18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2984 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

314. mál, umferðarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til umferðarlaga. Þetta frv. er samið af umferðarlaganefnd, sem fyrirrennari minn í embætti dómsmrh. skipaði í september 1980 til að vinna að heildarendurskoðun umferðarlaga svo og reglugerðar skv. þeim eftir því sem ástæða þætti til. Í nefndina voru skipaðir þeir Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri í Reykjavík, Garðar Gíslason borgardómari, Haraldur Henrysson sakadómari og forseti Slysavarnafélags Íslands, Ólafur W. Stefánsson skrifstofustjóri í dómsmrn. og snæbjörn Jónasson vegamálastjóri. Ritari nefndarinnar var Örn Sigurðsson. Nefndin skilaði frv. þessu til rn. í lok síðasta mánaðar. Hefur orðið að ráði að leggja það fyrir Alþingi óbreytt og hefur ekki gefist aðstaða til þess, hvorki fyrir ráðh., ríkisstj. eða þingflokka stjórnarinnar, að taka afstöðu til einstakra atriða frv. Hins vegar þykir brýnt að þingið fái færi á að fjalla um efni þess, enda hefur gætt nokkurrar óþreyju meðal þm. þess vegna. Frv. liggur nú fyrir mikið af vöxtum og að því er best verður séð vandlega undirbúið.

Frv. felur í sér heildarendurskoðun á umferðarlögum, sem eru frá árinu 1968, en að stofni til eru þau frá árinu 1958 þegar hér voru fyrst sett heildarlög um umferð. Frá þeim tíma hafa verið gerðar ýmsar breytingar á umferðarlögunum og var veigamesta breytingin gerð þegar hægri umferð var lögleidd hér á landi árið 1968.

Það segir sig sjálft að nauðsyn hefur borið til að endurskoða umferðarlögin þar sem góður aldarfjórðungur er síðan þau voru sett. Hefur á þessum tíma átt sér stað ör þróun hér á landi sem og erlendis, endurbætur á bifreiðum og gífurleg fjölgun, nýir og bættir vegir o.s.frv. Umferðarlögin eru því á ýmsum sviðum orðin ófullkomin og sums staðar beinlínis úrelt.

Þá er nauðsynlegt að samræma löggjöf okkar á þessu sviði eftir því sem kostur er umferðarlöggjöf annarra þjóða og alþjóðasamningum um umferð, m.a. vegna aukinna samskipta þjóða á milli. Hafa þessi sjónarmið ráðið mestu um þær breytingar sem felast í frv. Verði frv. samþykkt verður kleift að Ísland gerist aðili að alþjóðasamningi um umferð sem gerður var í Vínarborg 1968.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. hefur við samningu þess verið höfð hliðsjón af breytingum sem á undanförnum árum hafa verið gerðar á umferðarlögum og umferðarreglum annars staðar á Norðurlöndum. Byggðist sú endurskoðun á tillögum norrænnar nefndar, Nordisk Vejfrafik Komite, um samnorrænar umferðarreglur sem byggðust m.a. á alþjóðlegri samvinnu um umferðarmál. Ísland átti ekki aðild að þessu norræna samstarfi. En við samningu frv. hefur einnig verið tekið tillit til aðstæðna hér á landi og kemur fram að nefndin leitaði eftir ábendingum og óskum frá fjölmörgum aðilum sem láta sig umferðarmál og umferðaröryggi varða á einn eða annan hátt.

Hið nýja frv. byggir í sjálfu sér að verulegu leyti á gildandi lögum, en efnisskipan allri er mjög breytt, bæði að því er varðar skipan kafla innan frv. og efnisatriði einstakra greina. Er meginatriðum skipað fyrst, svo sem reglum fyrir alla umferð, þá umferðarreglum fyrir gangandi vegfarendur, síðan umferðarreglum fyrir ökumenn, sérreglum fyrir reiðhjól og bifhjól og fyrir reiðmenn, þá ákvæðum um ökumenn, síðan ákvæðum um ökutæki o.s.frv. Í athugasemdum við hverja grein er vísað til hliðstæðs ákvæðis í umferðarlögunum. Til skýringa eru og millifyrirsagnir innan kafla.

