12.02.1985
Sameinað þing: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2862 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

120. mál, þrjú bréf fjármálaráðherra

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Með tilliti til síðustu orða hv. 3. þm. Reykv. skal það tekið fram að af hálfu forseta er litið svo á að hér sé um vandamál að ræða. Snemma á þessu þingi ræddi forseti þetta mál. Tók hann fram að það væru tvær meginástæður fyrir þeim vanda sem við stöndum í á þessu þingi, annars vegar að málin eru miklu fleiri en venja hefur verið og hins vegar að umr. um einstök mál eru jafnvel lengri en verið hefur. Það voru því tilmæli forseta að þm. hefðu þetta í huga og leituðust við að stilla máli sínu í hóf í umr. um hin einstöku mál. Og tekið skal fram að umr. þurfa ekki að vera lakari fyrir þær sakir eða málin verr skýrð. Það var tekið þá fram að ekki væri ætlunin þá að halda kvöldfundi, m.a. vegna þess að það yrði að líta svo á að hv. þm. vildu frekar komast hjá kvöldfundum. Sá vilji lýsti sér í verki m.a. í því að það væri hart á því að það tækist, og raunar tækist ekki alltaf, að halda fundum fram til kl. 7 og því mætti ætla að það mundi vera nokkrum vandkvæðum bundið að halda kvöldfundi.

Það kom engin athugasemd fram við þetta mál á sínum tíma og það hefur enginn hreyft síðar athugasemdum við það. Ég tel það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði í raun og veru enga athugasemd við það. En hv. þm. er jafnljóst og forseta og öðrum hv. þm. að hér er um vandamál að ræða og athugað verður það sem hv. 3. þm. Reykv. gat um, hvort það væri núna ráð að hafa kvöldfundi. En um það verður rætt við formenn þingflokkanna.