18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

314. mál, umferðarlög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Hér er um umfangsmikinn lagabálk að ræða sem þarfnast umfangsmikillar umfjöllunar í nefnd eins og hæstv. ráðh. kom inn á. Þar á ég mína möguleika á vendilegri athugun og fer því ekki út í efnisatriði og breytingar, enda illa lesinn í þessum fræðum enn þá. En það voru örfá orð aðeins til íhugunar nú við 1. umr. Vitanlega er laganauðsynin ótvíræð og þeim mun skýrari og betri reglur sem við höfum, einfaldari og ljósari en ákveðnari um leið, því betra. Það er nauðsyn að huga að þessu atriði þegar öll skilyrði og allar reglur eru taldar af hinu illa og frelsið eitt skal gilda. Hvergi er „frelsið“ og 100% rétturinn minn eða þinn válegri en einmitt í umferðinni, því meginatriði umferðarinnar felast í raun og veru í því að líta í eigin barm. Varfærnin og tillitssemin í annarra garð skiptir mestu máli en ekki spurningin um hvar rétturinn er þegar upp er staðið. Það er nefnilega þannig að fyrir hinn örkumlaða eða fyrir aðstandendur hins látna skiptir þessi margumtalaði réttur engu.

Hver ferð hér um borgina eða hver ferð úti á vegum landsbyggðarinnar kallar fram hrópandi dæmi um hið ótrúlega tillitsleysi, hinn undraverða glannaskap þar sem aðalpersónan, ég, með réttinn og öryggið og sjálfstillitið gengur fyrir öllu. Konan, sem ræddi við útvarpið í morgun, minnti á þátt sjálfsábyrgðarinnar í umferðinni, hina ofurþungu ábyrgð okkar hvers og eins og kvað áróðurinn ekki snúast nóg um áminningu þessa, þ.e. varúðina gagnvart öðrum. Mér þóttu orð hennar allrar athygli verð.

Ný heildarlöggjöf er nauðsyn. Hér hafa menn verið að bæta brýnustu ágalla að því að menn hafa talið. Tvö frv. hér í þessari hv. deild nú bera þessa gleggst vitni. En framkvæmdin og möguleikar á virkri framkvæmd er það sem enn meiru skiptir. En við sjálf ráðum hér auðvitað langmestu.

Áróður hefur sannað gildi sitt. Áróður byggðan á fræðslu og staðreyndum þarf að auka. Ég nefni eitt dæmi. Það mætti fá örkumla fólkið enn frekar til liðs. Af samtölum við sumt af því veit ég að það er reiðubúið, vill leggja sitt fram til að forða öðrum frá óvægnum og grimmum örlögum sem það sjálft hefur orðið að lúta í lægra haldi fyrir. Hér má nefnilega margt gera. En sannleikurinn er sá að þá þarf að vísu enn frekara fjármagn og það fjármagn þarf þá að nýta og nota til virkilegrar fræðslu og áróðurs sem skírskotar beint til fólksins.

Ég nefni annað dæmi. Rás 2 mun mjög vinsæl meðal margra líklega sem kannske þurfa mest á að halda. Hvernig væri nú að nýta hana til hins ýtrasta í þessu efni svo sem fjölmiðla yfirleitt? En ég nefni þetta bara vegna þess að ég finn það og veit að unga fólkið t.d. — án þess að ég ætli að fara að ásaka það — hlustar mjög á Rás 2 og tekur vel eftir mörgu því sem þar er sagt.

Skólinn á sína miklu möguleika. Ég þekki það sjálfur frá mínu eigin starfi. En ég held að við ættum samt sem áður ekki frekar í þessu en öðru að gleyma grunneiningunni, heimilunum sjálfum. Þar er kannske vöntunin mest á raunhæfri umferðarfræðslu. Ég er ekki frá því að þar sé brotalömin allra verst. Það vantar máske eitthvert hjálpartæki fyrir foreldrana. En vitanlega eru þar margar ánægjulegar undantekningar sem sanna þessa reglu. Að öllu þessu þarf að hyggja.

Aðalerindi mitt hingað var þó það atriði sem er eitt þeirra sem oft má ekki hafa hátt um, en er þó ein meginvá allra okkar umferðarmála. Þar á ég við ölvunaraksturinn. Tiltækar tölur eru þar uggvekjandi en annað felst aldrei í þeim tölum, önnur brot komast aldrei upp. En tiltækar tölur segja allt of mikið. Nú telja menn það helst rétt að bæta við þessa vá, þessa hræðilegu hættu. Bjórlíkhúsin segja þegar til sín, það segir lögreglan ótvírætt og hefur um skýr dæmi. Yfirfljótandi bjór gæti því skapað enn meiri hættu þar sem andvaraleysið, að ég segi nú ekki kæruleysið, segði þá enn frekar til sín en nú er. Ég held að hér þurfi líka að vera vel á verði og ótti minn er ekki ástæðulaus, segja þeir sem gleggst þekkja og eru best inni í umferðarmálum.

Að lokum í fullri alvöru þó mönnum þyki það kannske einhver gálgahúmor. Hvernig væri að gera skyndikönnun eftir veislur í ráðherrabústað eða öðrum slíkum stöðum, Höfða eða Rúgbrauðsgerðinni? Ég skýt þessu svona að hæstv. dómsmrh. að hann beiti sér fyrir einni slíkri eða svo. Ekki mæli ég svo af því að hæstv. landbrh. hefur boð inni í dag og liggja til þess auðskildar ástæður. En einhvern veginn er það nú svo eftir að ég hef verið í slíkum fagnaði-það er sjaldan en það kemur fyrir — og ekið brott ásamt öðrum að ljóðlínurnar frægu hafa ómað í eyru mér: Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.“ Skal svo ekki orðlengt um það frekar á föstunni.