Ekki eru tök á því að tíunda allar þær breytingar sem í frv. felast. Í athugasemdum eru taldar helstu breytingar frá gildandi lögum og eru þær 47 talsins, ýmist breytingar á gildandi ákvæðum eða nýmæli. Mun ég geta nokkurra helstu atriða í sambandi við hvern kafla.

Í 1. kafla er fjallað um gildissvið laganna og skilgreiningu hugtaka. Þar er að finna nýja skil,greiningu á hugtökunum bifreið, dráttarvél og vinnuvél. Eru vélknúin ökutæki til fólks- eða vöruflutninga, sem aka hægar en 30 km á klst., talin til vinnuvéla, en þau teljast nú til bifreiða. Sama er um vélknúin ökutæki sem ekki eru ætluð til slíkra flutninga en aka má hraðar en 30 km á klst. Þau mundu ýmist teljast dráttarvél eða vinnuvél eftir eðli ökutækja.

Í þessum kafla, er og ítarleg lýsing á því hvenær sé ljósatími auk þess sem ljósatími er ákveðinn allan sólarhringinn frá 1. október til 1. apríl.

Í II. kafla, þar sem eru reglur fyrir alla umferð, er aukin áhersla lögð á tillitssemi gagnvart börnum og öldruðum og þeim sem eru sýnilega sjón- eða heyrnarskertir, fatlaðir eða sjúkir þannig að það hái þeim jafnvel þótt þeir beri ekki auðkenni fattaðra. Þá er í þessum kafla ákvæði um vistgötur. Í öðrum köflum frv. eru og nýmæli þar sem lögð er aukin áhersla á rétt allra vegfarenda svo sem ákvæði um sérstaka skyldu ökumanna gagnvart skólabifreiðum sem numið hafa staðar til að hleypa farþegum inn eða út og ítarlegri ákvæði um skyldur ökumanna gagnvart gangandi vegfarendum almennt.

Í III. kafla eru umferðarreglur fyrir gangandi vegfarendur eða hvar á vegi þeir skuli vera. Það er fyrst og fremst utan akbrautar og hvernig þeir skuli fara yfir akbraut.

Í IV. kafla eru umferðarreglur sem gilda fyrir ökumenn og er hann einna veigamestur. Þar kemur fram meginreglan um hægri umferð, en kveðið er skýrar á um það en nú að ökutæki skuli vera vel til hægri á akbraut. Þá eru nýmæli um akstur á vegi með þrjár eða fleiri akreinar. Ef akreinar eru fjórar eða fleiri má eigi aka á akrein sem er að öllu leyti vinstra megin við miðju akbrautar í akstursstefnu og ef akreinar eru þrjár má eigi aka á þeirri akrein sem er lengst til vinstri. Þetta gildir þó ekki þar sem einstefnuakstur er.

Þá eru nýmæli um akstur af aðrennslisrein til að auðvelda ökumanni þaðan akstur inn á akrein þá sem hann ætlar inn á og ákvæði um að nota skuli aðrennslisrein strax og hún byrjar. Enn fremur eru nýmæli um framúrakstur. Aka skal hægra megin fram úr ökutæki sem beygir til vinstri eða ef ökumaður þess undirbýr greinilega vinstri beygju. Ný ákvæði eru um skyldu þess sem ekur fram úr og einnig þess sem ekið er fram úr. Loks eru ákvæði um framúrakstur þar sem umferð fer fram á fleiri en einni akrein í sömu akstursstefnu. Er þá heimilt að aka hægra megin fram úr ökutæki á annarri akrein, enda sé umferð ökutækja þétt og ökuhraðinn ráðist af þeim sem á undan fara. Við þessar aðstæður verður og óheimilt að skipta um akrein nema þess þurfi til að beygja á vegamótum, aka af akbraut, stöðva ökutæki eða leggja því.

