14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2921 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir þessa till. um varnir gegn fisksjúkdómum í fiskeldisstöðvum og vötnum sem er hin þarfasta till. Við Íslendingar erum göslarar, sagði vinur Kjartans Jóhannssonar hv. alþm. Ekki veit ég hvort það er heilagur sannleikur. Mín skoðun er nú sú að sá göslaraháttur, sem kemur fram í illa undirbúnum framkvæmdum og atvinnustarfsemi, stafi fyrst og fremst af fæð okkar og smæð. Við höfum ekki nægjanlegt fjármagn og opinberir sjóðir hafa ekki lagt til fjármagn til þess að nýsköpun fái nægjanlega undirbyggingu. Auðvitað vonum við að á þessu verði breyting og bindum vitanlega vonir við þróunarsjóð þann sem er í uppbyggingu.

En ég vil aðeins víkja að öðru og það eru ólík viðbrögð stjórnvalda og þeirra aðila sem standa að fiskirækt. Þegar sjúkdóms verður vart hjá einkaaðilum er öllu slátrað hjá þeim. En ríkið hefur ekki sýnt jafnskjót viðbrögð. Er þó að mínu mati um enn alvarlegri hlut að ræða þar sem smitsjúkdóms hefur orðið vart í eldisstöð ríkisins í Kollafirði en þaðan er seiðum dreift víðs vegar um landið. Ég hef ekki heyrt þess getið að ákvörðun hafi verið tekin um viðbrögð í þessu máli og það vekur furðu og jafnvel kvíða.

Við hljótum að vona og ætlast til þess að opinber stofnun sýni ekki minni ábyrgð en einkaaðilar í fiskirækt. Væri fróðlegt að fá upplýsingar um þessi mál nú við þessa umr. Því spyr ég hæstv. landbrh. hver eigi að verða viðbrögð við þeim vágesti sem vart hefur orðið í eldisstöð ríkisins í Kollafirði.