20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3074 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

111. mál, áfengislög

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það var kominn tími til þess að ræða svolítið um áfengismálin, ekki síst við hæstv. dómsmrh. Það er auðvitað hverjum manni ljóst að það er mikill ruglingur í meðferð þessara mála. Í áfengislögum er sagt að eigi megi flytja inn, brugga eða selja áfengt öl í landinu. Á þessu er ansi mikill misbrestur. Það er bannað að flytja sterkt öl til landsins en samt er það gert. Flugfarþegar, sem koma frá útlöndum, mega taka með sér inn í landið áfengt öl þrátt fyrir lög um það gagnstæða.

Það er auðvitað öllum kunnugt, sem hér eru inni, að víða um land hafa verið opnaðar ölkrár svokallaðar. Og hvað skyldi nú vera selt í þeim? Ekkert annað en sterkt áfengt öl, þrátt fyrir það að lög banna bruggun og sölu á áfengu öli. Hvað er bruggun? Það er hægt að framleiða áfengt öl fram yfir hið löglega mark með því að sulla út í það einhverju brennivíni. En með því verður það auðvitað áfengt og ólöglegt. Ég hef ekki tekið eftir því að hæstv. dómsmrh. hafi á nokkurn hátt hruggað við þessu, nema kannske með því að leyfa sumum ölsjoppum að hafa opið til 11 og öðrum til kl 1. Kjarni málsins er auðvitað sá að þessi ölsala er ólögleg. Ber hæstv. dómsmrh. þess vegna að stöðva þá sölu til þess að farið sé eftir lögum.