Þessum ákvæðum ásamt ákveðnari reglu um að aka vel til hægri er ætlað að koma í veg fyrir ótímabæran akstur á vinstri akrein og tíð akreinaskipti við framúrakstur, eins konar svigakstur.

Þá eru ítarlegri ákvæði um ljósanotkun en nú er, þ.e. hvenær nota skuli háa ljósgeisla og hvenær þá megi ekki nota, svo og hvenær nota skuli lágan ljósgeisla. Ákvæði eru um að ekki megi valda ónæði með ónauðsynlegum akstri í námunda við íbúðarhús og ákvæði sem beinast gegn þeim sem með hægum akstri tefja akstur annarra.

Í V. kafla er fjallað um ökuhraða. Þar er miðað við óbreytt hraðamörk í þéttbýli, 50 km á klst. Hins vegar er lagt til að hámarkshraði á vegum með bundnu slitlagi utan þéttbýlis hækki í 80 km á klst., enda eru akstursskilyrði á þeim vegum að jafnaði betri en á malarvegum. Hámarkshraði utan þéttbýlis verður að öðru leyti óbreyttur, 70 km á klst. Þá er gert ráð fyrir því að heimila megi að uppfylltum vissum skilyrðum allt að 90 km hámarkshraða og að lækka megi hámarkshraða þar sem nauðsynlegt þykir og er það í samræmi við núgildandi heimildir. Að því er ökuhraða stórra fólksbifreiða og vörubifreiða varðar og þeirra sem draga tengi- eða festivagna er og um nokkra rýmkun að ræða. Er lagt til að ökuhraði stórra fólksbifreiða megi ekki vera meiri en 80 km á klst., en vörubifreiða og dráttarbifreiða 70 km. Þá er nýmæli er varðar akstur vélsleða sem nú eru nefndir beltabifhjól í lögum. Lagt er til að þeir megi eigi aka hraðar en 30 km á klst. á vegum nema um akstur í þágu öryggis eða heilsugæslu sé að ræða.

Í VI. kafla eru sérreglur fyrir reiðhjól og bifhjól, þ. á m. létt bifhjól eða vélhjól sem svo eru nefnd. Nýmæli er að því er varðar vinstri beygju hjólreiðamanna. Skal hjólreiðamaður, sem ætlar að beygja til vinstri, vera áfram hægra megin, aka beint áfram yfir vegamót og þá fyrst beygja til vinstri þegar það er unnt án óþæginda fyrir aðra umferð. Í frv. eru að öðru leyfi ýmis nýmæli til að tryggja aðstöðu hjólreiðamanna, svo sem við framúrakstur og akstur í beygjum. Að því er bifhjól, þ. á m. létt bifhjól, varðar er nýmæli um að við akstur utan ljósatíma skuli nota lægri ljósgeisla og er ákvæðinu ætlað að auka öryggi ökumanna bifhjóla þannig að hjólin sjáist betur í umferðinni. Að öðru leyti er við það miðað að reglur um bifhjól gildi í aðalatriðum um létt bifhjól, enda eru þau í eðli sínu líkari öðrum bifhjólum en reiðhjólum.

Í VII. kafla eru sérreglur um reiðmenn. Er þá gert ráð fyrir því að setja megi reglur um varúðarmerki fyrir reiðmenn og hesta, t.d. endurskinsmerki, þegar farið er á vegi á ljósatíma.

Í VIII. kafla eru ákvæði um ökumenn. Ákvæði er varða akstur undir áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eru í meginatriðum óbreytt. Nýmæli er þó er bannar neyslu slíkra efna næstu sex klst. eftir að akstri lauk ef ökumaður hefur haft ástæðu til að ætla að opinber rannsókn verði hafin vegna akstursins. Þá er lögð skylda á bensínafgreiðslumenn að reyna að hindra ölvun við akstur og ákvæði eru um töku öndunarsýna.

