20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3076 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

111. mál, áfengislög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil ítreka það, sem ég fór hér fram á áðan, að þingið fái áfangaskýrslu þeirrar nefndar sem hér hefur verið að störfum á undanförnum misserum og skilað tveimur álitum. Ég tel að það sé verkefni alþm. að taka afstöðu til þessarar skýrslu. Embættismenn eru auðvitað góðir svo langt sem það nær. En það getur ekki verið hlutverk ríkisstj. í þessu efni að hlusta einvörðungu á þær athugasemdir sem fram koma frá embættismönnum. Ég tel að það sé skylda alþm. að taka á þessu máli þegar jafngífurlegur þrýstingur er í gangi í þjóðfélaginu á það að brjóta upp áfengislöggjöfina. Auðvitað er algert lágmark að þm. fái þessa skýrslu hér til meðferðar og til umræðu. Það væri út af fyrir sig ekki úr vegi að hér yrði haldin sérstök umræða í Sþ. um þessa skýrslu og það hvernig hv. alþm. vilja nálgast þessi mál. Ég skora á hæstv. landbrh., sem á fulltrúa í þessari nefnd, trúi ég, að beita sér fyrir því að slík umræða fari hér fram á hv. Alþingi. En ég endurtek sérstaklega áskorunina um það að skýrslurnar, tillögur nefndarinnar um opinbera stefnumótun í áfengismálum, eiga alþm. að fá undanbragðalaust.