphæðum vegna aðfararréttar þess sem krefur. Og það er líka spurning um réttlæti í þeirri stöðu sem við erum í. Þess vegna vil ég tvímælalaust lýsa því yfir hér að ég mun styðja þetta frv. komi það til atkvgr. í þinginu.