Að því er ökuréttindi varðar er flokkun ökuréttinda breytt til samræmis við alþjóðasamninga um umferð þannig að aukin réttindi þurfi til aksturs bifreiða til flutnings fleiri en átta farþega og vörubifreiða sem eru 3.5 tonn að leyfðri hámarksþyngd. Bráðabirgðaökuskírteini byrjenda gilda í tvö ár og heimild er til að ákveða að norræn ökuskírteini gildi hér á landi einnig eftir að skírteinishafi hefur sest hér að. Nýmæli er um 14 ára aldursmark til aksturs dráttarvéla við landbúnaðarstörf og aldursmark til útgáfu ökuskírteina fyrir létt bifhjól og vélsleða er hækkað í 16 ár. Loks eru í þessum kafla nokkuð breyttar reglur um ökukennara. Er aldursmark þar lækkað í 21 ár og áskilnaður um leigubifreiðarstjórapróf felldur niður, en gert ráð fyrir ökukennaranámi og prófi er taki mið af kröfum sem gera þarf til ökukennara. Einnig er þar heimild til að setja reglur um endurmenntun kennara.

Í IX. kafla um ökutæki eru ýmsar breytingar. Þar er gert ráð fyrir því að reglur verði settar um gerð og búnað, skráningu o.fl. Er gert ráð fyrir því að skráning ökutækja verði í höndum Bifreiðaeftirlits ríkisins og við það miðað að umdæmaskráning falli niður. Þar eru og ákvæði um heimild til að fela verkstæðum almenna skoðun ökutækja eða tiltekna þætti skoðunar undir eftirliti Bifreiðaeftirlitsins.

X. kafli fjallar um notkun öryggisbúnaðar, þ.e. öryggisbelta og hlífðarhjálma. Eru þau ákvæði í meginafriðum óbreytt. Þó er felld niður undanþága er varðar farþega í framsæti leigubifreiðar og undanþága leigubifreiðarstjóra miðuð við það þegar bifreið er í leiguakstri. Rétt er að taka fram að enginn fyrirvari er í frv. um refsinæmi þessara brota.

Í XI. kafla eru ákvæði um flutning, hleðslu, þyngd og stærð ökutækja og er þar að verulegu leyti gert ráð fyrir því að reglur verði settar um það efni í reglugerð en þær eigi bundnar í lögum. Mundu slíkar reglur þurfa að vera ítarlegri en nú er án þess að geta orðið tæmandi og þörf er á heimild til undanþága vegna þróunar ökutækja og breytilegra þarfa við flutninga. Nýmæli er að gert er ráð fyrir setningu reglna um flutning hættulegra efna og tækja.

XII. kafli fjallar um hindrun á vegi og XIII. kafli um umferðarstjórn, umferðarmerki o.fl. XIV. kafli fjallar um fébætur og vátryggingu. Er í meginatriðum byggt á óbreyttum bótareglum og vátryggingarskyldu. Ákvæði um lögboðna eigin áhættu eru felld niður og sett ákvæði um nefnd til að fjalla um ágreiningsmál vegna sakarskiptingar.

Í XV. kafla er fjallað um viðurlög. Að því er sviptingu ökuréttinda varðar er lagt til að fyrsta brot vegna aksturs undir áhrifum áfengis varði a.m.k. tveggja ára ökuleyfissviptingu ef vínandamagn er yfir 20/00. Ákvæðum um ítrekuð brot við ölvun við akstur er breytt þannig að þau varði ýmist tveggja eða þriggja ára sviptingu í stað ævilangrar sviptingar, en endurtekin ítrekuð brot ævilangri sviptingu. Þá er reglum um endurveitingu ökuréttinda nokkuð breytt. Meginreglan verði sú að endurveita megi ökuréttindi eftir þriggja ára sviptingartíma, en þó ekki fyrr en eftir fimm ár þegar svipting hefur verið ákveðin ævilöng.

