05.02.1985
Sameinað þing: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

17. mál, Skipaútgerð ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Við erum hér nokkrir saman komnir rétt eina ferðina til að ræða eina af þessum mörgu till. í bandorminum mínum. Ég þakka þá umr. sem hér hefur farið fram þó að ég sakni þess líka að vissu leyti að hún fjalli ekki eins mikið um grundvallaratriði þessa máls og ég hefði æskt. Ég hefði svo sem getað látið fylgja með hverri þessara grg. allítarlegar upplýsingar um tölulega stöðu þessara fyrirtækja sem um ræðir og ýmislegt í þeirra rekstri sem fljótgert er að benda á. Menn tala hér um að það þurfi að gera könnun, þurfi að rannsaka. Ég held að menn átti sig ekki á því að sú rannsókn þarf í sjálfu sér ekki að vera ýkja löng eða flókin. Hún getur nánast átt sér stað héðan úr þessum ræðustól.

Við tölum fyrst um grundvallaratriðið um afskipti ríkisvalds. Ég er þeirrar skoðunar, eins og flestir hér inni, að ríkisvald beri ákveðna ábyrgð á samgöngum á landi og sjó, þ.e. beri ábyrgð á ákveðnum jöfnuði í samgöngum fyrir alla landsmenn. Þar með væri í raun og veru fyrstu grein þessarar rannsóknar lokið að því leyti að vilja væri lýst yfir.

Annar liður þessarar rannsóknar væri spurningin um starfsemi Ríkisskips til þess að fullnægja þessum kröfum. Og ef menn opna nú hug sinn og skoða þetta mál með sæmilega fordómalausu hugarfari má benda á tvennt. Samgöngur á sjó eru nauðsynlegar til sumra staða vegna þess að erfitt er að komast þangað með öðrum hætti. Þar þarf að sjá fyrir góðum samgöngum af sjó. Samgöngur eru nauðsynlegar til einhverra fleiri staða vegna þess að sú vara sem á að flytja er þess eðlis að erfitt er að flytja hana á landi.

Þessar tegundir flutninga eru að nokkru leyti algerlega óskyldar. Fyrri gerð flutninganna er nauðsynleg vegna þess að aðrar gerðir flutninga eru illmögulegar vegna aðstæðna, þ.e. það eru ekki vegir eða flughafnir fyrir hendi. Hin tegund flutninganna er nauðsynleg vegna þess einfaldlega að varan sem um ræðir er þess eðlis að hún verður ekki flutt hæfilega með öðru móti, en það er ekki þar með sagt að slíkir flutningar þurfi að niðurgreiðast, þ.e. að þeir séu hluti af einhverju samgönguvandamáli vegna þess að þarna er líklegast yfirleitt um einhverja þá hluti að ræða sem sjaldan þarf að flytja.

Þegar við erum að niðurgreiða samgöngur á einhverja ákveðna staði víðs vegar út um landið miðast í raun og veru niðurgreiðslan af rekstri Ríkisskips við viðkomu þess í ákveðnum höfnum. Ef við hugsum okkur að Ríkisskip væri ekki fyrir hendi heldur þau þrjú skipafélög önnur sem hér starfa í landinu og líklega nokkur fleiri, þá þyrfti í raun og veru kostnaðarþátttaka ríkisins einfaldlega að miðast við það að niðurgreiða flutninga á ákveðnar hafnir þar sem íbúar viðkomandi byggðarlaga ættu ekki kost á eðlilegum samgöngum allt árið um kring til jafns við aðra landsbúa. Óeðlilegt er að mínu mati að mismuna landsbúum, en útgerð Ríkisskips mismunar landsbúum með því fyrirkomulagi sem nú er. Mjög margir þurfa að sækja flutninga um mjög langan veg en eiga engan kost á þeim niðurgreiðslum sem fram fara í gegnum rekstur Ríkisskips. Óeðlilegt er líka að mínu mati að auka umfang í rekstri sífellt með það að markmiði að draga úr rekstrarkostnaði, eins og ráðamenn fyrirtækisins segja en valda hinu gagnstæða.

Hv. ræðumaður hér á undan mér lýsti þjónustu Ríkisskips fyrir 20 árum. Hún var stopul og léleg og meðferð vörunnar léleg. En tapið á Ríkisskip var ekki eins mikið þá og það er í dag hlutfallslega. Nú hefur þjónustan batnað, stóraukist og umsvif þessa fyrirtækis fara sívaxandi og tap þess fer sívaxandi. Er tapið í beinu hlutfalli við þátttöku ríkisins í því að greiða niður aðstöðumun þegnanna? Ég efa það.

Ég veit ekki hversu margir hafa fylgst með þeim samningum sem í gangi voru milli Ríkisskips og steinullarverksmiðjunnar. En þar ætlaði Ríkisskip í grófum dráttum að flytja steinullina til Reykjavíkur til umskipunar á u.þ.b. 15% af reiknuðu kostnaðarverði til flutninganna. En til þess að annast þessa flutninga þyrfti Ríkisskip að auka skipakost sinn um 75%. Hvaðan halda menn að hafi átt að taka þær fjárfestingar og hvaða þegnum var verið að þjóna með þeirri niðurgreiðslu?