12.02.1985
Sameinað þing: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2860 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

120. mál, þrjú bréf fjármálaráðherra

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 124 flyt ég ásamt þremur öðrum þm. till. til þál. um þrjú bréf fjmrh. Flm. till. auk mín eru hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, Guðmundur Einarsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Tillgr. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að draga til baka eftirfarandi bréf fjmrn.:

1. Til allra rn. um „starfsskyldur forstöðumanna“, dags. 25. sept. 1984, undirritað af Höskuldi Jónssyni f.h. ráðh.

2. Til allra rn. um skráningu á athöfnum BSRB-manna, dags. 8. okt. 1984, undirritað af Höskuldi Jónssyni f.h. ráðh.

3. Til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, dags. 22. okt. 1984, undirritað af Albert Guðmundssyni og Höskuldi Jónssyni.“

23. október s.l. barst alþm. eftirfarandi bréf frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, með leyfi hæstv. forseta:

„Herra alþingismaður. Eftirfarandi tillaga var samþykkt með öllum atkv. á fundi stjórnar BSRB í dag: „Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja mótmælir harðlega þeirri einræðislegu framkvæmd fjmrh., sem er sjálfur annar aðilinn í kjaradeilu BSRB, sem fram kemur í þremur bréfum fjmrh. dags. 25. sept., 8. okt. og 22. okt. 1984, sem hér fylgja með í ljósriti. Bandalagsstjórnin vekur athygli á því að með bréfum þessum er stefnt að því að afnema þau mannréttindi og það lýðfrelsi sem íslenskt þjóðfélag byggir á.

Í bréfunum felst:

1. Fyrirskipun til forstöðumanna ríkisstofnana að ganga í verk undirmanna sem eru í verkfalli og þar með fremja verkfallsbrot.

2. Ögrun við félagsmenn um skrásetningu á gjörðum þeirra og framkomu að viðlögðum brottrekstri síðar.

3. Hótun um beitingu hegningarlaga skv. lagagreinum er varðað geta margra ára fangelsi.

Því er beint til alþm. hvort þeir telji að í löggjöf, sem Alþingi hefur samþykkt, felist þessi stefna og hvort það sé vilji Alþingis að réttarríkið sé afnumið með þessum hætti af framkvæmdavaldinu.

Virðingarfyllst,

f. h. stjórnar BSRB

Kristján Thorlacius formaður,

Albert J. Kristinsson 1. varaformaður,

Haraldur Steinþórsson 2. varaformaður.“

Í þskj. því sem hér um ræðir eru bréfin birt í heild.

Þau hafa áður komið hér til umr., m.a. í fyrirspurnatíma á hv. Alþingi og einnig hafa þau komið til meðferðar í umr. utan dagskrár um vinnubrögð fjmrh. og rn. í kjaradeilu opinberra starfsmanna. Ég tel að þessi bréf séu öll með þeim hætti að óhjákvæmilegt sé að Alþingi taki afstöðu til þeirra. Jafnvel þó að deilan sé um garð gengin er ljóst að bréfin höfðu mikil áhrif á kjaradeiluna.

Ég tel að það sé hættulegt fordæmi sem fjmrh. setur með bréfaskriftum af þessu tagi. Sérstaklega tel ég hættulegt það bréf þar sem þess var krafist af yfirmönnum ríkisstofnana að þeir skráðu hegðun opinberra starfsmanna í verkfallinu. Einnig tel ég mjög alvarlegt í þessu sambandi að í bréfunum var hótað margra ára tukthúsvist ef menn ekki færu að vilja fjmrh. í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. fjmrh. eigi meiri sök á verkfalli opinberra starfsmanna en nokkur annar maður. Hann efndi til illinda þegar hann átti að reyna að bera klæði á vopnin. Þessi bréf eru þrjú dæmi um vinnubrögð ráðh. í þessu máli og ég tel skylt og eðlilegt að Alþingi taki afstöðu til þeirra.

Ég legg til, herra forseti, að það verði ekki tvær umr., heldur ein og málið fari til allshn.

Ég vil svo vekja athygli á því, herra forseti, að á dagskrá þessa fundar eru 44 mál. Það er forsetanum auðvitað ljóst og þingheimi öllum. Ég lagði þessa till. t.d. fram í miðjum októbermánuði. Nú er miður febrúar. Á fyrstu dögum þingsins eftir jólahlé lagði ég fram þáltill. um rannsókn á starfsemi innflutningsverslunarinnar. Sú till. er mjög aftarlega á dagskránni. Ég vil beina því til hæstv. forseta að hann leiti samkomulags hið fyrsta við þingflokkana um að haldnir verði kvöldfundir eftir þörfum meðan gengið er á þessa dagskrá. Það er í rauninni óeðlilegt að mál liggi svo lengi sem hér hefur orðið. Þó er ekki við forseta að sakast. Það er samt óeðlilegt og óheppilegt vegna þess að þegar líður að þinglokum þurfa mál að hafa fengið einhverja meðferð í nefndum. Sanngjarnt er að ætlast til þess að mál sem flutt eru snemma á þinginu hafi fengið þinglega meðferð.

Þegar kemur að þinglokum vill það oft verða svo að hæstv. ríkisstj. leggur fram frv. á frv. ofan og óskar eftir því að fá þau afgreidd í skyndingu. Það verður útilokað fyrir þm. að ætlast til neinnar sanngirni af hálfu ríkisstj. í þeim efnum. Á sama tíma hafa þeir átt fsp. eða þáltill. liggjandi mánuðum saman á dagskrá án þess að þau mál kæmust til meðferðar. Ég vil því heita á hæstv. forseta að leita samkomulags hið allra fyrsta um það að í næstu viku eða svo geti farið fram slík umr., þannig að nokkuð gangi á þessa dagskrá og vinnubrögð þingsins verði þar að öllu leyti sómasamleg. Ég vil, að svo miklu leyti sem ég get eitthvað í þessu gert, veita forseta þann stuðning sem ég get.