Í sambandi við þetta atriði vildi ég aðeins leggja áherslu á hvað ökuleyfissvipting vegna ölvunaraksturs er mörgum þungbær. Þess vegna þyrfti að gera allt sem hægt er til að vekja athygli þeirra, sem ökuleyfi hafa og eru að verða flestir þjóðfélagsþegnar, hversu mikilvægt það er að láta slíkt aldrei henda sig.

Í þessum kafla eru og nokkur nýmæli um að leggja megi hald á erlend ökutæki sem erlendur ökumaður hefur notað og brotið gegn ákvæðum umferðarlaga. Ítarleg ákvæði eru um gjaldtöku vegna ýmiss konar stöðvunarbrota og verður meðferð slíkra brota ekki refsiverð. Er um að ræða mjög umfangsmikinn málaflokk þar sem nauðsynlegt er að einfalda málsmeðferð. Loks eru nýmæli um heimild lögreglu til að flytja eða láta flytja brott ökutæki, sem með ýmsum hætti brjóta í bága við reglur um stöðvun eða lagningu, valda truflun eða óþægindum eða skilin hafa verið eftir.

Í XVI. kafla er fjallað um Umferðarráð og umferðarfræðslu. Er þar í meginatriðum byggt á gildandi ákvæðum. Lagt er til að formaður og varaformaður Umferðarráðs, sem ráðh. skipar án tilnefningar, eigi sæti í framkvæmdanefnd þess, sem skipuð verði fimm mönnum sem að öðru leyti verði valdir af ráðinu sjálfu. Þá er lagt til að við hlutverk ráðsins bætist „að beita sér fyrir könnun á umferðarháttum og öðru sem umferð varðar“. Hins vegar er ljóst að starfsemi Umferðarráðs og það hver áhrif það getur haft ræðst fyrst og fremst af því fjármagni sem til þess er ráðstafað.

Í XVII. kafla eru loks ákvæði um gildistöku og er lagt til að lögin taki gildi 1. júní á næsta ári. Nauðsynlegt er að ætla tíma frá því að lögin verða samþykkt til að ganga frá ýmsum reglugerðum sem gert er ráð fyrir að settar verði. Þá er nauðsynlegt að undirbúa kynningu á hinum nýju umferðarreglum og öðrum nýmælum og loks er nauðsynlegt að gildistaka fari fram á heppilegum árstíma.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu breytingar og nýmæli skv. frv. og er þá eigi allt talið. Frv. ber það með sér að það þarf að skoða gaumgæfilega og bera saman við gildandi lög. Ég tel sjálfsagt að þm. leiti eftir umsögn um frv. hjá aðilum sem láta sig umferðarmál varða. Efni frv., einkum umferðarreglurnar, eru þess eðlis að óheppilegt er að þeim sé oft breytt, enda ríður á að borgararnir kunni jafnan á þeim glögg skil. Ég tel því ljóst að þingnefnd verði að fjalla ítarlega um efni frv.

Ég tel eigi ástæðu til að fjalla frekar um frv. þetta á þessu stigi. Í nútíma þjóðfélagi skipar umferð og umferðarmál veigamikinn þátt í daglegu lífi. Bifreiðar og önnur ökutæki eru á margan hátt nytsamleg tæki og stuðla að bættum hag þjóða, en notkun þeirra felur í sér marga hættu. Hér á landi láta um 25 manns lifið árlega í umferðarslysum, mörg hundruð slasast árlega og eignatjón af völdum umferðarslysa er gífurlegt. Það ríður því á miklu að reglur allar á þessu sviði séu glöggar, að borgurunum séu þær kunnar og að þeir fari eftir þeim. Frv. þessu er ætlað að stuðla að því að svo geti orðið.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.